Hjörleifur Guttormsson 30. nóvember 2006

Leyndartilburðum hnekkt

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst 10. nóvember sl. að þeirri niðurstöðu að Seyðisfjarðarkaupstað væri skylt að veita undirituðum aðgang að samningum sínum við Íslenska orkuvirkjun vegna virkjunar Fjarðarár. Áður hafði ég ásamt fleirum kært til umhverfisráðherra þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar 18. ágúst 2005 að virkjunin þyrfti ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum en án árangurs. Ég er þeirrar skoðunar að ríkar ástæður þurfi að vera fyrir því að undanþiggja framkvæmd sem þessa mati og tel niðurstöðu Skipulagsstofnunar og umhverfisráðherra hafi verið bæði efnislega og lagalega ranga. Þegar síðan var hafnað beiðni minni um að fá í hendur samninga sem gerðir höfðu verið milli kaupstaðarins og virkjunaraðilans um vatnsréttindi og landnot ákvað ég að láta á þá ákvörðun reyna og naut við það traustrar aðstoðar Atla Gíslasonar lögmanns.

Krafa samningsaðila um leynd

Rök sveitarfélagsins fyrir synjun voru þau helst að Íslensk orkuvirkjun bannaði að samningarnir yrðu birtir þar eð í þeim væru fjölmörg atriði sem varði fjárhags– og viðskiptahagsmuni fyrirtækisins. Kjörnir bæjarfulltrúar fengu aðeins að lesa samninginn yfir á fundi þar sem lokaafstaða var tekin af hálfu sveitarfélagsins. Í umsögn sinni til Úrskurðarnefndar vísuðu lögmenn Íslenskrar orkuvirkjunar ehf. til 5. greinar upplýsingalaga nr. 50/1996 sem mæli svo fyrir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags– eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Aðgangur almennings að framangreindum samningum „myndi gefa samkeppnisaðilum greiðan aðgang að viðskiptaaðferðum og fjárhagsupplýsingum sem hann [Íslensk orkuvirkjun] hefur aflað sér með rannsóknum og fjárfestingum í starfsemi sinni. ...“ Jafnframt staðhæfðu lögmenn virkjunaraðilans að eftir tilkomu samkeppnismarkaðar með setningu raforkulaga nr. 65/2003 „verða allar upplýsingar um verð, aðferðir við fyrirkomulag virkjana og sölu og dreifingu raforku mikilvæg viðskipta– og atvinnuleyndarmál.”

Úrskurðarnefndin vísar til almannahagsmuna

Úrskurðarnefndin reyndist á allt annarri skoðun. Hún segir m.a. í niðurstöðu sinni að með hliðsjón af markmiðum upplýsingalaga beri að skýra undantekningar frá meginreglunni um upplýsingarétt almennings þröngt. Í samningi nefndra aðila sé því lýst með hvaða hætti skuli greitt fyrir vatnsréttindi og landnot og um greiðslufyrirkomulag komi til framsals. „Að mati nefndarinnar geta uplýsingar af þeim toga sem fram koma í nefndum samningsákvæðum varðað fjárhags– eða viðskiptahagsmuni fyrirtækjanna. Þegar hins vegar er tekið mið af því sem að framan er rakið, einkum þeim ríku almannahagsmunum sem eru tengdir því að almenningur eigi kost á að fá upplýsingar um ráðstöfun opinberra eigna, er það niðurstaða nefndarinnar að ekki sé eðlilegt að þessar upplýsingar fari leynt. – Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að veita beri kæranda aðgang að umræddum samningum í heild sinni.”

Helstu ákvæði samninganna

Samninga þessa hef ég nú fengið í hendur frá Seyðisfjarðarkaupstað. Með þeim er Íslenskri orkuvirkjun veittur einkaréttur til að virkja Fjarðará og reka Bjólfs– og Gúlsvirkjun í 50 ár, forgangsréttur til áframhaldandi afnota af landi og til nýtingar á vatnsréttindum og heimild til framsals að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Greiðslur fyrir nauðsynleg vatnsréttindi/virkjunarrétt og landnot skulu vera stighækkandi hlutdeild af brúttótekjum Íslenskrar orkuvirkjunar af rekstri nefndra virkjana: 2,5% fyrir fyrstu 10 heilu rekstrarárin og síðan stighækkandi tvívegis í 5% og 7,5% næstu 10 ár, en 10% frá og með 21. rekstrarári. Þá eru ákvæði um forkaupsrétt Seyðisfjarðar að virkjununum ef Íslensk orkuvirkjun ákveður að leggja starfsemi þeirra niður og að kaupverð skuli þá taka mið af stofnverði að teknu tilliti til afskrifta. Taki enginn við rekstri skal Íslensk orkuvirkjun greiða kaupstaðnum 10 millónir króna verðbættar. Kveðið er á um bráðabirgðaúrræði vegna vatnsveitu en nú er neysluvatn Seyðfirðinga tekið úr Fjarðará.

Almenn tilhneiging til leyndar

Við lestur samninganna vekur undrun sú áhersla sem samningsaðilar lögðu á að halda ákvæðum þeirra leyndum fyrir almenningi. Efni og ákvæði samninganna eru í litlu sem engu samræmi við rökstuðning aðila fyrir úrskurðarnefndinni og sem vitnað er til hér að ofan. Viðleitnn til að halda leynd yfir þessum samningunum sýnist öðru fremur í ætt við þá ríku og vaxandi tilhneigingu stjórnvalda og fyrirtækja að veita sem minnstar upplýsingar til almennings í skjóli kröfunnar um viðskiptaleynd. Úrskurðarnefndin hefur gert þessa tilteknu tilraun að engu með skýrum rökstuðningi og í niðurstöðu hennar er gefið fordæmi sem á að geta dugað í hliðstæðum eða skyldum málum framvegis.

Náttúrufarsröskun og fébætur

Greiðsla og fyrirkomulag greiðslu fyrir vatnsréttindi í Fjarðará og landnot á virkjunarsvæðinu, 2,5–10% af brúttótekjum á samningstímabilinu, skilar að mínu mati ekki hárri upphæð, en bæjarstjórinn á Seyðisfirði virðist ánægður með reiknaða útkomu sem hann telur að geti gefið kaupstaðnum á 50 árum samtals um 900 milljónir króna reiknað til núvirðis, en hlutfallslega mun lægri greiðslur fengjust á fyrri hluta samningstímans. Forsendur áætlaðra tekna af rekstri virkjunarinnar koma ekki fram í þessum samningum en eru samkvæmt eðli máls margvíslegri óvissu háðar. Orkuna hefur virkjunaraðili þegar selt til Hitaveitu Suðurnesja sem safnar nú víða í sarpinn til áformaðrar álbræðslu í Helguvík. Sé gengið út frá staðhæfingu bæjarstjórans væru þetta jafnaðarlega 18 milljónir króna á ári í hlut Seyðisfjarðar sem er í raun lítið miðað við þau verðmæti sem látin eru í té. Hin hlið málsins er það mikla tjón sem unnið verður á náttúru Seyðisfjarðar, Fjarðará og umhverfi, með þeim framkvæmdum sem nú eru hafnar.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim