Hjörleifur Guttormsson 1. apríl 2007

Fylgja þarf eftir sigrinum í Hafnarfirði

Landnám álhringanna (bloggað áður en úrslit lágu fyrir)             
Þjóðin er að vakna upp við veruleika sem er ekki nýr en hefur mörgum verið dulinn. ÍSAL í Straumsvík hóf starfsemi sína 1970 og hafði þá þegar náð ítökum inn í þá stjórnmálaflokka sem stóðu að samningunum við Alusuisse 1966. Síðar festust fleiri flokkar í því neti og stóðu vörð um útsölusamning á raforku sem bundinn var í áratugi.
Aðdragandi kosninganna í Hafnarfirði segir allt um stöðuna, hvernig auðhringurinn hefur hreiðrað um sig í sveitarfélaginu og heldur núverandi meirihluta Samfylkingarinnar í gíslingu. Forsætisráðherra landsins hefur sagt Hafnfirðingum hvernig þeir eigi að greiða atkvæði og bæjarfulltrúar meirihlutans taka undir með þögninni. Hver svo sem verða úrslit íbúakosninganna mun krabbamein álhringanna halda áfram að grafa um sig, því að fjölþjóðafyrirtæki hafa langtímastefnu og gefast ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Að jafnaði reyna auðfélög af þessum toga að tryggja hagsmuni sína að tjaldabaki með pólitískum ítökum en nú hefur orðið breyting á. Alcan með Rannveigu Rist og blaðursfulltrúa sinn í fararbroddi gengur opinskátt fram á völlinn eins og um stjórnmálaflokk sé að ræða og skirrist ekki við að ausa út tugmiljónum í baráttu um hugi Hafnfirðinga. Það sem kynnt var sem nýjung í íbúalýðræði hefur breyst í sýnikennslu um hvers er að vænta nú og framvegis af erlendu stóriðjufyrirtækjunum og innlendum handlöngurum þeirra.
Aðeins einörð andstaða á landsvísu við frekara landnám álhringanna getur stöðvað ráðandi ítök þeirra í stjórnmálalífi hérlendis, jafnt í ríkisstjórn sem innan sveitarfélaga. Þar dugir ekki að segja eitt á Húsavík og annað á Reykjanesi eða Suðurlandi. Í skjóli slíks hringlandaháttar reynist fjársterkum aðilum auðvelt að deila og drottna.

Sigur þrátt fyrir ofurefli                                        

Úrslit íbúakosninganna í Hafnarfirði, þar sem andstæðingar stækkunar álversins í Straumsvík unnu glæsilegan sigur þrátt fyrir ofurefli, munu lengi í minnum höfð. Gegn Sól í Straumi stóð harðsnúin áróðursvél Alcan sem jós úr sjóðum sínum til að hræða Hafnfirðinga til fylgis við nýja risaálverksmiðju. Á hliðarlínunni sat þögull meirihluti Samfylkingarinnar sem leynt og ljóst hefur staðið að undirbúningi stækkunar álversins með bæjarstjórann Lúðvík Geirsson í broddi fylkingar. Í huga Alcanforystunnar og ráðandi meirihluta Samfylkingarinnar áttu kosningarnar aðeins að vera formsatriði til að fá lokastimpil á undirbúning að framkvæmdum við stækkun. Áætlanir Alcan gerðu ráð fyrir að framleiðsla í nýjum áfanga hæfist árið 2010. 
Sigursveit Péturs Óskarssonar formanns Sólar í Straumi og Guðrúnar Ágústu Guðmundsdóttur bæjarfulltrúa Vinstri grænna hefur lyft Grettistaki við erfiðar aðstæður og sent ríkisstjórn stóriðjuflokkanna skilaboð sem ekki verða misskilin. Mikill fjöldi fórnfúsra einstaklinga lagðist á eitt með óeigingjörnu starfi og nógu margir Hafnfirðingar höfðu framsýni til að tryggja þessa niðurstöðu. Þetta var afar mikilvægur áfangi í baráttu gegn stóriðjustefnunni sem fylgja þarf eftir í alþingiskosningunum 12. maí.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim