Hjörleifur Guttormsson 25. október 2006

Hvalveiðihneyksli í aðdraganda kosninga
Birtist sem grein í Morgunblaðinu 25. október 2006

Sú ákvörðun sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnar nú í vetrarbyrjun að láta hefja atvinnuveiðar á hvölum er illa rökstutt glapræði. Þetta skref sver sig í ætt við flumbrugang sem einkennt hefur aðkomu íslenskra stjórnvalda að hvalamálefnum í meira en áratug: Brotthlaup úr Hvalveiðiráðinu 1991, stofnun sjávarspendýraráðsins NAMMCO 2002 og innganga í Hvalveiðiráðið á nýjan leik áratug síðar. Þótt Íslendingar haldi til haga rétti sínum til að nýta sjávarauðlindir á sjálfbæran hátt gegnir allt öðru máli um hvort og með hvaða hætti sé látið á það reyna þegar hvalveiðar eru annars vegar. Hvalir eru fardýr og hvalastofnar því fjölþjóðleg auðlind. Um þá gegnir allt öðru máli en með fiskistofna sem halda sig að mestu eða öllu leyti innan íslensku efnahagslögsögunnar. Ríkir hagsmunir þurfa að vera til staðar til að bjóða almenningsáliti víða um heim birginn eins og nú er gert. Slíkir hagsmunir eru ekki fyrir hendi og þvert á móti margt sem mælir eindregið gegn þessari sjálfbirgingslegu og skammsýnu ákvörðun.

Tvö kjörtímabil, engin ályktun.

Ákvörðunin um atvinnuhvalveiðar kemur ekki aðeins umheiminum á óvart heldur einnig hér innanlands. Tvö kjörtímabil eru síðan Alþingi fjallaði um tillögu um hvalveiðar og þá með þeim hætti að afar langsótt er að tengja umdeilda ályktun þess frá 10. mars 1999 við það skref sem nú er stigið. Ég hvet menn til að kynna sér þetta gamla þingmál (nr. 92/1999) og umræður um það. Að málinu stóðu sömu flokkar og nú eru í ríkisstjórn en þingmenn óháðra, nú Vinstri grænir, og nokkrir þingmenn aðrir greiddu atkvæði á móti því að hefja hvalveiðar. Í ályktuninni segir m.a. að hefja skuli hvalveiðar hér við land “hið fyrsta” eða á árinu 2000 og var ríkisstjórinni falið „ ... að kynna málstað og sjónarmið Íslendinga meðal viðskiptaþjóða okkar”. Ekkert var aðhafst í þessa veru þar til nú átta árum síðar að fyrirvaralaust eru hafnar atvinnuhvalveiðar.

„Vísindaveiðar” á hrefnu standa enn yfir.

Það sýnir með öðru óðagotið hjá stjórnvöldum að taka ákvörðun um hvalveiðar í atvinnuskyni á meðan enn standa yfir svonefndar vísindaveiðar á hrefnu. Þær 30 hrefnur sem nú á að veiða í atvinnuskyni koma „ ... til viðbótar þeim 39 hrefnum sem teknar verða árið 2007 við framkvæmd vísindaáætlunar Hafrannsóknastofnunarinnar” segir í fréttatilkynningu sjávarútvegsráðherra. Með þessu er gefið til kynna að ákvörðunin um vísindaveiðar hafi verið einbert yfirskyn. Hafrannsóknastofnun hefur undanfarið einmitt undirstrikað hversu takmörkuð vitneskja sé um hrefnustofninn hér við land, m.a. um far og aðsetur að vetrarlagi svo og um líffræði hans og vistfræði. Boðuð er nú viðamikil talning á hvölum á Íslandsmiðum á næsta ári. Menn hljóta að spyrja hvers vegna í ósköpunum sé ekki lokið við umrædda vísindaáætlun og skoðaðar niðurstöður hennar áður en ákvörðun er tekin um framhaldið. Hér hrópar hvað á annars horn og þeir menn eru ekki öfundsverðir sem settir eru í það hlutverk að útskýra fyrir umheiminum mótsagnakennda stefnu íslenskra stjórnvalda.

Óvísindalegar afránstölur.

Talsmenn atvinnuhvalveiða klifa á því að hvalir séu að éta þosk og aðra nytjastofna hér við land út á gaddinn. Í fréttatilkynningu sem Hafrannsóknastofnun lét frá sér fara 2003 var staðhæft að samkvæmt mati frá 1997 taki 12 hvalategundir hér við land til sín 6 miljónir tonna af sjávarfangi árlega, hrefna þar af þriðjung og sé fiskur í fæðu hennar ein miljón tonna árlega, þorskur um 60 þúsund tonn. Tveimur árum síðar, 9. nóvember 2005, lesum við í frétt frá Hafrannsóknastofnun að meginmarkmið yfirstandandi vísindaveiða á hrefnu sé að afla grunnupplýsinga un fæðuvistfræði hrefnunnar á landgrunni Íslands og bráðabirgðaniðurstöður eigi að leggja fyrir vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins. Víða kemur fram í gögnum stofnunarinnar að upplýsingar um fæðuvistfræði umræddra 12 hvalategunda séu af skornum skammti. Samt klifa hagsmunasamtök eins og LÍÚ 22. október sl. á þessari áratuga gömlu ágiskun. Auðvitað skipta hvalir eins og aðrar lífverur sinn sess í vistkerfi hafsins en ofangreinar staðhæfingar ala á þeirri bábilju að maðurinn sé þess umkominn að stjórna lífkeðju sjávar.

Blóðvöllurinn framundan.

Á aðalfundi LÍÚ 19. október sl. orðaði sjávarútvegsráðherra boðskap sinn um hvalveiðar þannig: “Það er skylda okkar sem ábyrgrar þjóðar að nýta þessa auðlind okkar og leggja okkur fram um að það sé þannig gert að hámarksafrakstursgetan aukist.” Miðað við þetta markmið er það ekkert smáræðis verkefni sem ríkisstjórnin ætlar sér í samvinnu við Hval hf. og fleiri. Veiði á 250 hrefnum og 200 langreyðum sem nefnd hefur verið dregur skammt til að hafa marktæk áhrif á meint afrán og tryggja “hámarksafrakstur” þannig að betur má ef duga skal. Það á svo eftir að koma í ljós hverjir muni njóta krásanna eða hvort kjötfjallið sem byrjað er að safna í endi í urðunargryfjum eins og bein og innyfli úr þessu forneskjulega hvalveiðiævintýri.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim