Hjörleifur Guttormsson 26. maí 2006

Áhrif stóriðjuframkvæmda á Austurlandi

Greinin birtist nýlega í Tæknivísi, blaði byggingatæknisfræðinema, 30. árgangi 2006

Nokkur meginatriði
Umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar eru stórfelldari en af nokkru öðru mannvirki  sem ráðist hefur verið í hingað til hérlendis. Margt bendir til að virkjunarinnar og tengdra stóriðjuframkvæmda verði minnst sem vítis til að varast. Með Kárahnjúkavirkjun er í fyrsta sinn á Íslandi veitt saman stórfljótum með ófyrirséðum afleiðingum. Rannsóknir á jarðfræðilegum forsendur virkjunarinnar áður en ákvörðun var tekin voru allsendis ófullnægjandi. Virkjunin ristir stórt og óendurkræft sár í víðáttu sem átt hefði heima í  Vatnajökulsþjóðgarði. Raflínur að álverinu á Reyðarfirði setja mark sitt á marga dali og heiðar. Aðstæður á Reyðarfirði fyrir risaálver með tilliti til mengunar eru með þeim óhagstæðustu sem þekkjast hérlendis. Óumdeilt er að samfélagsleg áhrif stóriðjuframkvæmdanna verða stórfelld. Þær voru m.a. rökstuddar sem byggðamál til að  stöðva fólksflótta frá Austurlandi. Óvíst er að sú verði raunin þá upp er staðið. Gífurleg efnahagsleg áhætta er tekin með framkvæmdinni í heild. Mikilvægir þættir eins og raforkuverð fást ekki upplýstir og er borið við viðskiptaleynd. Eigandi álversins, bandaríski auðhringurinn Alcoa, verður ráðandi fyrirtæki á Austurlandi og stefnir nú að því að eignast fleiri álver hérlendis.

Fórnarkostnaðurinn
Náttúrufarsleg umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar teygja sig frá Vatnajökli í suðri á haf út í Héraðsflóa, frá Brúaröræfum í vestri austur á Hraun og um gjörvallt Fljótsdalshérað. Framkvæmdaraðilinn Landvirkjun viðurkenndi á undirbúningsstigi að áhrifin yrðu stórfelld en staðhæfði að efnahagslegur ávinningur og atvinnuþróun réttlættu inngripin. Skipulagsstofnun taldi virkjunina ekki standast mælikvarða laga um mat á umhverfisáhrifum og hafnaði framkvæmdinni. Ríkisstjórn og Landsvirkjun undu ekki þeim úrskurði og framkvæmdin var knúin í gegn með pólitísku handafli og samþykki meirihluta alþingismanna. Landið sem fyrir áhrifum verður, jarðmyndanir, gróður og vatnalíf er að engu metið í kostnaði virkjunarinnar, hvað þá í raforkuverði. Skilyrði sem umhverfisráðherra setti fyrir framkvæmdinni voru lítilfjörleg miðað við heildaráhrifin. Viðurkennt er að sum þeirra eins og aðgerðir til að varna uppblæstri út frá Hálslóni séu dæmd til að mistakast.

Ófullnægjandi rannsóknir og mikil áhætta
Það liggur nú fyrir að ýmsar veigamiklar rannsóknir sem tengdust undirbúningi virkjunarinnar voru ófullnægjandi. Það á ekki aðeins við um umhverfisáhrif heldur jarðfræðilega grunnþætti vegna jarðgangagerðar, stíflumannvirkja og undirstöðu Hálslóns. Erfiðleikar við jarðgangaborun undir Fljótsdalsheiði hafa valdið töfum og kostnaðarauka og óvíst er að virkjunin komist í fullan rekstur á tilsettum tíma. Alvarlegri er þó vanræksla á undirbúningsstigi á að rannsaka sprungukerfi og jarðhita þeim tengdum á og við stíflur Kárahnjúkavirkjunar og undir Hálslóni. Vantaði þó ekki aðvaranir jarðvísindamanna um þessi atriði en á þær var ekki hlustað í tæka tíð. Frekari rannsóknir eftir að framkvæmdir hófust við virkjunina hafa staðfest að ýmsar aðvaranir vísindamanna voru réttmætar og um aðra þætti ríkir áfram óvissa. Þessi atriði geta varðað framtíðaröryggi mannvirkja og þeirra sem undir þeim búa, rekstur virkjunarinnar og framleiðslukostnað raforku frá henni.

Raflínu- og vegaframkvæmdir
Tvær 400 kV raflínur tengja Kárahnjúkavirkjun við álver á Reyðarfirði. Raflínurnar hafa gífurleg sjónræn áhrif á umhverfi sitt langt út fyrir línustæðin með möstur sem eru allt að 40 m á hæð. Þær verða til tilfinnanlegra lýta í Fljótsdal, Skriðdal, Þórudal, á Þórdalsheiði og í Áreyjadal svo og í botni Reyðarfjarðar og næsta nágrenni þéttbýlisins. Fram með raflínunum eru lagðir uppbyggðir vegir í stað þess að komast hefði mátt hjá slíku jarðraski með nútímalegum vinnubrögðum og tækjum sem til eru. Um þetta gildir svipað og með aðra þætti að reynt er að halda útgjöldum í lágmarki á kostnað umhverfisins í stað þess að láta þau endurspeglast í raforkuverði. – Umferð að virkjunarsvæðinu var frá byrjun beint í gegnum Hallormsstaðaskóg og yfir nýja sérstyrkta brú við Fljótsbotn, í stað þess að endurbyggja Lagarfljótsbrú og leggja veg að virkjunarsvæðinu hinum megin Fljóts. Af þessu hlýst meiri kostnaður og stefnt er í hættu öryggi þeirra mörgu sem leggja leið sína í Hallormsstaðaskóg.

Ólöglegar álversframkvæmdir
Hart var deilt um álvesframkvæmdir á Reyðarfirði frá upphafi, ekki síst með tilliti til mengunarhættu. Norsk Hydro setti árið 2001 í mat 420 þúsund tonna álver ásamt rafskautaverksmiðju en fyrirtækið hafði ekki fengið starfsleyfi þegar það gaf þessi áform upp á bátinn, m.a. vegna andstöðu við umhverfisáhrif af virkjuninni. Af hálfu norska fyrirtækisins var gert ráð fyrir vothreinsun á útblæstri frá verksmiðjunum. Sem kunnugt er hljóp Alcoa með skjótum hætti í skarðið sem Norsk Hydro skildi eftir og Skipulagsstofnun féllst á ósk fyrirtækisins um að þurfa ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum verksmiðjunnar. Við samanburð á framkvæmdunum kom hins vegar í ljós að þótt álver Alcoa væri áætlað 100 þúsund tonnum minna en hjá Norsk Hydro og fallið væri frá rafskautaverksmiðju losaði verksmiðja Alcoa margfalt meira magn af brennisteinsdíoxíði og umtalsvert meira af flúoríði og fleiri efnum út í umhverfið. Niðurstaða í dómsmáli sem undirritaður höfðaði féll á þann veg að Alcoa var dæmt til að láta meta umhverfisáhrif verksmiðju sinnar. Matsskýrsla sem fyrirtækið boðaði að fram yrði lögð í nóvember 2005 er enn ókomin um miðjan apríl 2006 aðeins ári áður en áætlað er að hefja framleiðslu í verksmiðjunni. Eftir dóm Hæstaréttar í júlí 2005 voru lagalegar forsendur fyrir áframhaldi framkvæmda við verksmiðjuna í raun brostnar.

Samfélagsáhrif stóriðjunnar eystra
Samfélagsleg áhrif af framkvæmdum eins og þeim sem nú standa yfir á Austurlandi eru ekki sambærileg við það sem verða myndi í meira fjölmenni. Á miðsvæðinu austanlands búa nú aðeins um 6 þúsund manns. Gagnrýnendur stóriðjuframkvæmdanna eystra telja að umsvifin sem þeim fylgja séu alltof stórtæk fyrir svo fámennt samfélag, bæði á byggingartíma og eftir að starfsræksla hefst í álverksmiðjunni. Áætlanir um mikla þátttöku Íslendinga í byggingarframkvæmdum við virkjun og álver hafa engan veginn staðist, enda var lítið sem ekkert atvinnuleysi á svæðinu þegar þær hófust. Óvissan um samfélagsleg áhrif af rekstri álverksmiðju á Reyðarfirði eru að sama skapi mikil. Gert er ráð fyrir að verksmiðjan skapi um 900 ný störf miðsvæðis á Austurlandi og að fjölgun íbúa nemi 2-3 þúsund manns. Reynsla fæst ekki á slíka spádóma fyrr en verksmiðjan hefur starfað í 5-10 ár. Undirritaður telur líklegt að útkoman verði önnur og lakari og nú þegar liggja fyrir vísbendingar í þá átt. Eflaust mun verða umtalsverð tilfærsla milli atvinnugreina á svæðinu en ólíklegt er að margir Íslendingar flytjist af öðrum landshornum til starfa í álverksmiðjunni. Því gæti reyndin orðið sú að Alcoa verði að byggja starfrækslu sína á Reyðarfirði að talsverðu leyti á farandverkafólki. Reynslan af litlum verksmiðjusamfélögum erlendis, t.d. í Noregi, er ekki góð en á það hefur ekki verið hlustað af þeim sem ráðið hafa ferðinni í þessu afdrifaríka máli.
......
Um þjóðhagsleg áhrif stóriðjuframkvæmdanna verður hér ekki fjallað, aðeins minnt á að um þau efni eins og önnur ríkir ágreiningur og ólíkt mat. Eftir mikil átök um stóriðjuframvæmdirnar eystra væri ótvírætt æskilegt að bíða eftir dómi reynslunnar um helstu þætti og álitamál áður en lagt yrði upp í svipaða vegferð annars staðar á landinu. Stóriðjuvagninn er hins vegar skriðþungur og minnir um margt á hergagnaiðnað í öðrum löndum, bæði hvað varðar hagsmunatengsl, afskipti stjórnmálamanna og viðskiptaleynd. Innan skamms reynir á hvort meirihluti landsmanna kýs að breyta um stefnu og knýr stjórnvöld til að horfa til annarra átta í atvinnumálum.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim