Hjörleifur Guttormsson 22. mars 2006

Alcoa brýtur gefin loforð.
Álverksmiðja í byggingu án umhverfismats

Samkvæmt dómi Hæstaréttar 9. júní 2005 var ómerktur úrskurður umhverfisráðherra frá 15. apríl 2003 þess efnis að álver Alcoa á Reyðarfirði þurfi ekki að sæta umhverfismati.
Að uppkveðnum þessum dómi bar Alcoa sem framkvæmdaraðila að láta meta áform sín um byggingu 322 þúsund tonna álverksmiðju í samræmi við gildandi lög.

Þrátt fyrir þennan dóm Hæstaréttar voru framkvæmdir við byggingu álverksmiðjunnar hins vegar ekki stöðvaðar og því borið við að í gildi væri framkvæmdaleyfi frá Fjarðabyggð og starfsleyfi útgefið af Umhverfisstofnun. Þó er forsenda fyrir hvorutveggja að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram. Ráðherrar í ríkisstjórn lögðu blessun sína yfir þessa málsmeðferð og byggingu verksmiðjunnar er haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Alcoa Fjarðaál hóf hins vegar undirbúning að síðbornu mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Fyrirtækið lagði í júlí 2005 inn til Skipulagsstofnunar tillögu að matsáætlun þar sem segir m.a. undir fyrirsögninni “Tímaáætlun” (bls. 23):

“Eftirfarandi er tímaáætlun matsferlisins:

  • Tillaga að matsáætlun verður send Skipulagsstofnun í lok júlí 2005.
  • Niðurstaða Skipulagsstofnunar um tillögu að matsáætlun er þá væntanleg í lok ágúst 2005.
  • Matsskýrslu verður skilað til Skipulagsstofnunar í nóvember 2005.
  • Álit Skipulagsstofnunar er þá væntanlegt snemma árs 2006.”

Skipulagsstofnun lagði formlega blessun sína yfir matsáætlunina 2.september 2005 og lét fylgja með ýmis áhersluatriði sem taka bæri tillit til við vinnslu matsskýrslu. Til þessarar matsskýrslu Alcoa hefur hins vegar ekkert spurst. Fyrirtækið heldur ótrautt áfram við að setja mark sitt á umhverfi Reyðarfjarðar, nú síðast með því að reisa 78 m háan skorstein til að dæla út mengunarefnum. Þó stendur í matsáætlun Alcoa eftirfarandi: “Sjónræn áhrif álversins verða rannsökuð og rædd í fyrirhugaðri matsskýrslu. Gert verður þrívítt tölvulíkan af álveri Alcoa Fjarðaáls til að meta sjónræn áhrif.”. Fjölda annarra atriða ber að meta samkvæmt áætlun Alcoa og að lögum, þar á meðal “bestu fáanlega tækni”, “samfélagsleg áhrif” og “umhverfisáhrif á framkvæmdatíma”, að ógleymdri  “Núll-lausn”, þ.e. að ekkert verði af framkvæmdinni.

Alcoa hefur leitast við að gefa af sér þá ímynd hérlendis að vera traust og áreiðanlegt fyrirtæki. Eitthvað sýnist það málum blandið miðað við gefin fyrirheit Alcoa um að fara að lögum en standa svo ekki við eigin yfirlýsingar gefnar íslenskum stjórnvöldum. Fyrirtækið skuldbatt sig til að  skila inn matsskýrslu í nóvember síðastliðnum svo að unnt sé að meta umhverfisáhrif framkvæmda við álverksmiðju á Reyðarfirði. Fjórum mánuðum síðar er sú skýrsla enn ókomin.  

Meðfylgjandi skjal: Tillaga Alcoa að matsáætlun, júlí 2005

Fréttatilkynning til fjölmiðla

 


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim