Hjörleifur Guttormsson 25. maí 2006

Atkvæðaseðillinn og stóriðjustefnan

Kosningarnar til sveitarstjórna næsta laugardag snúast um stefnu hlutaðeigandi framboða og stjórnmálaflokka sem að þeim standa. Þótt stjórnsýslustigin tvö, ríki og sveitarfélög, séu að formi til aðskilin hvað starfshætti og verkefni snertir, er þó alltaf um að ræða pólitísk tengsl á milli forystu í landsmálum og stefnu viðkomandi flokka í sveitarstjórnum. Margir kjósendur átta sig á þessu og því hafa landsmál eðlilega áhrif á það hvernig menn verja atkvæði sínu í sveitarstjórnarkosningum. Nægir í þessu sambandi að minna á nýafstaðnar sveitarstjórnarkosningar í Bretlandi þar sem ríkisstjórn Tony Blairs galt afhroð og enduspegluðu úrslitin vaxandi óánægju með stefnu hennar á mörgum sviðum, þar á meðal þátttöku Breta í Írakstríðinu.

Stóriðjustefnan og sveitarstjórnir

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur allt frá árinu 1995 staðið fyrir stóriðju sem lykilatriði í atvinnuþróun hérlendis. Fyrst kom til stækkun Ísal, þá bygging álverksmiðju á Grundartanga og svo stóra stökkið með Kárahnjúkavirkjun og risaálveri á Reyðarfirði. Í öllum tilvikum hefur ríkisvaldið haft náið samstarf við sveitarstjórnarmenn til að ná fram stefnu sinni. Sveitarstjórnir gegna lykilhlutverki við skipulag og leyfisveitingar vegna stóriðjuframkvæmda. Án meirihlutastuðnings við stóriðjuáform í viðkomandi sveitarstjórnum getur ríkisvaldið ekki komið stefnu sinni fram. Þetta hefur komið vel í ljós í sveitarfélaginu Skagafirði þar sem iðnaðarráðherra hefur í samvinnu við flokksmenn sína og fleiri heima fyrir reynt að knýja fram ákvarðanir um virkjanir í Jökulsá eystri en ekki tekist það vegna andstöðu meirihluta sveitarstjórnar sem Vinstri grænir eiga aðild að með Sjálfstæðismönnum. Áfram eru á dagskrá stjórnvalda stóraukin áform um ný og stærri álver, á Húsavík, í Straumsvík og í Helguvík. Öll kalla þau á nýjar virkjanir vatnsafls og jarðvarma. Þeir sem andvígir eru þessari stefnu hljóta að íhuga vel hvernig þeir best geti notað atkvæði sitt í sveitarstjórnarkosningunum til að hamla gegn frekari stóriðju og meðfylgjandi náttúruspjöllum.

Samfylkingin í sauðagæru

Nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna hefur Samfylkingin reynt að breiða yfir stefnu sína í stóriðjumálum. Það er þó ekki auðvelt því að í reynd hefur Samfylkingin stutt öll þau stóriðjuáform sem að ofan greinir og sums staðar verið í forystu heima fyrir eins og varðandi álverið á Reyðarfirði. Formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, gerði sem borgarstjóri bandalag við fulltrúa Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn um að borgin ábyrgðist fjármögnun Kárahnjúkavirkjunar. Á Húsavík er varaþingmaður Samfylkingarinnar, Örlygur Hnefill Jónsson, sérstakur fánaberi í álversfylkingunni og í Hafnarfirði ber ekki á andstöðu meirihluta Samfylkingarinnar við gífurleg stækkunaráform hjá Ísal. Það er því ljóst að stuðningur við Samfylkinguna í sveitarstjórnum jafnt í Reykjavík sem annars staðar er ekki leiðin til að stöðva stóriðjusóknina. Í því efni eru það Vinstri grænir sem hægt er að treysta.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim