Hjörleifur Guttormsson 9. mars 2007

Framsóknarflokkurinn og útsala sjávarauðlindanna

Eins og alþjóð veit er það Framsóknarflokkurinn sem ber höfuðábyrgð á einkavæðingu sjávarauðlindanna þrátt fyrir lagaákvæði þess efnis frá árinu 1987 að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar. Halldór Ásgrímsson hefur með réttu verið talinn holdgervingur kvótakerfisins og framsals fiskveiðiheimilda, sem leitt hefur til þeirrar samþjöppunar í sjávarútvegi sem raun ber vitni og sett hefur mörg byggðarlög í landinu á vonarvöl. Lögfesting á frumvarpi Halldórs í desember 1983 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands (lög 82/1983) voru upphafið á vegferð sem haldið hefur áfram til þessa dags. Það þótti því eðlilega tíðindum sæta þegar forysta Framsóknarflokksins að frumkvæði Sivjar Friðleifsdóttur rifjaði á elleftu stundu upp ákvæði stjórnsáttmálans þess efnis að festa beri sameign sjávarauðlindanna í stjórnarskrá. Svo hart skyldi fram gengið að varðaði stjórnarslit ef ekki yrði við þetta staðið fyrir þinglok.

... þjóðareign þó þannig ...

Niðurstaðan af einkaviðræðum formanna stjórnarflokkanna sem kynnt var í gær sætir ekki minni tíðindum, því að á næturfundum hafði Geir H Haarde tekist að snúa svo rækilega upp á handlegginn á Jóni Sigurðssyni að hann skrifaði undir svohljóðandi plagg:

„Náttúruauðlindir Íslands skulu vera þjóðareign þó þannig að gætt sé réttinda einstaklinga og lögaðila samkvæmt 72. grein. Ber að nýta þær til hagsbóta þjóðinni, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Ekki skal þetta vera því til fyrirstöðu, að einkaaðilum séu veittar heimildir til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum samkvæmt lögum.”

Öllum nema kannski Jóni Sigurðssyni var það ljóst um leið og þessi texti birtist að verr væri af stað farið en heima setið með þessa niðurstöðu. Morgunblaðið slær því síðan upp í fréttaskýringu á forsíðu að Siv hafi verið rekin til baka og sjálf mátt drekka úr kaleiknum. Þetta kynlega tvíhöfða afkvæmi mun gagnast formanni Sjálfstæðisflokksins vel á sínum heimavígstöðvum á næstunni, en getur orðið sem myllusteinn um háls Framsóknarforystunnar. „Meginmarkmiðið með þessu er að staða nýtingarheimilda haldist óbreytt ...” át Jón Sigurðsson upp eftir Geir Haarde sem brosti breitt framan í sjónvarpsvélarnar.
            Sjálfsagt er að leysa formennina undan þessari martröð, ef þeir á annað borð vilja þiggja aðstoð, og þá fyrst af öllu með því að strika út hortittinn „ ... þó þannig að gætt sé réttinda einstaklinga og lögaðila samkvæmt 72. grein.” 

400 milljarðar milli vina

Á haustþingi Framtíðarlandsins 30. október sl. flutti Yngvi Örn Kristinsson framkvæmdastjóri verðbréfasviðs Landsbankans athyglisverða ræðu undir heitinu Er þjónusta þriðja stoðin? Þar dró hann það fram að handhafar veiðiheimilda hafi í krafti kvótakerfisins komist yfir 400 milljarða króna af nýju veðsetjanlegu eigin fé. Þessa fjármuni hafi hinir heppnu eigendur síðan getað nýtt og ávaxtað að vild. Þessi einkavæðing sjávarauðlindanna hafi ásamt einkavæðingu ríkisfyrirtækja og „víkingaferðum” nokkurra stórlaxa, allt frá bjórævintýri þeirra Björgólfsfeðga til uppkaupa Baugs, Arcadia, Pharmaco og margra fleiri, „búið til” samtals um 900 milljarða af nýju veðsetjanlegu eigin fé. Þar eð ekki var pláss og tækifæri til að ávaxta þetta fjármagn nema að takmörkuðu leyti hér innanlands leituðu hinir nýríku handhafar fjármagnsins til útlanda með sitt pund og „útrásin” margumrædda varð staðreynd. Beinar fjárfestingar erlendis undanfarin ár (einkum 2004 og 2005) hafi numið 620 milljörðum króna. Jafnframt dró hann fram hvernig „gírunin” birtist í mikilli erlendri skuldsetningu þjóðarbúsins. Síðan ræddi Yngvi um útrásina sem klasafyrirbæri og hvers megi frekar af henni vænta. – Á þetta er minnt hér til að vekja athygli á hvernig einkavæðing fiskveiðiheimildanna fæddi af sér ófáa nýja kolkrabba í íslensku viðskiptalífi. Dansinn hefur verið stiginn hratt í  kringum þennan gullkálf einkavæðingarinnar sem Framsóknarflokkurinn hjálpaði á legg og vill nú koma fyrir í skjaldarmerki lýðveldisins.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim