Hjörleifur Guttormsson 28. apríl 2006

Ljósmyndasýning á myndum Hjörleifs

í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskólans

Andvirði af sölu myndanna rennur til Lögverndarsjóðs

Á vegum Landverndar hefur verið sett upp sýning á ljósmyndum eftir undirritaðan í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands að Sturlugötu 7, 101 Reykjavík (stórhýsið bogadregna næst austan við Norræna húsið). Þarna eru til sýnis 28 stækkaðar náttúruljósmyndir, aðallega úr óbyggðum, teknar á löngu tímabili allt frá árinu 1968 til 2004.

Í fréttatilkynningu frá Landvernd segir m.a. um sýninguna:

“Myndirnar eru frá öllum landshlutum og endurspegla ótrúlegan fjölbreytileika íslenskrar náttúru. Myndirnar eru flestar stækkaðar í 100 cm og njóta sín afar vel í birtunni í Öskju. Sýningin er öllum opin alla daga frá kl 07.30 til 22.00 virka daga og 08.00 til 18.00 á laugardögum. Á sunnudögum er lokað. Sýningin stendur til 18. maí. n.k.”

Einnig segir í frétt frá Landvernd:

“Ljósmyndirnar sem sýndar eru verða til sölu þegar sýningunni lýkur. Hagnaður af sölunni mun renna til Lögverndarsjóðs náttúru og umhverfis sem hefur það hlutverk að styðja málafylgju sem varðar almenna hagsmuni um verndun náttúru og umhverfis. Þeir sem hafa áhuga á að kaupa myndir eru vinsamlega beðnir um að hafa samband við skrifstofu Landverndar. Eitt megin verkefni sjóðsins um þessar mundir er að fjármagna málaferli vegna mats á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu í Þjórsárverum.”

Við opnun sýningarinnar í Öskju 26. apríl sl. tók formaður Lögverndarsjóðs, Björgólfur Thorsteinsson, við undirritaðu gjafabréfi okkar hjóna fyrir myndunum.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim