Hjörleifur Guttormsson | 14. júlí 2007 |
Ákvörðunin um aflamark og eftirleikurinn Loksins fylgt ráðgjöf um þorskveiðar Sjávarútvegsráðherra sýndi af sér manndóm þegar hann ákvað að fylgja ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um aflamark í þorski á næsta fiskveiðiári. Með því sneri hann baki við því handahófi sem hann sjálfur og forverar hans til margra ára hafa gert sig seka um að því er þorskstofninn áhrærir. Af stjórnmálaflokkunum hafði aðeins þingflokkur Vinstri grænna hvatt ráðherrann til að stíga þetta skref en aðrir vildu ganga mun skemur eins og Framsóknarflokkurinn sem lagði til 150 þúsund tonna aflamark. Í baklandi sjávarútvegsráðherrans innan Sjálfstæðisflokksins var hver höndin upp á móti annarri en eflaust munaði ráðherrann mest um bakstuðning frá forsætisráðherra. Af hagsmunaaðilum var það aðeins Sjómannasambandið sem studdi að farið yrði að ráðgjöf en LÍÚ tók óábyrga og órökstudda afstöðu, að ekki sé talað um talsmenn smábátamanna sem virðast staddir á annarri plánetu. Þeirra tillaga var að auka þorskveiðar og hækka aflamarkið í 220 þúsund tonn. – Það fylgdi ákvörðun ráðherrans nú um 130 þúsund tonna hámarksafla að á þarnæsta fiskveiðiári, 2008–2009, yrði ekki farið neðar með þorskafla. Setja má spurningu við slíka ákvörðun löngu fyrirfram, þar eð með því er verið að binda sig fram í tímann, óháð endurnýjuðu mati á ástandi stofnsins að ári. Ákvörðunin um aðrar fisktegundir Lítið hefur farið fyrir umræðu um ákvörðun sjávarútvegsráðherra um afla úr öðrum tegundum á næsta fiskveiðiári. Blasir þó við að í þeim efnum hefur ráðherrann skautað létt yfir ráðgjöf Hafró varðandi langflestar aðrar tegundir en þorsk án þess að nokkur rök séu færð fyrir þeim ákvörðunum. Með ákvörðun sjávarútvegsráðherra nú eru heimilaðar veiðar umfram ráðgjöf á ýsu, ufsa, steinbít, skrápflúru, skarkola, sandkola, keilu, löngu, þykkvalúru, skötusel og sumargotssíld. Menn geta haft skilning á því að ráðherra sem er að taka umdeilda ákvörðun um þorskveiðar hafi tilhneigingu til að leyfa eitthvað umfram ráðgjöf í öðrum tegundum. En lágmarkskrafa er að hann færi fram rök fyrir slíku ekki síst þegar ákvarðanir hans ganga nær einhliða í aðra átt en Hafrannsóknastofnun hefur lagt til. Vel má vera að fræðileg þekking manna á mörgum þessum stofnum sé heldur veikburða en við þær aðstæður ber mönnum að halda sér varúðarmegin um nýtingu auk þess að beita sér fyrir öflugum rannsóknum. Þess utan þýðir ákvörðun ráðherrans að erfiðara verður en ella að ná settu aflamarki í þorski sökum meðafla sem fylgir veiðum á öðrum tegundum. Afleiðingar af rangri stjórnarstefnu Núverandi staða í sjávarútvegi er afleiðing af rangri stjórnarstefnu margra liðinna ára og vanrækslu á öflugum hafrannsóknum en þörf á þeim hefur lengi blasað við. Pólitískar ákvarðanir um veiði umfram ráðgjöf fyrr á tímum og ekki síst eftir 2001 valda því að tómt mál er að varpa ábyrgð á Hafrannsóknastofnun eða draga ályktanir af tillögum hennar til eða frá. Til þess hefði þurft að fylgja þeim í reynd allmörg ár í samfellu. Stofnunin hefur í skýrslum sínum undanfarin ár lagt til að lækka beri veiðihlutfall úr 25%, sem gilt hefur í rúman áratug, en ráðherrar hafa gengið þvert gegn þeim ráðum þar til nú. Er þó ekki þar með sagt að Hafró hafi búið yfir einhverjum töframeðulum eða þekking þar á bæ sé nándar nærri sem skyldi. Gagnrýna má Hafró fyrir að hafa ekki talað skýrar og notað sterkari aðvörunarorð þegar gengið hefur verið gegn ráðgjöf hennar og stofnunin hefði átt að hafa uppi varnaðarorð um líklegar afleiðingar þess að vanrækja svo mjög hafrannsóknir hérlendis á mörgum sviðum. Þá hefur fiskveiðistjórnunarkerfið með frjálsu framsali aflaheimilda haft gífurleg áhrif á veiðimynstur við landið og á stöðu einstakra sjávarbyggða auk þess að í skjóli þess hafa einstaklingum og fjármálastofnunum verið færðir ómældir fjármunir til að leika sér með. Síðast en ekki síst hefur stóriðjustefnan með sínum efnahagslegu afleiðingum, ofþenslu í hagkerfinu og hágengi krónunnar, dregið þróttinn úr sjávarútvegsfyrirtækjum og hamlað nýsköpun í þekkingariðnaði og á fleiri sviðum. Auðlindarannsóknir rangt staðsettar Undirritaður hefur lengi verið þeirrar skoðunar að óeðlilegt sé að fela atvinnuvegaráðuneytum yfirstjórn auðlindarannsókna, m. a. vegna skammtímasjónarmiða og þrýstings frá þeim sem nýta auðlindirnar. Hafrannsóknir og landrænar rannsóknir á jarðvegi og gróðurríki eiga heima undir umhverfisráðuneyti sem jafnframt fer með skipulagsmál. Alveg sérstaklega á þetta við þegar um er að ræða að ákveða nýtingarmörk eins og hámarksafla úr sjó og margháttaða landnýtingu. Fyrir um áratug flutti ég ásamt Kristni H. Gunnarssyni frumvarp til laga um að færa Hafrannsóknastofnun undir umhverfisráðuneytið. Undanfarið hafa Vinstri grænir gert slíkar tillögur að sínum og reynslan frá sjávarútveginum að undanförnu ætti að hvetja stjórnvöld til skjótra aðgerða í þessum efnum. Loft- og veðurfarsrannsóknir eru þegar að meginhluta komnar undir umhverfisráðuneytið, bæði Veðurstofu Íslands og Umhverfisstofnun. Hjá þeirri síðarnefndu er eftirlit með loftmengun og bókhald vegna losunar á gróðurhúsalofttegundum. Á sama hátt skýtur skökku við að svonefnd Rammaáætlun um verndun og nýtingu tengda vatnsafli og jarðvarma sé á forræði iðnaðarráðuneytis en ekki umhverfisráðuneytis eins og sjálfsagt þykir t.d. í Noregi. Stórefldar rannsóknir brýnasta verkefnið Samhliða því sem glímt er við skammtímaafleiðingar af niðurskurði þorskveiðiheimilda og hafin endurskoðun á fiskveiðistjórnun er brýnasta verkefnið að koma á trúverðugu eftirliti með fiskveiðum þannig að ljóst sé hver sjávarafli sé í reynd og margefla hafrannsóknir til lengri tíma litið. Að slíku verkefni þarf að ganga af framsýni og gæta þess að grunnrannsóknir verði ekki útundan. Liður í þessu er að örva ungt fólk til að leggja fyrir sig fræðilegt nám á fjölmörgum sviðum sem hér koma við sögu. Eðlilegt er að Hafrannsóknastofnun sé framsvegis sem hingað til miðstöð slíkra rannsókna en fagna ber frumkvæði og stuðningi frá háskólum og öðrum rannsóknastofnunum sem lagt geta sitt af mörkum. PS: Rétt er að geta þess að Félag vélstjóra og málmtæknimanna lýsti fyllsta stuðningi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. – HG Hjörleifur Guttormsson |