Hjörleifur Guttormsson 28. september 2006

Frá aðalfundi NAUST 2006.

Aðalfundur  Náttúruverndarsamtaka Austurlands – NAUST var haldinn í Skaftafelli laugardaginn 9. september 2006. Ástæða er til að vekja athygli á viðhorfum þessara áhugasamtaka sem starfað hafa samfellt frá árinu 1970 að telja. Ályktarnir sem aðalfundurinn samþykkti fyrr í þessum mánuði eiga fullt erindi til landsmanna, þar á meðal varðandi umdeildar stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi.

Stjórn NAUST
Fráfarandi stjórn NAUST, Ulla R. Pedersen formaður og Ólafía Gísladóttir gjaldkeri, skiluðu af sér fyrir hönd fráfarandi stjórnar sem sl. fjögur ár hefur verið skipuð félagsmönnum úr Austur–Skaftafellssýslu.

Í stjórn fyrir næsta starfsár voru kjörin:
Guðrún Schmidt, Strönd í Skógum
Andrés Skúlason, Djúpavogi
Þorsteinn Bergsson, Unaósi
Til vara:
Halla Eiríksdóttir, Egilsstöðum
Sigurður Guðjónsson, Borg á Mýrum, Hornafirði
Ragnhildur Rós Indriðadóttir, Fellabæ.

Ályktanir aðalfundar NAUST 2006.
Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á aðalfundinum:

Um Kárahnjúkavirkjun og álverksmiðju Alcoa
Aðalfundur NAUST 2006 minnir á fyrri samþykktir samtakanna um stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi og varar við þeirri margvíslegu hættu sem af þeim stafar fyrir fólk og umhverfi á Austurlandi. Fundurinn tekur undir með þeim mörgu sem lýst hafa áhyggjum vegna ófullnægjandi undirbúnings þessara framkvæmda, jafnt Kárahnjúkavirkjunar og álvers á Reyðarfirði. Fundurinn telur ekki rétt að hleypa vatni á Hálslón án undangengins óháðs mats á virkjuninni með tilliti til jarðfræði og hönnunar  mannvirkja. Aðalfundurinn fordæmir þá hneykslanlegu afstöðu Alcoa og Skipulagsstofnunar að taka fjárhagslega hagsmuni Alcoa fram yfir heilbrigði íbúa við Reyðarfjörð og Eskifjörð með því að hafna kröfum fjölmargra um vothreinsun við álverksmiðjuna. Þá krefst aðalfundurinn þess að framkvæmdaraðilum sé gert að standa undanbragðalaust við sett skilyrði um frágang og vöktun að framkvæmdum loknum og að komið verði í veg fyrir frekari spjöll og tjón á landi og lífríki í nágrenni þeirra.

Um stöðvun stóriðjuframkvæmda
Aðalfundur NAUST 2006 telur rétt að nú þegar verði gert a.m.k. 5 ára hlé á öllum frekari stóriðjuframkvæmdum hérlendis eftir þau hörðu átök sem staðið hafa yfir í heilan áratug. Næstu ár verði notuð til víðtækra rannsókna á áhrifum vatnsafls- og jarðvarmavirkjana og iðnaðar í krafti þeirra á þjóðarhag, mannlíf og umhverfi. Að fengnum niðurstöðum verði mótuð stefna sem víðtæk sátt geti orðið um meðal landsmanna áður en til greina komi að ráðast í frekari framkvæmdir á þessu sviði.

Um Vatnajökulsþjóðgarð
Aðalfundur NAUST 2006 lýsir yfir fullum stuðningi við tillögur og ábendingar fulltrúa náttúruverndarsamtaka í undirbúningsnefnd um Vatnajökulsþjóðgarð. Jafnframt hvetur fundurinn stjórnvöld til að taka í senn af raunsæi og stórhug á málefnum þessa væntanlega þjóðgarðs, m.a. með nægum fjárframlögum og öðrum aðgerðum svo unnt verði stofna þjóðgarðinn með myndarbrag og ganga til samninga við þá aðila sem geta hugsað sér að leggja til hans landsvæði eða vilja tengjast Vatnajökulsþjóðgarði með öðrum hætti. Áherzla er lögð á að þjóðgarðurinn nái yfir landslagsheildir umhverfis jökulinn, þar á meðal Langasjó og Fögrufjöll að friðlýsta svæðinu við Laka.

Um Fjarðarárvirkjun
Aðalfundur NAUST 2006 harmar að Skipulagsstofnun og umhverfisráðherra skuli hafa hundsað vel rökstuddar kröfur um að virkjun Fjarðarár í Seyðisfirði fari í umhverfismat. Varar fundurinn við því fordæmi sem þetta kann að gefa og krefst þess að mat á umhverfisáhrifum verði framvegis meginregla sem ekki verði gengið framhjá af stjórnvöldum.

Um Ísland og loftslagsbreytingar
Aðalfundur NAUST 2006 gagnrýnir aðgerðaleysi stjórnvalda hérlendis við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og fordæmir framkomnar hugmyndir um að leita enn og aftur sérstakrar undanþágu fyrir Ísland innan Kyotóferlisins til losunar gróðurhúsalofts frá stóriðju.

Um hagsmunatengsl og fégjafir
Aðalfundur NAUST telur brýnt að stjórnvöld setji formlegar siðareglur  um samskipti  við fyrirtæki og aðra aðila sem standa að framkvæmdum sem valda umhverfistjóni. Óeðlilegt er að opinberir aðilar taki við fégjöfum frá slíkum aðilum eða auðveldi þeim á annan hátt áróður til réttlætingar umhverfisspjöllum.

Um samstarf náttúruverndarfélaga
Aðalfundur NAUST hvetur til aukins samstarfs frjálsra náttúru- og umhverfisverndarsamtaka til að ná megi sem bestum árangri í málum sem samstaða er um í þeirra röðum. Fundurinn telur athyglisverðar framkomnar hugmyndir um að þessi samtök myndi með sér sameiginlegan vettfang um náttúruvernd sem sé óháður stjórnvöldum og gæti m.a. staðið fyrir árlegu þingi.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim