Hjörleifur Guttormsson 28. febrúar 2006

Forsætisráðherra á flæðiskeri

Á síðasta ári mældist meðalhiti á jörðinni hærri en nokkru sinni fyrr síðan samræmdar mælingar hófust. Undanfarin 10-15 ár hafa slík met verið að falla hvert af öðru. Hafís í Norður-Íshafi var minni síðasta haust en áður hefur sést. Grænlandsjökull þiðnar og brotnar í sjó fram tvöfalt hraðar en gerðist fyrir fimm árum samkvæmt mælingum geimvísindastofnunar Bandaríkjanna NASA. Þessi mikli jökulskjöldur kann að hverfa á yfirstandandi árþúsundi en því myndi fylgja um 7 metra hækkun sjávarborðs. Sumir vísindamenn tala um 300 ár í þessu sambandi. Fjöldi hitabeltiseyja sem nú mynda sjálfstæð þjóðríki innan vébanda Sameinuðu þjóðanna væru þá horfin í hafið. Menn ættu að svipast um á höfuðborgarsvæðinu og allt í kringum land við slíkar aðstæður.

Nýtt sérfræðimat í vændum
Alþjóðlegi vísindamannahópurinn um loftslagsbreytingar (IPCC) sem veitir aðilum að loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna ráðgjöf gaf síðast út formlega skýrslu haustið 2001. Þá voru spárnar um meðaltalshækkun hitastigs á 21. öldinni á bilinu 1,4 – 5,8°C  og um hækkun sjávarborðs á bilinu 9 – 88 cm, mismunandi eftir einstökum svæðum. Hitastigshækkunin er talin verða til muna meiri á norðlægum slóðum. Fjölmargir aðrir þættir eru metnir af hópnum, m.a. um veðurfar og áhrif á lífríki og fæðuöflun. Næsta matsskýrsla kemur á árinu 2007 og gera flestir ráð fyrir að ofangreind gildi breytist verulega til hækkunar í ljósi nýjustu rannsókna og reynslu.

Loftslagssamningur SÞ er undirstaðan
Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar frá 1992 er undistaða aðþjóðasamstarfs í loftslagsmálum. Hann er þjóðréttarlega skuldbindandi fyrir hvert einstakt aðildarríki. Kýótóbókunin margumtalaða er gerð á grundvelli þessa samnings og með henni taka iðnríki sem að henni standa á sig lagalegar skuldbindingar, flest um samdrátt í losun gróðuhúsalofttegunda miðað við grunnárið 1990. Ísland fékk eitt ríkja heimild til almennrar aukningar um 10% og að auki sérstaka heimild til losunar frá stóriðju fram til 2012 (1,6 milljón tonn, skilyrt), kallað “íslenska ákvæðið”. Nú eru hafnar á grundvelli loftslagssamningsins viðræður um hvað við skuli taka á næsta tímabili, þ.e. eftir 2012. Augljós er þörfin á miklu harðari aðgerðum í niðurskurði á losun gróðurhúsalofttegunda af hálfu vel stæðra ríkja og að þróunarríkin sem verið hafa undanþegin takmörkunum komi inn í heildarsamkomulag með hliðstæðum hætti.

Ruglið í íslenskum ráðamönnum
Málflutningur íslenskra ráðamanna um loftslagsmál með forsætisráðherra í fararbroddi er með miklum endemum. Þar kemur ekki aðeins fram fálæti um þetta stærsta vandamál sem við mannkyni blasir heldur afbökun og rangfærslur um þann grunn sem Ísland hefur viðurkennt sem aðili að loftslagssamningnum. Losunarbókhald samkvæmt samningnum er á grundvelli hvers aðildarríkis og Kýótóbókunin kveður á um löglegt magn hvers og eins ríkis, mælt í ígildi koltvísýrings (CO2). Skiptir þá almennt ekki máli frá hvaða starfsemi mengunin kemur heldur aðeins að mörkin séu virt. Ríki sem býr að endurnýjanlegum orkulindum á eðli máls samkvæmt auðveldara með að uppfylla skilyrðin, en það á enga kröfu um sérmeðhöndlun nema síður sé. Því er ósiðleg og í andstöðu við grundvöll loftslagssamningsins sú stefna sem Halldór Ásgrímsson o.fl. hafa boðað, að krafist verði öðru sinni sérmeðhöndlunar fyrir Íslands hönd. Á Alþingi 6. febrúar sl. orðaði forsætisráðherra þetta þannig:
“Hvað tekur við eftir 2012 vitum við ekki og ég hef svarað því mjög skýrt að við hljótum að gera þá kröfu áfram að geta nýtt okkur endurnýjanlega orku áfram, og geta tekið þátt í því að minnka mengun í heiminum með því að framleiða rafmagn með vistvænum hætti hér á Íslandi.”

Fastir í stóriðjustefnunni
Íslenska ríkisstjórnin situr föst og hreyfihömluð í stóriðjustefnu sinni og forsætisráðherrann á flæðiskeri þá umhverfismál eru annars vegar. Loftslagssamningurinn greinist ekki í þætti eftir orkunotkun, Kýótóbókhaldið ekki heldur. Uppgjörið fer fram eftir þjóðríkjum, losun á heimsvísu er síðan samanlögð losun  aðildarríkjanna. “Íslenska ákvæðið” svo smátt sem það vegur felur í sér heildaraukningu til iðnríkjanna. Stórfelldur niðurskurður í losun gróðurhúslofts á heimsvísu er knýjandi nauðsyn og stíga þarf stórt skref þegar á næsta samningstímabili eftir 2012. Hvert einstakt ríki mun hér eftir sem hingað til eiga fullt í fangi með að standa við samningsskuldbindingar og því fylla sinn kvóta, og þá er ekki spurt um hvort það gerist með stóriðju eða einhverju öðru.

Vilja virkja í botn
Fyrrum orkumálastjóri Jakob Björnsson er á svipuðum villigötum og forsætisráðherrann. Í Morgunblaðsgrein 25. febrúar sl. minnir hann á þá gömlu hugsjón sína að virkja í botn til rafmagnsframleiðslu allt sem höndum verður komið yfir hérlendis. Hann vill láta stjórnvöld gera þá kröfu að álvinnsla með rafmagni frá endurnýjanlegum orkulindum eigi “... alls ekki að vera með í Kyótó-bókahaldinu, því að hún dregur úr heimslosuninni.”  
..........
Loftslagsmálin eru þegar allt kemur til alls ekki síst spurning um efnisleg lífskjör þjóða heims innan marka sjálfbærrar þróunar. Glíman við sívaxandi mengun sem ógnar nú jarðarbúum snýst um efnahagsleg umsvif og hvernig háttað er aðgengi að sameiginlegum lofthjúp. Er eitthvert réttlæti í því að þeir sem mest menga nú miðað við höfðatölu bæti þar enn við eða ber þeim að draga saman til að skapa svigrúm fyrir aðra sem lakar standa? Augljóst er í hvora sveitina íslenski forsætisráðherrann og hans nótar skipa sér. Spurningin er hvort íslenska þjóðin ætlar að fylgja þeim út í foraðið.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim