Hjörleifur Guttormsson 15. október 2007

Af tilefni Umhverfisþings 2007

Um áratugi hafa umhverfismál og náttúruvernd haft veika stöðu hérlendis.
Skort hefur á skilning, pólitískan bakstuðning og fræðslu. Afleiðingin er að skammtímahugsun ræður ferðinni á flestum sviðum. Frá 1990 hafa setið hér 8 ráðherrar umhverfismála, allir eflaust vel meinandi, en enginn þeirra hefur gerst sérstakur baráttumaður fyrir umhverfisvernd, hvað þá megnað að setja þann málaflokk í forgang. Eftir er að sjá hvernig núverandi umhverfisráðherra reynist.
Ef menn meina eitthvað með stuðningi við sjálfbæra þróun þarf það að endurspeglast á öllum sviðum landsmála, einnig á efnahagssviðinu og við ráðstöfun fjármagns, sveitarstjórnir ekki undanskildar. Umhverfis- og náttúruvernd þarf að verða miðlæg þegar ákvarðanir eru teknar. – Því miður fer því fjarri að svo hafi verið hingað til. Ég er ekki með þessu að segja að allt hafi farið úrskeiðis eða staðan sé vonlaus. Svo slæmt er það ekki. Hinsvegar er því miður engin innistæða fyrir þeirri glansmynd sem stundum er reynt að draga upp, bæði til heimabrúks og í kynningu erlendis.
Lítum á örfá dæmi:

  • Losun gróðurhúsalofts á mann hérlendis er meiri en að meðaltali í Evrópusambandinu. Með áframhaldandi álvæðingu siglum við óðfluga upp að Bandaríkjunumm. Þetta er smánarblettur á vel stæðri þjóð.
  • Mengun hér á höfuðborgarsvæðinu fer vaxandi og ítrekað yfir hættumörk. Fjölgun stóriðjufyrirtækja og jarðvarmavirkjana á þessu svæði og víðar á landinu er ógnun við loftgæði og heilbrigt umhverfi, að ekki sé talað um risaverksmiðjur í þröngum fjörðum.
  • Fjárveitingar til náttúruverndar hingað til eru víðsfjarri því að tryggja verndun eftirsóttra svæða og þeirra náttúrugæða og fegurðar landslagsins sem laðar að æ fleiri ferðamenn. Stóraukið fjármagn í þessu skyni er prófsteinn á það hvort menn meina eitthvað með áætlunum um náttúruvernd og þróun stórra svæða eins og Vatnajökulsþjóðgarðs.
  • Grunnrannsóknir á náttúru landsins, óháð einstökum framkvæmdaáformum, hafa verið vanræktar herfilega og mikið skortir á heildarsýn. Við þær aðstæður er erfitt að tryggja verndun líffræðilegrar fjölbreytni og lífrænna auðlinda. Á það einnig við um lífríki sjávar.
  • Þrátt fyrir viðleitni í heila öld hefur allsendis ófullnægjandi árangur náðst í gróður- og jarðvegsvernd. Á því sviði hefur verið gripið til ágengra tegunda sem ógna nú lífræðilegri fjölbreytni víða um land. Löggjöf um landgræðslu og skógrækt hefur staðið óbreytt í 40–50 ár.
  •  Lagaumhverfi tengt umhverfismálum er sundurvirkt og götótt, nánast hvar sem á það er litið og endurspeglar ekki þau markmið sem fram eru sett í lögum og alþjóðlegum skuldbindingum. Við það bætist slæleg varðstaða framkvæmdavaldsins, ráðuneyta og stofnana, þar sem jafnvel umhverfisráðuneytið leggst iðulega á sveif gegn náttúrunni  í úrskurðum sínum og lagatúlkunum.
  • Hörmulegust er sú kyrrstaða og öfugþróun sem varðar samskipti framkvæmda- og löggjafarvalds annarsvegar og frjálsra félagasamtaka hins vegar. Með lagafyrirmælum hefur hér verið þrengt að rétti almennings til athugasemda og íhlutunar um umhverfis- og skipulagsmál, þvert á alþjóðlega réttarþróun og lýðræðislegar leikreglur.

Það er ekki seinna vænna að stöðva þetta undanhald, - ofnýtingu og ósjálfbæra ágengni gagnvart náttúru landsins. Örsnautt fólk fyrri tíðar átti ekki val, en Íslendingar nútímans hafa enga afsökun fyrir að virða ekki umhverfi sitt og langtímahagsmuni óborinna kynslóða.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim