Hjörleifur Guttormsson 8. febrúar 2007

Framtíðarlandið áfram grasrótarsamtök

  • Það var ánægjulegt að sjá góða þátttöku í fundi Framtíðarlandsins á Loftleiðum í gærkvöldi. Þéttskipaður fundarsalur með tvöhundruð manns á félagsfundi í miðri viku er meira en vænta mátti. Verkefni fundarins var að fá úr því skorið hvort félagsmenn vildu breyta Framtíðarlandinu í framboðsafl til Alþingis og þar með í stjórnmálaflokk eða halda samtökunum sem þverpólitísku áhugamannafélagi um umhverfismál. Það síðara varð niðurstaðan og úrslit atkvæðagreiðslunnar voru skýr og ótvíræð. Þannig reyndi ekki á þann aukna meirihluta sem bráðabirgðastjórnin hafði sett sem skilyrði fyrir að efna til framboðs og breyta þannig grundvelli félagsins.
  • Ég er ekki í vafa um að þetta var skynsamleg ákvörðun út frá því markmiði sem ég hygg að hafi verið hreyfiaflið í tilurð þessara áhugasamtaka og birtist á fjöldafundinum 17. júní sl. og á vel sóttu Haustþingi 29. október 2006. Það hefði verið siðferðilega meira en lítið tvíbent að snúa nú við blaðinu og nota nafn félagsins til að efna til framboðs sem líklega blundaði aðeins í huga fárra aðstandenda í upphafi. Skiptir þá ekki máli hvaða hugmyndir menn kunna að hafa gert sér um uppskeru úr slíkri tilraun. Nú er heldur ekki um það að fást og viðfangsefni Framtíðarlandsins að ná árangri sem frjáls þverpólitísk umhverfisverndarsamtök.

  • Framtíðarlandið sem hugmynd er sprottið upp úr jarðvegi sem var vel plægður fyrir af áhugamannasamtökum um náttúruvernd og stjórmálaöflum sem í nærfellt áratug hafa barist hart gegn stóriðjustefnu íslenskra stjórnvalda og einnig hafa brugðist á öðrum sviðum umhverfismála. Einnig Draumaland Andra Snæs Magnasonar er vaxið úr þessum jarðvegi án þess dregið sé úr snilldarúrvinnslu hans á efniviðnum. Margt af því fólki, vel á þriðja þúsund manns, sem á síðasta ári skráði sig í Framtíðarlandið hefur verið virkir þáttakendur í andófi liðinna ára og birtist aftur og aftur hvenær sem umhverfisverndarmerkið er reist. En hópurinn hefur farið ört stækkandi og jarðvegurinn nú er allur annar og frjórri en fyrir fjórum árum. Þennan akur þurfa frjáls umhverfisverndarsamtök að yrkja en það verður framvegis ekki fyrirhafnarlaust frekar en hingað til.
  • Veikleiki Framtíðarlandsins fram að þessu hefur einkum birst í því að dregist hefur að setja félaginu leikreglur til að starfa eftir og ekki hafa verið haldnir félagsfundir fyrr en nú. Engin skipuleg starfsemi hefur verið í gangi fyrr en á allra síðustu vikum með stofnun vinnuhópa en einnig þá hefur vantað fókus sem ekki er að undra á meðan framboðshugmyndin var á lofti og óútkljáð. Úr þessum vanköntum er unnt að bæta og það er brýnt ef Framtíðarlandinu á að takast að ná því markmiði að styrkja umhverfisverndarbaráttuna í fullri breidd nú í aðdraganda alþingiskosninga og vera samráðs– og samstillingarvettvangur til frambúðar.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim