Hjörleifur Guttormsson 4. maí 2007

Tryggjum verndun Þjórsárvera

Friðland  í gíslingu

Fátt sýnir ljósar bága stöðu náttúruverndarmála hérlendis en sú staðreynd að enn er tekist á um verndun Þjórsárvera í stjórnkerfinu. Í gildi eru lög frá árinu 2003, samþykkt við lok fyrra kjörtímabils, sem heimila Landsvirkjun að fengnu leyfi iðnaðarráðherra að reisa og reka Norðlingaölduveitu. Aðeins þingmenn Vinstri grænna greiddu atkvæði gegn frumvarpinu á sínum tíma en síðan hafa aðrir stjórnarandstöðuþingmenn séð að sér. Ríkisstjórn Sjálfstæðis– og Framsóknarflokks hefur hins vegar verið ófáanleg til að fella þessi lög úr gildi þrátt fyrir að hafi vaxið hafi hröðum skrefum stuðningur við stækkun friðlandsins og að hætt verði við Norðlingaölduveitu. Það hafa verið ráðherrar Framsóknarflokksins sem öðrum fremur hafa komið að málinu innan stjórnarráðsins, nú  síðast Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra.

Dómsúrskurður gegn ríkinu

Landsvirkjun setti Norðlingaölduveitu í mat á umhverfisáhrifum vorið 2002. Í framhaldi af því kvað Skipulagsstofnun sumarið 2002 upp afar umdeildan úrskurð framkvæmdinni í vil. Undirritaður var í hópi ellefu aðila sem kærðu þann úrskurð og Áhugahópur um verndun Þjórsárvera stóð fyrir fjölda funda og annarra aðgerða til að andmæla niðurstöðunni. Kærumálið lenti í höndum Jóns Kristjánssonar setts umhverfisráðherra, þar eð Siv Friðleifsdóttir taldist vanhæf vegna ummæla sinna á Alþingi á fyrri stigum. Úrskurður Jóns var mildandi um nokkur atriði en gerði áfram ráð fyrir veitunni syðst í verunum og svokölluðum „mótvægisaðgerðum” með setlón og fyrirhleðslu norðan Arnarfells. Stríddi sá málatilbúnaður augljóslega gegn lögum eins og síðar hefur komið á daginn. Hins vegar voru ofangreind lög um Norðlingaölduveitu, sett 2003, klæðskerasaumuð utan um þennan úrskurð Jóns Kristjánssonar. Í framhaldi af honum stefndu Áhugasamtökin um verndun Þjórsárvera og undirritaður íslenska ríkinu og Skipulagsstofnun fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur sem komst að þeirri niðurstöðu 27. júní 2006 að hluti úrskurðar setts umhverfisráðherra, þ.e.um mótvægisaðgerðir, skyldi úr gildi felldur og gerð set- og miðlunarlóns norðan og vestan Þjórsárvera þyrfti að fara í mat á umhverfisáhrifum.

Ráðleggingar Morgunblaðsins að engu hafðar

Eftir að þessi dómur féll í Héraðsdómi sagði ritstjóri Morgunblaðsins í leiðara 4. júlí 2006:

„Engar pólitískar forsendur virðast lengur fyrir því að nokkurn tímann verði ráðizt í gerð Norðlingaölduveitu. Stjórnarandstaðan hefur fyrir alllöngu öll snúizt gegn hvers konar virkjunaráformum í eða í grennd við Þjórsárver. ... Fyrir ríkisstjórnina er ekki eftir neinu að bíða. Þegar þing kemur saman í haust á hún að leggja fyrir það frumvarp um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum og afturkalla heimild til virkjanaframkvæmda. Það leikur varla vafi á að Alþingi samþykkir slíkt.”

Þetta gekk ekki eftir. Frumvarp stjórnarandstöðuþingmanna um að afturkalla virkjanaheimildina fékk enga afgreiðslu í þinginu og nefnd sem umhverfisráðherra skipaði 22. nóvember 2006 til að kanna stækkun friðlandsins hefur nú skilað áliti og telur sig ekki geta lagt til stækkun þess til suðurs á meðan ofangreind lagaheimild stendur.

Kjósendur hafa valdið 12. maí

Sveitarfélög sem skipulagsaðilar og Samvinnunefnd miðhálendisins hafa undanfarið tekist á um skipulagsþátt málsins. Meirihluti sveitarstjórnar Skeiða– og Gnúpverjahrepps á síðasta kjörtímabili var eindregið andvígur Norðlingaölduveitu. Núverandi oddviti hreppsins sagði í útvarpsviðtali 3. maí sl. að hann teldi að ákvörðun í stórmáli sem þessu eigi að taka á landsvettvangi fremur en af sveitarfélögum. Almenningur hefur valdið í kosningunum 12. maí næstkomandi og skipan Alþingis á næsta kjörtímabili mun ráða úrslitum af eða á um framtíð friðlandsins í Þjórsárverum. Það á einnig við um fjölmörg önnur umhverfis– og náttúruverndarmál sem strandað hafa á andstöðu núverandi valdhafa eða legið óbætt hjá garði sökum áhugaleysis þeirra. Öll Þjórsárver ættu fyrr en seinna að tengjast stórum Hofsjökulsþjóðgarði eins og undirritaður lagði til á Alþingi fyrir meira en áratug. Vilji almennings og öflugur stuðningur kjósenda við Vinstrihreyfinguna grænt framboð er allt sem þarf til að tryggja verndun Þjórsárvera í heild sinni fyrr en seinna.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim