Hjörleifur Guttormsson | 6. júní 2007 |
Þorskstofninn og ákvörðun um heildarafla Íslendingar eru minntir á það þessa dagana að allt á sín takmörk. Þorskstofninn er að nálgast sögulegt lágmark og stærð hrygningarstofnsins er aðeins um helmingur þess sem talið er að gefi hámarks afrakstur. Nýliðun síðustu sex árin hefur verið slök og meðalþyngd allra aldurshópa þorsks er í sögulegu lágmarki. Þess vegna er þörf á að draga saman þorskveiðar um þriðjung næsta fiskveiðiár og lækka veiðiálagið niður í 20% nú þegar. Þetta er ráðgjöf Hafró sem byggð er á bestu fyrirliggjandi þekkingu. Bjöllur hringja ekki aðeins á Íslandsmiðum heldur allt í kring: Færeyjar, Norðursjór og Nýfundnalandsmið, þar sem nær algjört þorskveiðibann hefur verið í gildi um 15 ára skeið eftir hrun stofnsins 1991. Ofnýtingunni verður að linna Pólitískar ákvarðanir um nýtingu þorskstofnsins hérlendis fylgja kunnuglegu mynstri. Í orði státa menn sig af góðri fiskveiðistjórnun en þegar staðreyndir og vísbendingar um stöðu auðlindarinnar stangast á við óskhyggjuna er náttúran látin bera vafann, þvert á alla skynsemi og varúðarsjónarmið. Ráðamenn ætla seint að finna rétta tímann fyrir nauðsynlegt aðhald í veiðum. Almennt má þó segja að skilningur sé ríkari hér meðal almennings og hagsmunasamtaka á samhengi veiða og afraksturs en gerist hjá öðrum þjóðum. Af þeim sökum ættu stjórnmálamenn að hafa stöðu til að fylgja ráðgjöf eigin sérfræðistofnana. En reynslan sýnir að herslumuninn hefur vantað og safnast þegar saman kemur. Rödd með reynslu að baki Á sjómannadaginn 3. júní sl. birti Morgunblaðið viðtal við Kristján Pétursson togaraskipstjóra sem hefur hálfrar aldar reynslu að baki á sjó. Hann talar í senn yfirvegað og tæpitungulaust. Hér verða tilfærð nokkur ummæli Kristjáns úr þessu viðtali:
Það er ekki ónýtt fyrir stjórnmálamenn sem þurfa að taka á honum stóra sínum að fá slík orð í eyra og styðjast við þau þegar taka þarf framsýnar en umdeildar ákvarðanir. Breytt fiskveiðistjórnun og rannsóknir Áframhaldandi umræða um breytingar á óréttlátu fiskveiðistjórnunarkerfi með framsali veiðiheimilda og öðrum ágöllum er sjálfsögð og nauðsynleg sem og stjórnarskrárbundin stefnumörkun um meðferð auðlinda. Það tekur hins vegar óhjákvæmilega tíma að vinna slíkum breytingum fylgi auk þess sem gera verður ráð fyrir aðlögunartíma. Framsal fiskveiðiheimilda og sú „einkavæðing” sem ástunduð hefur verið í hálfan annan áratug hefur tekið sinn toll og skýrir stóran hluta af fjármálaumsvifum banka og fyrirtækja hérlendis, einnig í marglofaðri útrás. Fyrirkomulag veiða og verndun og nýting svæða innan fiskveiðilögsögunnar er annað stórmál sem þarfnast stefnumörkunar og kallar jafnframt á margefldar hafrannsóknir. Þörfin á auknu fjármagni í þessu skyni ætti að blasa við, ekki síst nú, þegar væntingar um viðgang helstu nytjastofna ganga ekki eftir. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur markað sér skýra stefnu í sjávarútvegsmálum þar sem í senn er horft til auðlindaverndar, byggðasjónarmiða og breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Í stefnu Vinstri grænna sem kynnt var í nýafstaðinni kosningabaráttu undir yfirskriftinni Græn framtíð segir m.a.:
Varúðarnálgun snertir veiðar úr einstökum tegundum og aflareglur svo og skilgreiningu og lögfestingu á líffræðilegum hættumörkum. – Um leið og reynt er að rjúfa vítahring liðinna ára er brýnt að festa í sessi slík viðmið sem varða undirstöðuþætti fyrir velferð þjóðarinnar. Hjörleifur Guttormsson |