Hjörleifur Guttormsson 14. maí 2007

Kosningaúrslitin: Herslumuninn vantaði

Sjaldan hefur verið jafn mjótt á munum í alþingiskosningum og nú ef litið er á þær sem uppgjör ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu. Ríkisstjórnin heldur tæpasta meirihluta 32:31 með 48,4% kjósenda að baki sér.

Íslandshreyfingin setti stórt strik í útkomuna og reyndist verða bjarghringur fyrir ríkisstjórnina eins og undirritaður óttaðist og varaði við. Í-listinn fékk 3,3% greiddra atkvæða og engum blandast hugur um að meirihluti þeirra hefði komið í hlut Vinstri grænna og Samfylkingar. Tilburðir Ómars Ragnarssonar til að réttlæta sína framgöngu standast ekki og niðurstaðan er afdrifarík og dapurleg hvernig sem á málið er litið.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð fékk langbesta útkomu úr kosningunum eins og vænta mátti miðað við þann hljómgrunn sem skýr málflutningur flokksins og barátta hafði meðal fólks. Nokkur prósent í viðbót hefðu skipt sköpum um heildarstöðuna en flokkurinn stendur styrkur eftir kosningarnar og er reynslunni ríkari. Þörfin fyrir stór skref  og ný úrræði í umhverfisvernd er knýjandi. Krafan um jöfnuð og aukið lýðræði með þátttöku almennings í ákvörðunum hljómar víða. Aukinn hlutur kvenna í samfélaginu verður áfram ofarlega á blaði í stjórnmálaumræðunni. Verkefni VG verða m.a. að standa áfram vörð um þessi gildi og safna um þau liði.

Sjálfstæðisflokkurinn náði að auka hlut sinn og bæta við sig þremur þingsætum. Það hlýtur að teljast góður árangur eftir 16 ára stjórnarforystu, þótt fylgi flokksins hafi stundum verið meira. Þessu getur flokkurinn ekki síst þakkað velheppuðum formannaskiptum og því trausti sem Geir H. Haarde hefur náð að ávinna sér. Hins vegar er margháttuð ólga undir niðri í flokknum og Sjálfstæðismenn gefa umhverfismálum lítinn sem engan gaum.

Framsóknarflokkurinn má heita rjúkandi rúst eftir þessar kosningar, fékk ekki aðeins verstu útkomu í 90 ára sögu sinni heldur stendur eftir þingmannslaus í höfuðborginni og með litlausan formann utan þings. Halldór Ásgrímsson lagði til efnið í þessa bálför og óvíst að flokkurinn eigi eftir að rísa úr öskustónni í bráð. Kjósi Framsókn að hanga áfram í ríkisstjórn upp á náð og miskunn Sjálfstæðisflokksins efnir hún í eigin grafskrift.

Samfylkingin tapar verulegu fylgi og tveimur þingmönnum. Þegar sú staða bætist við óljósa stefnu og innbyrðis sundurþykkju í mörgum stórmálum er flokknum vandi á höndum. Það eina sem sameinaði Samfylkinguna fyrir kosningar var draumurinn um að komast í ríkisstjórn. Rætist sú von ekki er hætt við að innanbúðardeilur verði áberandi og flokknum gangi illa að ná frekara flugi.

Frjálslyndi flokkurinn heldur að nafninu til óbreyttri stöðu en stendur veikari en áður eftir klofning og útskipti á þingmönnum öðrum en formanninum. Flokkurinn á orðið litla innistöðu málefnalega, hefur aðeins einn þingmann á höfuðborgarsvæðinu og sá er eins og Kristinn H. Gunnarsson nýrekinn á fjörur frjálslyndra.

Myndun ríkisstjórnar eftir kosningarnar er í óvissu. Framsóknarforystan mun reyna að bíta í skjaldarrendur og þrauka, og eins víst er að Sjálfstæðisflokkurinn kjósi að binda  hana á bæði borð sem þægilegt flotholt fyrst um sinn. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur verk að vinna hvort sem flokkurinn verður innan eða utan ríkisstjórnar þetta kjörtímabil. Áhrifa flokksins í íslensku samfélagi mun gæta mun meira á næstunni en hingað til. Því veldur traust málefnastaða og vösk liðsveit.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim