Hjörleifur Guttormsson 17. júní 2006

Loftslagsbreytingar – horfur og tæknilausnir

Opinber umræða um loftslagsbreytingar hefur nú staðið í hálfan annan áratug rúmt reiknað eða frá því í aðdraganda að gerð loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Ríó 1992. Til skamms tíma var lítill þungi í þessari umræðu nema á vettvangi sérfræðinga og margar efasemdarraddir heyrðust sem gerðu lítið úr aðsteðjandi vanda. Íslensk stjórnvöld voru í þessum hópi og aðgerðaleysi þeirra í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og kröfur um sérlausnir Íslandi til handa endurspegla stöðnuð viðhorf. Nú eru úrtöluraddirnar að mestu þagnaðar og straumhvörf virðast vera í aðsigi hvað snertir viðurkenningu á þessum stærsta alþjóðlega vanda sem við mannkyninu blasir. Um það veldur mestu sú samstaða sem ríkir meðal vísindamanna innan IPCC-hópsins (Alþjóðlegs samráðsvettvangs um loftslagsbreytingar) um að auðsæjar loftslagsbreytingar á heimsvísu séu af mannavöldum, afleiðing iðnvæðingar og sívaxandi ósjálfbærrar orkunotkunar. Vaxandi sveiflur í veðurfari, hitamet, flóð, þurrkar og fellibyljir hafa lagst á sömu sveif, ýtt við fjölmiðlum og vakið almenning til umhugsunar.

Aðvaranir sem ekki verða hundsaðar

Æ fleiri áhrifamenn blanda sér nú í kór hrópenda sem ekki aðeins vekja athygli á afleiðingum loftslagsbreytinganna heldur gera kröfur um róttækar aðgerðir. Í greinum hér á síðunni hefur nýlega verið vitnað til vísindamanna og rithöfunda eins og Jared Diamond (Collapse) og James Lovelock (The Revenge of Gaia) sem með bókum sínum hreyfa við almenningi ekki síður en Andri Snær Magnason (Draumalandið) hérlendis. Bill Clinton notaði auðmannavettvanginn í Davos sl. vetur til að undirstrika sitt mat á hættunni á hruni siðmenningar ef fram fer sem horfir í mengun andrúmsloftsins og nú er Al Gore fyrrum varaforseti genginn í endurnýjun lífdaga með kynningu á kvikmynd sinni Óþægilegur sannleikur (An Inconvenient Truth). – Ólafur Ragnar Grímsson forseti hefur blandað sér í þennan kór og átti góðan þátt í að hér var fyrir fáum dögum haldið alþjóðlegt samráðþing um loftslagsbreytingar. Meðal þeirra sem hingað komu af því tilefni var Rajendra K. Pachauri, forseti IPCC-hópsins, sem í viðtali við Morgunblaðið 13. júní sl. talaði enga tæpitungu.

Tæknilausnir til að binda gróðurhúsaloft

Samhliða því sem reynt er að koma böndum á losun gróðurhúslofttegunda með alþjóðasamningum, sbr. Kyótóbókunina, og aukinni notkun vistvænna orkugjafa hafa komið fram margháttaðar hugmyndir um hvernig vinna megi til baka gróðurhúslofttegundir og þá fyrst og fremst koldíoxíð úr andrúmslofti og binda til langframa. Lífrænar aðferðir um verndun og ræktun skóga og aukna bindingu í gróðri eru eðlilega nærtækar en margt hægra sagt en gert í þeim efnum sem og að meta afraksturinn sem framlag í skuldbindingum einstakra ríkja. Þá hefur niðurdæling á CO2 í holrúm í jörðu, m.a. í tengslum við olíuvinnslu, verið til athugunar um árabil í Noregi og víðar. Í tengsum við samráðþingið hér á dögunum voru kynntar hugmyndir íslenskra jarðvísindamanna um að binda koldíoxíð í bergi og á ný hefur verið vakin upp hugmyndin um að nýta gróðurhúsloft frá járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga til olíuframleiðslu. Allt ber þetta vott um áhuga og leit vísindamanna til að þróa aðferðir sem að gagni mættu verða í glímunni við loftslagsbreytingarnar. Aðeins reynsla og þróunarstarf getur leitt í ljós hvort slíkar tæknilausnir geti skilað marktækum árangri. Svo sjálfsögð sem slík viðleitni er má hún ekki virka sem svefnþorn eða verða til þess að seinka því að alþjóðasamfélagið sameinist um aðgerðir sem örugglega geti skilað árangri.

Minni orkunotkun – breyttir lífshættir

Pachauri forseti IPCC lagði einmitt á þetta áherslu í nefndu viðtali við Morgunblaðið. “Iðnríkin verða að draga úr orkunotkun sinni, huga betur að orkunýtingu og notkun endurnýjanlegra orkugjafa eins og sólar- og vindorku.” Það verði að grípa til aðgerða, “ekki seinna en strax” sagði hann. Svipaðar áherslur komu fram í máli Jeffrey D. Sachs prófessors við Kólumbíuháskóla í Bandaríkjunum sem hér undirritaði samstarfssamning við Háskóla Íslands. Um leið og hann undirrstrikaði gildi þess að reynt yrði að binda kolefni í jarðlögum benti hann á að enn er eftir að sanna að slík aðferð virki í reynd.
Enn skortir mikið á að hagfræðingar og fulltrúar hagvísinda leggi sitt til umræðunnar um lausnir í glímunni við loftslagsvandann, en uppspretta hans er ekki síst hagræns eðlis. Sívaxandi heimsframleiðsla, umferð og samgöngur í krafti jarðefnaeldsneytis er meginástæða loftslagsbreytinganna. Við þær verður ekki ráðið nema hægt verði á hjólum efnahagslífs og efnislegrar framleiðslu, fyrst af öllum í þróuðum ríkjum. Það kallar í senn á breytt tök á efnahagsstjórn og á breytta lífshætti almennings. Alltof lítil umræða á sér stað um hvernig koma megi á slíkum straumhvörfum og flest stefnir þar enn í öfuga átt.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim