Hjörleifur Guttormsson 8. maí 2007

Álsamruni, rússnesk rúlletta og stóriðjustefnan

Fjandsamlegt yfirtökutilboð Alcoa á Alcan beint til hluthafa framhjá stjórn Alcan sýnir þá hörðu samkeppni og miklu ókyrrð sem ríkir hjá stærstu álfyrirtækjum heims, þar sem auk ofangreindra fyrirtækja koma einkum við sögu rússneski álrisinn RUSAL , BHP Billiton og Rio Tinto, að ógleymdum kínverska risanum Chalco svo og indverskum og arabískum fyrirtækjum á þessu sviði.

Þessi gífurlegu hagsmunaátök milli álframleiðenda geta haft stórfelld og ófyrirsjáanleg áhrif hérlendis, bæði á stöðu og framtíð þeirra þriggja álbræðslna sem þegar eru til staðar svo og eftirleikinn, takist ekki að stöðva núverandi stóriðjustefnu stjórnvalda. Sú staðreynd gæti blasað við fyrr en varir að einn álrisi væri orðinn eigandi að öllum fjárfestingum í áliðnaði hérlendis og aðili að samningum við Landsvirkjun og önnur orkufyrirtæki, þar á meðal þeim skuldbindingum og viljayfirlýsingum sem þau hafa verið að undirrita að undanförnu. Með slíkri atburðarás hefði einn og sami aðili náð kverkataki á Landsvirkjun og öðrum viðsemjendum og skapað sér áður óþekkta áhrifastöðu í íslenskum þjóðarbúskap.

Fjölmiðlar eins og Financial Times benda á að þetta nýjasta útspil Alcoa endurspegli vaxandi áhyggjur álframleiðenda út af breyttum aðstæðum á álmörkuðum með lækkandi verði eftir methagnað á síðustu árum. Mikil framleiðsluaukning í Kína og öðrum þróunarríkjum eykur enn á óvissu um verðþróun, fjárfestingar og samskeppnisskilyrði milli álrisanna innbyrðis.

Í fréttum New York Times í dag, 8. maí, af yfirtökutilboði Alcoa er áhuginn á samruna við Alcan meðal annars rakinn til hagstæðs raforkuverð þess síðarnefnda frá vatnsaflsvirkjunum í Quebec og British Columbia í Kanada. Forstjóri Alcan upplýsti í gær að fylkisstjórn Quebec hafi nýverið gert samning um stórt vaxtalaust lán og skattafríðindi til handa Alcan, en samningi þessum kunni að verða rift ef fyrirtækið flytti aðalstöðvar sínar burt úr fylkinu. Þetta minnir á þá óforsvarandi leynd sem íslensk stjórnvöld og Landsvirkjun halda yfir samningum við Alcan og Alcoa hérlendis. Forstjóri Alcoa miklaðist yfir því  á síðasta ári að orkuverð í samningum Alcoa vegna álbræðslunnar á Reyðarfirði væri helmingi lægra en í Brasilíu.

Síðustu viðburðir í átökum milli álrisanna undirrstrika þá stórfelldu áhættu sem felst í stóriðjustefnu stjórnvalda sem ekki verður líkt við annað en rússneska rúllettu. Það er lágmarkskrafa að það áhættuspil verði stöðvað og ekki haldið lengra út í óvissuna með orkulindir landsmanna, íslenska náttúru og fjárhagslega hagsmuni sem varða hvert einasta heimili og almenna atvinnuþróun hérlendis. Það hefur hingað til ekki þótt skynsamlegt að setja öll egg í sömu körfu

Tækifæri til að ná áttum og stöðva þetta feigðarflan gefst í kosningunum á laugardaginn 12. maí með öflugum stuðningi við Vinstrihreyfinguna – grænt framboð.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim