Hjörleifur Guttormsson 1. febrúar 2007

Stóriðjuáformin SV-lands í heildstætt umhverfismat

Athugasemdir til Skipulagsstofnunar við tillögu að matsáætlun fyrir háspennulínur frá Hellisheiði að Straumsvík og Geithálsi

Undiritaður hefur farið yfir framkomna tillögu Landsnets hf. að matsáætlun um lagningu háspennulína frá jarðvarmavirkjunum á Hellisheiði að Straumsvík og Geithálsi. Línulagnir þessar eru jafnframt tengdar áformum um raforkuflutning Landsnets frá ráðgerðum Þjórsárvirkjunum og sem eiga að þjóna raforkuflutningi vegna uppbyggingu stóriðjuvera í Straumsvík og á Grundartanga. Ekki er í matsáætluninni fjallað um háspennulínur á Reykjanesi til fyrirhugaðs álvers í Helguvík, sem komnar eru í sérstakt matsferli. Þannig skortir mikið á að matsáætlunin endurspegli í heild þær áætlanir sem þegar eru í undirbúningi á vegum Landsnets á Suðvesturlandi.

Framkvæmdaáætlunin um raflínulagnir sem hér er kynnt er liður í áformunum um stórfellda aukningu stóriðjuuppbyggingar í Straumsvík og á Grundartanga. Innan tíðar er síðan að vænta til viðbótar frummatsskýrslu um  raflínur til álvers í Helguvík. Hér er um langviðamestu áform um  raflínuuppbyggingu að ræða sem sést hafa hérlendis. Með þeim væri verið að girða höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni af með fjölda af raflínum ofanjarðar og tilheyrandi möstrum 30 metra á hæð og  hærri. Þær hefðu einar og sér víðtæk og veruleg áhrif á ásýnd svæðisins, náttúru þess, landslag og möguleika til útivistar.

Undirritaður beinir eftirfarandi athugasemdum og kröfum til Skipulagsstofnunar vegna matsáætlunar Landsnets um raflínulagnir og vegna hliðstæðra viðbótaráforma sem eru í mótun vegna stóriðju á Reykjanesi:

Megintillaga:

  1. Frestað verði vinnu við matsáætlunina og þess í stað beiti Skipulagsstofnun sér fyrir því að lögð verði fyrir í umhverfismat heildstæð áætlun um öll stóriðjuáformin suðvestanlands að viðkomandi virkjunum og raflínulögnum meðtöldum á grundvelli laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana.

 

Til vara:

  1. Verði fram haldið matsferli á umræddum háspennulínum einum og sér eru gerðar eftirtaldar kröfur um breytingu á matsáætlun:

2.1 Sá kostur verði lagður til grundvallar í matsáætlun að allar umræddar raflínur verði lagðar í jörð en fallið frá framkvæmdunum ella.
2.2 Núllkosti verði gerð raunveruleg skil og sem liður í mati á honum dregin fram umhverfisleg og þjóðhagsleg áhrif annarra leiða í atvinnuþróun en stóriðjuuppbyggingu sem umræddum raforkuflutningi er ætlað að þjóna.
2.3 Sú krafa verði gerð til Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Suðurnesja og annarra seljenda orku til stóriðjuvera suðvestanlands að upplýsa um það raforkverð sem þessi fyrirtæki eru að bjóða til stóriðju þannig að unnt sé að meta áhrif kostnaðar af því á raforkuverð að viðkomandi raflínur sé lagðar í jörð.

Rökstuðningur:
1. Heildstæð áætlun í umhverfismat um stóriðjuáformin suðvestanlands, stóriðjuver, raflínur og virkjanir, á grundvelli laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana.
            Raflínurnar sem ofangreind matsáætlun gerir ráð fyrir eru aðeins brot af þeim stórframkvæmdum í þágu stóriðju, einkum álvera, sem í undirbúningi eru suðvestanlands. Þar er um að ræða a) nær þreföldun álversins í Straumsvík, álver í Helguvík og stækkun álvers á Grundartanga, b) jarðhitavirkjanir á og við Hellisheiði, á Reykjanesi og vatnsaflsvirkjanir í Þjórsá, c) nýjar raflínur ásamt breytingum og styrkingu raflína til að flytja raforku til umræddra stóriðjuvera. Engin heildstæð mynd af þessum framkvæmdum hefur verið lögð fyrir af stjórnvöldum, ráðuneytum eða skipulagsyfirvöldum þannig að unnt sé fyrir Alþingi, viðkomandi sveitarfélög og almenning að gera sér grein fyrir umfangi og líklegum áhrifum af þessum framkvæmdum, ef í þær yrði ráðist. Á síðasta ári voru sett sérstök lög um umhverfismat áætlana (nr. 105/2006) sem eru fylgiskjal með athugasemdum mínum. Í lögunum kemur m.a. fram að:

  • Markmið þeirra er að stuðla að sjálfbærri þróun og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og jafnframt að stuðla að því að við áætlanagerð sé tekið tillit til umhverfissjónarmiða.
  • Ákvæðum þeirra er ætlað að gilda um umhverfismat skipulags- og framkvæmdaáætlana og breytinga á þeim sem marka stefnu er varða leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.
  • Sé vafi á því hvort skipulags- og framkvæmdaáætlun sé háð ákvæðum laganna getur almenningur eða sá sem ber ábyrgð á áætlanagerð óskað eftir að Skipulagsstofnun taki ákvörðun um hvort áætlunin falli undir lög þessi.
  • Hlutverk Skipulagsstofnunar samkvæmt lögunum er  m.a. að veita og gefa út leiðbeiningar um umhverfismat áætlana og taka ákvörðun um hvort áætlun skuli háð ákvæðum nefndra laga og síðan að fylgjast með framkvæmd umhverfismats áætlana.

Við blasir að sé yfirleitt tilefni til að fara að lögum þessum sé það í tilviki sem því er hér blasir við, þ.e. risavöxnustu framkvæmdir sem áform hafa verið um að ráðast í hérlendis og það í næsta nágrenni við aðalþéttbýli landsins.
Brýnt er áður lengra er haldið að allir hlutaðeigandi, fólkið á höfðuðborgarsvæðinu, sveitarfélög og aðrir í grennd þess geti gert sér grein fyrir eðli, umfangi og líklegum áhrifum nefndra framkvæmda.
Umhverfisáhrifin leggjast saman á svæðinu öllu og hafa grundvallaráhrif á ímynd þess og framtíð. Nægir í því sambandi að benda á sjónræn áhrif af raflínum ofanjarðar sem og verksmiðjubyggingum að ógleymdum jarðavarma- og vatnsaflsvirkjunum. Fyrir loftgæði á svæðinu er um augljós samlegðaráhrif að ræða. Nú þegar er loftmengun á höfðuborgarsvæðinu áhyggjuefni, hvað þá að viðbættri losun frá umræddum stóriðjuverum, ryki, brennisteinssamböndum og öðrum mengandi efnum. Staðan varðandi losun gróðurhúsalofttegunda að þessum framkvæmdum gerðum væri sú að Ísland færi langt yfir allar heimildir samkvæmt Kyótóbókuninni og losun hérlendis slægi Evrópumet.
Fráleitt er að haldið sé áfram bútasaumi við þessi framkvæmdaáform í stað þess að draga upp skýra heildarmynd af afleiðingunum.

Um 2.1 Allar raflínur til háspennuflutnings raforku á svæðinu verði lagðar í jörð.
Verði haldið áfram matsferli um nefndar raflínur verði því breytt þannig að til grundvallar sé lagt sem meginvalkostur að allar umræddar raflínur verði lagðar í jörð. Það fyrirkomulag sem kynnt er í fyrrirliggjandi matsáætlun sem valkostir eru allir óásættanlegir að mati undirritaðs vegna áhrifa á umhverfi og náttúru höfðuðborgarsvæðisins og næsta nágrennis þess.

Um 2.2 Núllkosti verði gerð raunveruleg skil.
Í texta umræddrar matsáætlunar er skautað létt yfir núllkost, eins og víða hefur verið raunin á í matsáætlunum og skýrslum framkvæmdaraðila. Þá kröfu verður hins vegar að gera að fjallað sé um og bent á þá fjölbreytilegu þróunarkosti í atvinnuuppbyggingu standa til boða í stað einhliða áherslu á stóriðju.

Um 2.3 Leyndinni sé svipt af raforkuverði til stóriðju.
Eigi að vera unnt að meta það mál sem hér er til umfjöllunar er grundvallaratriði að raforkusölufyrirtæki upplýsi það verð sem þau bjóða stóriðjufyrirtækjum. Til lítils er að benda á mikinn kostnaðarauka við það að leggja raflínur í jörð í samanburði við loftlínur ef ekki liggur fyrir hvaða raforkuverð er í boði þannig að unnt sé að bera kostnaðarauka í raforkuverði saman við mismunandi útfærslur á raforkuflutningi. Líklegt er að kostnaðaraukinn af því að leggja umræddar raflínur í jörð sé ekki stórvægilegur umreiknað í greiðslur fyrir raforku á rekstrartíma viðkomandi stóriðjuvera.

Virðingarfyllst

Hjörleifur Guttormsson

 

Fylgiskjal: Lög um umhverfismat áætlana (nr. 105/2006)



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim