Hjörleifur Guttormsson 18. mars 2006

Vopnin kvödd

Brottför Bandaríkjahers frá Íslandi ætlar að verða álíka söguleg og koma hersins hingað fyrir 55 árum. Í morgunsárið 7. maí 1951 vöknuðu Íslendingar við þau tíðindi að landið væri á ný hersetið. Tilkynningin kom fyrirvaralaust en það fylgdi sögunni að her og vígtól væru hingað komin með samþykki þingmanna þriggja stjórnmálaflokka: Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Alþýðuflokks. Þetta gerðist þrátt fyrir svardaga ríkisstjórnar og þingmanna sömu flokka við inngöngu í NATÓ tveimur árum fyrr þess efnis að hér skyldi aldrei vera her á friðartímum. Því var borið við að Bandaríkin ættu í styrjöld í Kóreu hinum megin á hnettinum og ófriðvænlega horfði í samskiptum stórvelda. Alþingi kom hvergi við sögu þessa gjörnings fyrr en eftir á til að innsigla samning sem gerður hafði verið með leynd. Sá drjúgi mannsaldur sem síðan er liðinn hefur verið samfelld kennslubók um það hvernig stórveldi kemur ár sinni fyrir borð gagnvart smáþjóð og flækir innlenda valda- og áhrifamenn í net sín. Herstöðvar verða hvarvetna meinsemd sem gera hýsilinn háðan sér. Herstöðin á Keflavíkurflugvelli ásamt útstöðvum var þar engin undantekning.

Ríkisstjórnin eins og þvara

Eftir hrun Sovétríkjanna fyrir hálfum öðrum áratug hefði mátt halda að íslenskir ráðamenn áttuðu sig á að sýndarrökin fyrir herstöðvum hérlendis dygðu ekki lengur. Fjárhagslegir hagsmunir af hersetunni og hugmyndaleg tregða hefur hins vegar til þessa haldið flokkunum þremur og talsmönnum þeirra við sama heygarðshorn. Þótt óvinurinn hafi gufað upp og Rússar gerst bandamenn með formleg tengsl við NATÓ var klisjunni um að ekkert land mætti vera herlaust haldið á lofti. Bandaríkin voru þrábeðin um að halda héðan úti herþotum á sveimi í fullkomnu tilgangsleysi frá þeirra bæjardyrum séð.
Augljóst er að beint samhengi er á milli stuðnings íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak og þrábeiðni þeirra um áframhaldandi dvöl bandaríkjahers hérlendis. Í því ljósi verður tilkynningin til Halldórs Ásgrímssonar um brotthvarf hersins símleiðis gegnum undirsáta Bush af þriðju gráðu meiri lítilsvirðing en ella og það beint ofan í heimsókn formanns Sjálfstæðisflokksins til Washington. Hreinar leppstjórnir hafa eflaust tíðum mátt þola slíkt af stórveldum en þessir samskiptahættir ganga fram af Íslendingum hvar í flokki sem þeir standa. Viðbrögðin af hálfu forsætisráðherra eru hins vegar til að bíta höfuð af skömminni. Nú er kallað á NATÓ sem millilið og gefið til kynna að ekki þurfi nema “eitthvað táknrænt”, “eitthvert sýnilegt tákn” um hervarnir til að róa íslensk stjórnvöld og halda áfram þeim ójafna leik sem grunnur var lagður að með herstöðvasamningnum 1951.

Andstaðan gegn herstöðvastefnunni

Eldra fólk þekkir þau snöggu veðrabrigði sem urðu þegar íslensk stjórnvöld vörpuðu hlutleysisstefnunni fyrir róða og kölluðu hingað erlendan her. Afstaðan til herstöðvanna hefur í meira en hálfa öld skipt þjóðinni í andstæðar fylkingar. Hver og einn á sínar persónulegu minningar tengdar sögu hernámsins. Sá sem þetta skrifar man það áfall sem hugmyndaheimur hans varð fyrir er fréttin barst um komu bandaríska hersins. Ég þreytti þá landspróf við Menntaskólann á Akureyri og hafði áður skipað mér í raðir ungra framsóknarmanna eystra. Traust minn á forystumönnum Framsóknar hvarf við þennan atburð sem dögg fyrir sólu, minnugur m.a. svardaganna um herlaust land við inngönguna í NATÓ. Andstaðan gegn herstöðvunum gekk áratugum saman þvert á flokka frá vinstri og inn á miðju stjórnmálanna. Mikill er sómi þess fólks sem skipaði sér undir merki herstöðvaandstæðinga og fylgdi sannfæringu sinni gegnum kalt stríð þrátt fyrir brigslyrði og stöðugar ásakanir um stuðning við málstað hins risaveldisins. Nú geta menn séð í skýrara ljósi en áður hverra erinda Bandaríkin gengu hér og að staða Íslands og öryggi í hörðum heimi var léttvægt á mælikvarða Pentagons. Skýrustu og áhrifamestu rök herstöðvaandstæðinga voru alla tíð þau að með kjarnorkuherstöð í Keflavík væri Ísland augljóst skotmark á fyrstu augnablikum styrjaldar stríðandi fylkinga.

Óháð Ísland án herbækistöðva

Rök andstæðinga erlendra herstöðva hérlendis eru enn í fullu gildi. Í hugsanlegum styrjaldarástökum er sú smáþjóð síst betur sett sem leyfir herstöðvar í landi sínu. Enginn reynir svo mikið sem að benda á óvin sem ógni Íslandi hernaðarlega nú eða í fyrirsjáanlegri framtíð. Því eiga Íslendingar við orðin þáttaskil að losa sig úr viðjum herstöðvasamningsins frá 1951 og skipa sér utan hernaðarbandalaga. Öryggismál þjóðarinnar í víðu samhengi á að byggja á sérstöðu Íslendinga sem þjóðar er ekki heldur úti eigin her en leitast við að tryggja öryggi sitt á borgaralegum forsendum í góðri samvinnu við grannþjóðir í austri og vestri.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim