Hjörleifur Guttormsson | 21. október 2006 |
Virkjun Fjarðarár: Ný skrautfjöður í stefnu Samfylkingarinnar Framkvæmdir eru hafnar við Fjarðarárvirkjun í Seyðisfirði 7,4 megavött að stærð í tveimur þrepum niður á láglendi frá stóru miðlunarlóni á Fjarðarheiði. Framkvæmdin var ekki sett í umhverfismat þrátt fyrir kröfur Náttúruverndarsamtaka Austurlands, Landverndar og ýmissa einstaklinga um hið gagnstæða. Meira að segja iðnaðarráðuneytið taldi slíka kröfu eðlilega. Umhverfisstofnun hafði ekki fyrir því að senda fulltrúa sinn á vettvang til að kynna sér áhrif framkvæmdarinnar. Samningar Seyðisfjarðarkaupstaðar við Íslenska orkuvirkjun ehf um vatnsréttindi og orkusölu frá virkjuninni til Hitaveitu Suðurnesja eru leyniplögg. Meira að segja sveitarstjórnarmenn á Seyðisfirði fengu ekki afhent eintök af samningunum og urðu að láta sér nægja að hraðlesa þá á fundi þar sem þeir voru bornir upp til samþykktar. Fjarðardalur ásamt Fjarðará með um 25 margbreytilegum fossum er megindjásn í náttúru Seyðisfjarðar. Margir þessara fossa blasa við af alfaraleið. Stýring á rennsli fossanna rýrir óhjákvæmilega gildi þeirra til náttúruupplifunar og verndun þeirra óskertra varðar alla Íslendinga og þá mörgu sem koma til landsins sjóleiðis. Mannvirki með stöðvarhúsum og pípugörðum fram með alfaraleið til og frá Seyðisfirði munu setja mark sitt á Fjarðardal um ókomin ár fyrir utan mikið og áberandi jarðrask á meðan á framkvæmdum stendur. Fjarðará átti að mati undirritaðs að vernda óskerta sem náttúruperlu ásamt umhverfi sínu og nýta Fjarðardal til útivistar og kynningar í þágu ferðaþjónustu. Fjarðarselsvirkjun litla frá 1913 raskar ekki ánni svo teljandi og er tilvalin til kynningar sem sögulegar minjar. Það var lágmarkskrafa að fyrirhuguð virkjun færi lögboðna leið í mat á umhverfisáhrifum. Tryggvi Harðarson, nú frambjóðandi í 3. sæti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, skrifaði grein í Fréttablaðið 9. október sl. undir fyrirsögninni „Fjarðarárvirkjun fyrirmynd”. Í málflutningi hans birtist okkur enn ein útgáfan af ráðleysi Samfylkingarinnar í umhverfismálum. Tryggvi var bæjarstjóri á Seyðisfirði á síðasta kjörtímabili en hélt heimilisfesti sínu í Hafnarfirði. Eins og hann segir frá í greininni notaði hann bæjarstjóratíð sína á Seyðisfirði m.a. til að koma á leynisamningunum um virkjun Fjarðarár og ráðstafa raforkunni þaðan í púkk fyrir álver í Helguvík. Þessi frambjóðandi Samfylkingarinnar telur vinnubrögð við undirbúning Fjarðarárvirkjunar til sérstakrar fyrirmyndar og telur að þar hafi náttúran fengið forgang. Nú hyggst hann nota þessi afrek sín eystra, virkjun á náttúruperlu án umhverfismats, sem sérstakt agn til að afla sér stuðnings í Suðvesturkjördæmi. Um leið bætir hann við enn einni skrautlegri fjöður í náttúruverndarstefnu Samfylkingarinnar. Hjörleifur Guttormsson |