Frá málþingi 25.
mars 2006
Laugardaginn 25. mars sl. boðuðu ellefu samtök
um náttúruvernd og útivist til málþings í sal
Ferðafélags Íslands í Mörkinni 6 í Reykjavík.
Bakgrunnur samkomu þessarar var sjötugsafmæli undirritaðs
sl. haust. Stóð málþingið frá kl
13–18 og var þar fjallað um tvö þemu: Óbyggðir Íslands – nútíð og
framtíð og Alþjóðlegt samstarf og náttúruvernd á norðurslóðum. Þrjú framsöguerindi
voru flutt um hvort efni af völdum fyrirlesurum (sjá dagskrá) og
svöruðu þeir fyrirspurnum. Valgarður Egilsson
varaforseti Ferðafélagsins setti samkomuna en Kolbrún
Halldórsdóttir alþingismaður var fundarstjóri.
Rösklega 200 manns sóttu málþingið. Á veggjum
voru margar stækkaðar náttúruljósmyndir
teknar af Hjörleifi á ýmsum tímum, þær
elstu frá árinu 1968. Einnig voru á fundarstað sett
upp tvö veggspjöld tengd fundarefninu (veggspjald
1 / veggspjald
2).
Ávarp Hjörleifs Guttormssonar:
Góðir áheyrendur. Kæru vinir og kunningjar.
Það var með mjög blendnum tilfinningum sem ég tók
hugmyndinni um þetta málþing sem við höfum notið hér í dag,
sérstaklega að tengja það við mitt nafn og
störf á liðinni tíð. En þegar það fylgdi
sögu að að því stæðu samtök um náttúruvernd,
umhverfisfræðslu og útivist, félög fólks
sem ég hef átt samleið með og starfað með um áratugi
hlýnaði mér um hjartarætur. Hógværð og
feimni vék þá fyrir fögnuði yfir að eiga stund
með ykkur.
Þessum samtökum og ykkur öllum þakka ég með hrærðum
huga fyrir að leggja nafn ykkar við þetta málþing.
Efni þess og framsetning fyrirlesara hefur verið með miklum ágætum
sem vænta mátti af úrvalsliði sem hér var til
kvatt. Ræðumenn hafa minnt okkur með eftirminnilegum hætti á nokkur
atriði þess stóra málasviðs sem nú fellur
undir umhverfis- og náttúruvernd.
Úr sjóði minninganna
Ég staldra við minninguna um þann stóra hóp
fólks sem ég hef verið samferða í huglægri
og bókstaflegri merkingu á langri ævi. Þetta er langt
frá því að vera einsleitur hópur, hvorki að aldri
eða skoðunum, heldur sú fjölþætta blanda sem
myndar samfélag hvers tíma. Ég óx upp í kjarnafjölskyldu
og varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast sveitastörfum
með amboðum sem mörg hver hafa verið notuð lengst af Íslandsbyggð.
Jafnframt hafði ég fyrir augum umhverfi í Hallormsstaðaskógi
sem ekki var ósvipað því sem hér var í árdaga
byggðar. Þetta var góður heimanmundur. Í stórum
hluta veraldar geisaði heimsstyrjöld þegar við systkin
vorum að stauta okkur í gegnum landafræði Karls Finnbogasonar. Ísland
kvaddi sinn kóng og stofnaði lýðveldi en við tók
kalt stríð með landamærum sem dregin voru í gegnum
hvert hús og hvern mannshuga, múrar ekki aðeins í Berlín
heldur einnig í okkar fámenna landi og sem fyrst nú eru
táknrænt að falla með brottför hers af Suðurnesjum.
Brautryðjendur náttúruverndar
En það er náttúruverndin sem er þema dagsins
og mál mála ekki síst til framtíðar litið.
Rætur hennar liggja víða, hér á landi
allt aftur í 19. öld og kannski enn lengra til baka. Þorvaldur
Thoroddsen sá býsna skýrt í þessum
efnum og áhugamenn um skógvernd og sandgræðslu í byrjun
20. aldar gátu stuðst við lýsingu hans á landinu.
Guðmundur Davíðsson, Hákon Bjarnason og Sigurður Þórarinsson
voru vökumenn hver á sínu sviði. Sigurður
reisti merki klassískrar náttúruverndar með eftirminnilegum
hætti á fundi Hins íslenska náttúrufræðifélags
1949. Félagar hans á Náttúrufræðistofnun, þeir
Eyþór Einarsson, Finnur Guðmundsson og fleiri ónefndir
lögðu einnig til djúgan skerf. Það var hins
vegar kringum 1970 sem náttúruvernd varð skyndilega
hluti af brennandi samfélagsumræðu sem ekki hefur slokknað síðan.
Halldór Laxness skrifaði greinina Hernaðurinn gegn landinu í árslok
1970. Stofnun Landverndar og áhugafélaga um náttúruvernd í öllum
landsfjórðungum gaf kjölfestu og landhelgisbaráttan
dýpkaði umræðuna og tengdi hana við auðlindanýtingu
með ferskum og skýrum hætti. Stokkhólmsráðstefna
Sameinuðu þjóðanna og útfærsla landhelginnar í 50
mílur var sama sumarið, 1972, og Rómarklúbburinn
lét til sína heyra með bókinni Endimörk
vaxtar. Stóriðjuumræðan hófst hér
fyrir alvöru um svipað leyti og með henni álitamálin
um virkjun fallvatna. Fram að þeim tíma höfðu Íslendingar
fyrst og fremst tengt virkjanir við ljós og yl. Framhaldið er
mörgum ykkar í fersku minni og ný og öflug samtök
um náttúruvernd hafa síðan bæst í hóp þeirra
sem fyrir voru.
Náttúruvernd ekki sérfræði
Náttúrufræðingar hafa að vonum fyrr og síðar
lagt til margvíslegan efnivið í baráttuna fyrir
umhverfis- og náttúruvernd en þeir komast ekki langt
einir síns liðs. Náttúruvernd er ekki sérfræði
heldur tilfinning og skilningur á samhengi og framvindu í umhverfi
okkar. Bændur og sjómenn hafa reynst öflugir stuðningsmenn
náttúruverndar á ögurstundum og með ferðum
fjölda fólks um byggð og óbyggð hafa endurnýjast
tengsl þéttbýlisbúa við landið. Það er
sérstakt gleðiefni að fjölmargir listamenn skipa
sér nú í fremstu röð baráttunnar
fyrir náttúruvernd, konur þar áberandi við hlið karla
eftir að þær brutust út úr kálgarðinum á 8. áratugnum.
Fyrsta konan náði kjöri í Náttúruverndarráð á náttúruverndarþingi
1978. Það var Elín Pálmadóttir og mér þykir
ekki lakara að hafa átt þar hlut að máli.
Ýtið á stjórnmálaflokkana
Félagslegt og pólitískt áralag í baráttunni
fyrir náttúruvernd skiptir miklu. Samstarfsmenn mínir á þessu
sviði á Austurlandi hafa átt rætur í öllum
stjórnmálaflokkum, enda er borgaraleg íhaldssemi
oft betri bandamaður í náttúruvernd en fimmáraáætlanir
og hagvaxtarmet. Við náum skammt í verndun umhverfis
nema með því að tryggja tengsl við málstaðinn í almannasamtökum,
sveitarstjórnum og stjórnmálaflokkum. Þetta
skildi Eysteinn Jónsson manna best og meðal annars þess
vegna náði Náttúruverndarráð undir
forystu hans óvenjugóðum árangri á áttunda áratugnum.
Sjálfur hef ég ekki á tilfinningunni að þátttaka
mín í stjórnmálum hafi truflað mikið störf ópólitískra
almannasamtaka sem ég hef reynt að leggja lið, hvort sem
um var að ræða náttúruverndarfélög
eða Ferðafélag Íslands, en því félagi
hef ég tengst sérstökum böndum. Ég segi því hiklaust
við náttúruverndarfólk: Forðist ekki stjórnmálabaráttuna, ýtið á flokkana
og gerið kröfu til að þeir tali skýrt í þessum
efnum sem öðrum. Um leið eigum við að gera kröfu
til þess að málefnasamtök almennings fái
meira svigrúm í samfélaginu en verið hefur um
skeið. Sem fyrst þarf að draga Árósasamninginn
um rétt umhverfiverndarsamtaka upp úr rykföllnum
skúffum Stjórnarráðsins.
Stærsta alþjóðlega viðfangsefnið
Umhverfis- og auðlindavernd verður stærsta alþjóðlega
viðfangsefnið á 21.öldinni samhliða baráttunni
fyrir friði og gegn kjarnorkuvá. Mannkynið hefur með umsvifum
sínum síðustu aldirnar verið að safna glóðum
að eigin höfði með breytingum sem ekki eiga sér
hliðstæðu. Náttúrulegum ferlum hefur verið raskað með tilbúnum
eiturefnum og afleiðingarnar af mengun lofthjúpsins blasa
nú skýrast við í loftslagsbreytingum.Enn eru áhrifin
hreinn barnaleikur miðað við þá glímu
sem í hönd fer. Gróðurhúsaáhrifin
magnast með vaxandi fólksfjölda og við það að miljarðar
manna í Asíu og víðar feta í ósjálfbær
fótspor iðnríkjanna. Þörfin á skjótu
alþjóðlegu viðnámi blasir við og það má teljast
borin von að um mótaðgerðir skapist samstaða nema
menn hafi jöfnuð og sanngirni að leiðarljósi. Það á við jafnt
innan hvers þjóðfélags og í samskiptum þjóða
og heimshluta.
Blind samkeppni og ofurvald fjármagns ber okkur nú í þveröfuga átt. Þörfin
er brýn og augljós fyrir gjörbreytt efnahagskerfi,
nýjar leikreglur og allt önnur gildi en birtast nú í ofboðslegu
neyslukapphlaupi. Hugmyndina um sjálfbæra þróun
eins og hún var sett fram fyrir 20 árum þarf að endurmeta
og skerpa til muna. Nú ríður á að beita þekkingu
og hugviti í öllum greinum vísinda að því viðfangsefni
að bjarga menningu okkar úr því öngstræti
sem við höfum villst inn í. Þar reynir á hagfræði
ekki síður en líffræði, siðfræði
jafnt og verkfræði og fleiri greinar hug- og raunvísinda.
Skólar og fjölmiðlar gegna hér lykilhlutverki
við að fræða og upplýsa.
Skyldur okkar sem þjóðar varða bæði
verndun náttúru Íslands og að leggja jafnframt
okkar smáu met á réttar vogarskálar í alþjóðasamskiptum. Þegar
allt kemur til alls er það óspillt náttúra
og afkomendurnir, börnin okkar og barnabörn, sem máli
skipta. Allt annað er hismi og hjóm.
Ég þakka ykkur öllum stundina og ógleymanlega
samfylgd.
Hjörleifur Guttormsson |