Hvenær hófst umræðan um þjóðareign á sjávarauðlindunum?
Össur Skarphéðinsson alþingismaður átti góðan sprett í morgunútvarpi Rásar 1 fyrr í vikunni þar sem hann gagnrýndi tillögu formanna stjórnarflokkanna og skýrði afstöðu sína til þjóðareignar á sjávarauðlindum. Honum fataðist hins vegar þegar hann sagði Alþýðuflokkinn hafa verið fyrstan að leggja fram tillögur um slíkt sameignarákvæði í löggjöf, notaði að vísu orðin „við jafnaðarmenn”. Þótt fortíðin skipti minna máli en framtíðin er vegna yfirstandandi umræðu tilefni til að rifja upp fáeinar staðreyndir þetta varðandi. Fyrsta tillagan um þetta efni kom frá þingmönnum Alþýðubandalagsins í desember 1983 þegar til umræðu var frumvarp Halldórs Ásgrímssonar sjávarútvegsráðherra um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands (mál 143 á 106. löggjafarþingi) en af samþykkt þess leiddi kvótakerfið.
Hér á eftir verður vísað til ræðu undirritaðs 14. desember 1983 af tilefni þessa frumvarps Halldórs.
Almannaeign á sjávarauðlindum
Niðurlag ræðu minnar var svohljóðandi:
„Svo að síðustu: Vegna þess að hér er verið að ræða um að breyta mjög verulega til, að brjóta í blað er óhætt að segja í sambandi við stjórnun fiskveiða í landinu, er eðlilegt að menn spyrji: Er ekki réttmætt að taka til athugunar að kveða á um í lögum hver sé eignar- og umráðaaðili hinna lífrænu auðlinda hafsins? Ég veit að slík löggjöf er vandaverk því að það er tiltölulega auðvelt að slá því föstu, sem mörgum kann að þykja sjálfsagt og þurfi ekki að skrá í lög, að auðlind hafsins innan íslenskrar fiskveiðilögsögu sé almannaeign þar sem íslenska ríkið fari með eignarréttinn. En menn eru að ræða í tengslum við breytta fiskveiðistefnu og uppi eru hugmyndir um sölu veiðileyfa og margt af því tagi, þó að hæstv. ráðherra sé ekki að gera tillögu um það hér og hafi jafnvel lýst andstöðu sinni við það. En ef til einhvers slíks kemur, þá er nú kannske vissara að menn hafi það nokkuð á hreinu hver sé eignar- og umráðaaðili yfir þessari auðlind, fiskistofnunum við landið.
Ég minni á frv. sem ég lagði hér fram á síðasta þingi fyrir hönd ríkisstjórnar, frv. til laga um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, og sem vísað var til ríkisstjórnar af síðasta þingi. Ég held að réttmætt væri að þetta atriði yrði tekið til sérstakrar athugunar á næstunni í sambandi við hinar lífrænu auðlindir og þar kvaddir til færir lögfræðingar ásamt öðrum til að líta á það mál.”
Tillaga AB um þjóðareign 1983 felld
Þessi hugmynd um að lýsa ríkið sem handhafa almennings eiganda að sjávarauðlindunum var síðan rædd í þingflokki Alþýðubandalagsins og þar samþykkt að þetta atriði ásamt ýmsum öðrum sett inn í breytingartillögu við stjórnarfrumvarpið. Flutningsmenn breytingartillögunnar voru eftirtaldir: Steingrímur J. Sigfússon, Geir Gunnarsson og Hjörleifur Guttormsson. Fyrsti liður hennar var svohljóðandi:
Fiskveiðilandhelgi Íslands og auðlindirnar innan hennar eru þjóðareign, sameign allra Íslendinga.
Það er vert að minnast þess að þetta var fyrsta þingið sem Steingrímur J. Sigfússon sat, en hann var kjörinn á þing fyrir Norðurland eystra fyrr þetta sama ár, þ.e.vorið 1983.
Alþýðuflokksmenn með Kjartan Jóhannsson í fararbroddi fluttu einig breytingartillögu við frumvarpið en þar var ekki minnst á þjóðareign eða sameign á fiskistofnunum.
Breytingartillögur stjórnarandstöðunnar voru allar felldar, þar á meðal ákvæðið um þjóðareign á sjávarauðlindunum. Um þá afgreiðslu sagði ég við lokaumræðu:
En það hefur verið gengið enn þá lengra í sambandi við að hafna framkomnum hugmyndum frá stjórnarandstöðunni í þessu máli, eins og berlega kom í ljós við atkvgr. sem fram fór áðan. Þar felldu 24 hv. þingmenn í þessari deild tillögu sem þannig hljóðaði: „Fiskveiðilandhelgi Íslands og auðlindirnar innan hennar eru þjóðareign, sameign allra Íslendinga.“ Ekki einu sinni þessi tillaga hlaut náð fyrir augum þess meirihluta sem hér ætlar að knýja fram valdaafsalið til hæstv. sjávarútvegsráðherra. Það má ekki einu sinni liggja fyrir að þær auðlindir sem ráðherrann á að deila og drottna yfir séu sameign allrar þjóðarinnar. Það má að mati þessara hv. manna, sem felldu þetta ákvæði áðan, ekki standa í íslenskri löggjöf, eins og hér var gerð tillaga um. Stefnuyfirlýsing af þessu tagi, sem felst í þessari tillögu, ætti að mínu mati að vera nokkuð sjálfsögð og hún getur haft verulega þýðingu í sambandi við umræður og álitamál varðandi meðferð fiskveiðimála okkar og nýtingu fiskveiðilögsögu okkar á komandi árum. Því ber að harma það alveg sérstaklega að þetta ákvæði skuli einnig hafa fallið fyrir þeim meirihluta sem hér hefur myndast og komið fram í hv. deild og beitti sér gegn því að tekið yrði í nokkru undir tillögur frá minnihlutanum úr stjórnarandstöðuliðinu.
Lögfesting sameignarákvæðis 1987
Eftir kosningarnar vorið 1987 var mynduð þriggja flokka stjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks sem sat til haustsins 1988. Halldór Ásgrímsson var þá öðru sinni sjávarútvegsráðherra og nú gerðist það, ég hygg að kröfu Alþýðuflokksmanna, að inn í frumvarp um stjórn fiskveiða (181. mál, 110 löggj.þing) var sett svofellt ákvæði sem 1. grein:
Fiskistofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.
Var ákvæði þetta lögfest óbreytt, en við meðferð málsins flutti ég ásamt fjórum öðrum þingmönnum Alþýðubandalagsins í Neðrideild svofellda breytingartillögu við þetta ákvæði:
Auðlindir innan fiskveiðilandhelgi Íslands eru þjóðareign, sameign allra Íslendinga. Öll stjórn á nýtingu þeirra skal taka mið af því. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þessara sameiginlegu auðlinda og stuðla með því að traustri atvinnu og byggð í landinu.
.........
Lengra verður þessi saga ekki rakin. Hún tekur af tvímæli um hverjir það voru sem höfðu frumkvæði að því að ákvæðið um þjóðareign á sjávarauðlindunum var tekið inn í íslenska löggjöf. Þeir hinir sömu hafa lengi barist fyrir því að slíkt ákvæði verði sett í stjórnarskrá lýðveldisins og það sjónarmið hefur átt vaxandi skilningi að mæta. Þegar það gerist verður að tryggja að slíkt ákvæði hafa merkingu en með því sé ekki verið að innsigla þá einkavæðingu auðlindarinnar sem reynt hefur verið leynt og ljóst að festa í sessi undanfarna tvo áratugi.
Hjörleifur Guttormsson |