Hjörleifur Guttormsson 9. janúar 2007

Feluleikur með stóriðjustefnuna
Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. janúar 2007

Í áramótagrein í Morgunblaðinu 31. desember sl. segir Geir H. Haarde forsætisráðherra að þótt ekki séu líkur á að næstu árin verði hér reist önnur stórvirkjun á borð við Kárahnjúkavirkjun væri glapræði að segja skilið við stóriðjustefnuna. Sama dag sagði hann í þætti á Stöð 2 að hann væri meðmæltur ráðgerðri stækkun álversins í Straumsvík. Sú „stækkun” er reyndar lítið minni en álverið á Reyðarfirði og þarfnast því viðlíka mikillar orku. Landvirkjun undirbýr nú útboð viðkomandi virkjana í Þjórsá strax næsta haust. – Enginn fer í grafgötur um óbreytta stefnu Framsóknarflokksins þótt formaður hans reyni nú að skýla sér á bak við sveitarstjórnir og orkufyrirtæki. Hæg eru heimatökin með núverandi stjórnarformann Landsvirkjunar innarlega úr búri Framsóknar.

Straumsvíkurál og Samfylkingin
Stefna Samfylkingarinnar í stóriðjumálum er í reynd hin sama og stjórnarflokkanna og feluleikurinn gagnsær ekki síður en hjá oddvitum þeirra. Fagra Ísland er aðeins ábreiða til að reyna að hylja raunverulegan ásetning. Í Hafnarfirði stjórnar nú Samfylkingin sveitarfélaginu með auknum meirihluta og hefur þannig öll ráð í sinni hendi. Bæjarstjórinn Lúðvík Geirsson fer ekki dult með þá skoðun sína að heimila beri Alcan umrædda stækkun, sem í reynd er nýtt risaálver upp á 280 þúsund tonn. Sviðsetningin með atkvæðagreiðslu um málið innan sveitarfélagsins er til þess gerð að reyna að fela stóriðjustefnu Samfylkingarinnar. Þar er sami loddaraleikurinn viðhafður og í Skagafirði þar sem Samfylkingin ásamt Framsókn beitir sér fyrir atkvæðagreiðslu um virkjun jökulánna. Bygging risaverksmiðja með tilheyrandi virkjunum er auðvitað ekki aðeins mál viðkomandi sveitarfélaga heldur landsins alls. Eigi að skera úr slíkum málum með sérstökum atkvæðagreiðslum verða þær að lágmarki að fjalla um allan pakkann, verksmiðjur, virkjanir og raflínur, og raunar að vera liður í landsskipulagi.

Óskastærðin nú 500–700 þúsund tonn
Það hefur legið fyrir í heilan áratug að álrisarnir telja sig þurfa einingar sem hver  geti framleitt 500–700 þúsund tonn árlega. Töluna 700 þúsund tonn nefndi Finnur Ingólfsson á Alþingi haustið 1997 sem óskastærð Norsk Hydro á Reyðarfirði. Flestum blöskraði og þá voru búnir til minni áfangar í leið að marki. Nú nefnir talsmaður Norsk Hydro hérlendis óhikað óskatöluna 600 þúsund tonn. Alcan telur sig þurfa um 500 þúsund tonna verksmiðju í Straumsvík ella pakki fyrirtækið saman innan tíðar. Þess verður ekki langt að bíða að Alcoa leggi fram óskir um stækkun verksmiðjunnar á Reyðarfirði. Sama verður uppi á Grundartanga og í Helguvík eftir að menn hafa komið sér þar fyrir. Harður heimur samkeppninnar sér fyrir því og þá er að kaupa sér velvild lítilla sveitarfélaga eins og nú birtist í sýnikennslu í Hafnarfirði. Í bæjarkassann þar eiga að renna 800 milljónir og stjórn Landsvirkjunar eða Orkuveitu Reykjavíkur á að reiða fram orkuna. Ýmsum hentar að láta sem þeir sjái ekki í gegnum vefinn, eins og formaður Frjálslynda flokksins sem  reynir í áramótagrein í Morgunblaðinu að telja sér og öðrum trú um að annað sé í boði og talar um „álver af hæfilegri stærð”.

Blekkingaleikurinn á Austurlandi
Austfirðingar gengu að meirihluta til í gildru álrisanna og forystumanna stjórnarflokkanna sem nutu eindregins stuðnings Samfylkingarinnar. Náttúru og samfélagi á Austurlandi er nú umturnað í þágu Alcoa og ekki skeytt um skömm né heiður varðandi leikreglur. Það blasir við eftir Hæstaréttardóm að álveri Alcoa var troðið í gegn í blóra við lög og rétt. Því var m.a. hampað í matsferli og á Alþingi að íbúum á Austurlandi muni fjölga um þúsundir í kjölfar framkvæmdanna. Síðustu tvö árin, 2005 og 2006, færir Hagstofan okkur þau tíðindi að íslenskum ríkisborgurum á svæðinu hafi fækkað bæði árin. Þetta gerist þótt búið sé að ráða fólk í um helming þeirra starfa sem í boði verða í álverinu. Ruðningsáhrif framkvæmdanna eru í fullum gangi og það má teljast gott ef íbúafjöldinn í fjórðungnum á næstu árum hangir í því að verða sá sami og „fyrir ál”. Í fyllingu tímans kemur að því að Alcoa eða nýr eigandi setur fram kröfuna um stækkun verksmiðjunnar, ella verði henni lokað. Hætt er við því að fyrr en varir verði sveitarstjórnarmenn eystra tengdir álveri Alcoa margvíslegum hagmunaböndum og það er vel þekkt að eftir höfðinu dansa limirnir. Það samfélagslíkan sem þarna er í mótun á síðan að kópíera á Húsvík og víðar.

Afdrifaríkar kosningar
Alþingiskosningarnar eftir aðeins fjóra mánuði verða afdrifaríkar. Í þeim og stjórnarmyndun að þeim loknum mun það ráðast hvort álfyrirtækin ná því kverkataki á íslenskum orkulindum sem þau stefna að. Í kosningabaráttunni eigum við eftir að sjá feluleik frambjóðenda stóriðjuflokkanna stundaðan af miklu kappi. Það reynir því á að kjósendur láti ekki villa um fyrir sér. Aðeins stórsigur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs getur knúið fram straumhvörf og komið í veg fyrir framhald á stóriðjustefnunni sem einkennt hefur landsstjórina í heilan áratug.  



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim