Hjörleifur Guttormsson 10. apríl 2007

Vandi Íslandshreyfingarinnar

Greining Ómars í ársbyrjun

Snemma á þessu ári, 24. janúar, skrifaði Ómar Ragnarsson pistil á heimasíðu sem bar heitið Vandi Vinstri grænna. Við lestur greinar hans varð mér ljóst að hann hygðist fara fram á völlinn í komandi alþingiskosningum. Inntakið í þessum pistli Ómars kom fram í eftirfarandi ummælum hans:

„Vinstri græna dreymir um 25 prósent fylgi í kosningunum í vor sem umbun fyrir góða frammistöðu í baráttunni gegn stóriðjustefnunni. Steingrímur og hans fólk eiga það fylgi fyllilega skilið að mínu mati ef umhverfismálin ein væru notuð sem mælikvarði. Ef flokkurinn lægi á miðju íslensks stjórnmálalitrófs væri raunhæft að hann næði þessu markmiði og vel það. En meðan hann liggur á vinstri jaðrinum getur hann þetta ekki og það er vandi hans gagnvart stórum hópi umhverfisverndarfólks. Því miður.”

Þá segir Ómar takmörk fyrir því hve VG geti laðað til sín marga af hægri sinnuðum kjósendum og á því byggi stöðugt fylgi Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnunum. Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að sæta ábyrgð á virkjanafíkninni sem hann hafi ræktað í 16 ár.

Næstu vikur heyrðist öðru hvoru í Ómari þar sem hann gaf til kynna að von væri tíðinda af framboði. Á félagsfundi í Framtíðarlandinu 7. febrúar óskaði Ómar sem utanfélagsmaður sérstaklega eftir að tjá sig og notaði það tækifæri til að mæla gegn því að Framtíðarlandið byði fram. Margrét Sverrisdóttir hafði röskri viku áður sagt sig úr Frjálslynda flokknum. Brátt fóru að berast fregnir um pólitískan samdrátt þeirra á milli.

Viðbrögðin við boðuðu Í-framboði

Vinstri grænir sem mælst höfðu með nálægt 20% fylgi í skoðanakönnunum frá síðasta hausti sóttu enn í sig veðrið eftir áramótin samkvæmt Gallup-könnunum og mældust með 27,6% fylgi 22. mars, sama daginn og flokkur þeirra Ómars og Margrétar var formlega kynntur til leiks. Sjálfstæðisflokkurinn mældist þá með 36% fylgi. Viku seinna var fylgi VG samkvæmt sömu könnun 24%, flokkur Ómars fékk 5,2% en Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig tæpu prósenti. Þann 5. apríl var staðan sú að VG mældist með 21% fylgi, Ómars-flokkurinn með 4,5% en Sjálfstæðisflokkurinn hafði rokið upp í 40%.

Í umræðu um framboðsáhuga nokkurra einstaklinga innan Framtíðarlandsins varaði undirritaður við slíku framboði af tveimur ástæðum. Annars vegar benti ég á að félagið hefði verið stofnað sem þverpólitísk grasrótarsamtök, hins vegar að slíkt framboð væri líklegt til að dreifa kröftum stóriðjusandstæðinga og drægi úr líkum á að takast megi að fella ríkisstjórnina. Þessi viðhorf mín og margra fleiri þekkti Ómar mæta vel sem og Ósk Vilhjálmsdóttir sem verið hafði í fararbroddi þeirra sem vildu breyta Framtíðarlandinu í stjórnmálaflokk en varð þar í minnihluta.

Innri mótsagnir Íslandshreyfingarinnar

Réttlæting Ómars Ragnarssonar fyrir sérstöku framboði á sínum vegum til að draga byr úr seglum Sjálfstæðisflokksins var aldrei trúverðug og þegar hefur sýnt sig að hún gengur ekki upp. Það fylgi sem Í-listinn hefur mælst með í tvígang er að mati Capasent Gallups fyrst og fremst sótt í raðir fólks sem lýst hafði sig reiðubúið til að fylkja sér um Vinstri græna og í minna mæli tekið frá Samfylkingu. Þetta var fyrirsjáanlegt, meðal annars af þeim ástæðum að engir áberandi talsmenn úr röðum Sjálfstæðisflokksins sýndu áhuga á stuðningi við framboð Ómars.
Enginn fjórmenninganna sem talað hafa máli Íslandshreyfingarinnar á fundum að undanförnu eru þekkt af stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn og einn meira að segja verið varaþingmaður Samfylkingarinnar á yfirstandandi kjörtímabili. Flokkur Ómars kynnir sig með þá stefnuáherslu fyrst og síðast að stöðva stóriðjustefnuna, nákvæmlega sama stefnumið og Vinstri grænir hafa haldið á lofti frá stofnun eða í tvö heil kjörtímabil með þeim árangri að ótvíræður meirihluti þjóðarinnar leggst nú á sömu sveif. Þótt finna megi einstaka hægridrætti í stefnuyfirlýsingu Íslandshreyfingarinnar eins og hún var kynnt um síðustu mánaðamót skipta þeir engu máli í heildarmyndinni og nógu margir eru fyrir til að halda þeim sjónarmiðum á lofti. Kenning Ómars Ragnarssonar um fælingaráhrif vinstra–hugtaksins, þ.e. áherslu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á jöfnuð í samfélaginu, hefur sýnt sig að vera blekking. Þar við bætist að Vinstri grænir hafa stig af stigi verið að þróa græna hugmyndafræði sína, byggt á áherslum um sjálfbæra þróun, og hafa þegar haft mikil áhrif á þjóðfélagumræðuna.

Dregur Íslandshreyfingin í land?

Margir einlægir stóriðjuandstæðingar, einnig utan raða VG, hafa að undanförnu haft orð á því við mig að þeir trúi því ekki að Ómar Ragnarsson efni í þann óvinafagnað og taki á sig þá áhættu sem við blasir með framboði Íslandshreyfingarinnar, þ.e. að framlengja líf ríkisstjórnarinnar. Enginn efast um einlægan vilja Ómars og annarra í hans liði að stöðva frekari stóriðjuáform. En með því að halda fast við sérframboð, sem augljóslega getur orðið til þess að gera að engu yfirlýst markmið, er Íslandshreyfingin að taka á sig mikla ábyrgð. Nú mánuði fyrir kosningar hafa enn engin framboð verið kynnt af hálfu Íslandshreyfingarinnar og því eiga forsvarsmenn hennar alla möguleika á að draga í land með reisn og hvetja um leið liðsmenn sína til að styðja þá flokka og frambjóðendur sem tekið hafa trúverðuga afstöðu gegn stóriðjustefnunni.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim