Hjörleifur Guttormsson 18. júní 2007

Auðlinda- og umhverfisvernd á þriðja farrými

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur verið tæpan mánuð við völd en á þeim stutta tíma hafa komið í ljós margháttaðar brotalamir sem spá ekki góðu um framhaldið. Ekki er allt fengið með djúgum þingmeirihluta og tilefni til árekstra verða mörg ef hópurinn að baki reynist ósamstæður. Svo mikið lá á að komast í ráðherrastóla að ekki var reynt að leggja sæmilega traustan grunn að samstarfi flokkanna með málefnasamningi. Ástæða fyrir fljótaskriftinni var eflaust einnig sú sundurþykkja sem ríkir innan Samfylkingarinnar þegar kemur að ýmsum stórmálum og nú kemur á daginn litið til sjávarútvegsmála að ástandið er ekki öllu beysnara innan Sjálfstæðisflokksins. Varðandi stærstu mál samtímans, auðlinda- og umhverfisvernd, hefur ríkisstjórnin ekki mótað sér neina trúverðuga stefnu. Lítum nánar á þrjá þætti.

Sjávarútvegur í uppnámi

Með ólíkindum var að heyra málflutning forystumanna Sjálfstæðisflokksins um sjávarútvegsmál á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Þar var bæði talað óskýrt og sitt í hvora áttina. Þetta er þeim mun athyglisverðara sem sjávarútvegsráðherra kemur úr  Sjálfstæðisflokknum og þarf innan skamms að taka ákvörðun um hversu mikið verði veitt af þorski á komandi fiskveiðiári. Um það viðfangsefni ræddu samflokksmenn hans og þingbræður hins vegar ekki í þjóðhátíðarræðum. Þess í stað flúðu þeir á önnur mið. „Áform okkar um að byggja upp fiskistofnana með kvótakerfinu sem stjórnkerfi fiskveiða virðast hafa mistekist. Sú staða kallar á allsherjar uppstokkun á fiskveiðistjórnunarkerfinu ef marka má niðurstöður Hafrannsóknastofnunarinnar” var kjarninn í máli Sturlu Böðvarssonar þingforseta. Ekki orð um hvort fara eigi að tillögum Hafró eða halda uppteknum hætti að veiða meira en vísindamenn hafa ráðlagt mörg undanfarin ár. Einar Oddur Kristjánsson talar ekki síður í véfréttastíl, allt hafi mistekist og alveg hafi verið sleppt „ ... þremur meginvíddum, þ.e.a.s. hvernig við veiðum, hvar við veiðum og hvenær við veiðum.” Þetta eru bág eftirmæli um stýringu Sjálfstæðisflokksins á sjávarútvegsmálum allt síðasta kjörtímabil og dygga varðstöðu um kvótakerfið og framsal veiðiheimilda frá upphafi. Samfylkingin hefur enn ekki gefið sig fram í þennan kór sem þá fyrst mun verða fjölradda.

Stóriðjustefnan aldrei sprækari

Ekki var blekið þornað undan stjórnarsáttmálanum þegar það rann upp fyrir landsmönnum að ekkert hlé stendur til að gera í stóriðjumálum. Ef nokkuð er sýnist nú verða hert á stóriðjustefnunni. Unnið er að stækkun á Grundartanga upp í 250 þúsund tonn og talað tæpitungulaust um að hefja framleiðslu í álbræðslu í Helguvík fyrir árslok 2010. Undirbúningur að álverksmiðju á Húsavík er í fullum gangi og Fagra Ísland Samfylkingarinnar komið í endurvinnslu á vegum iðnaðar- og umhverfisráðherra. Alcan veltir fyrir sér þessa dagana hvort fyrirtækið eigi að fara í nýtt landnám á Keilisnesi eða í Þorlákshöfn ellegar fara að ráðum Lúðvíks Geirssonar bæjarstjóra Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og krefjast endurtekningar á íbúakosningu um stækkað og endurbyggt álver í Straumsvík. Líklegast er að það síðastnefnda verði niðurstaðan áður en lýkur og kannski fyrr en nokkurn varir. – Til mótvægis við öll þessi umsvif hefur ríkisstjórnin m.a. gefið út að hún hyggist þyrma Hveravöllum sem friðlýstir voru fyrir hálfri öld við virkjun sem og Öskju sem hefur verið friðlýst síðan 1978. Nýr iðnaðar- og byggðamálaráðherra hefur það helst fyrir stafni að plægja akurinn fyrir stóriðjuna með því að telja mönnum trú um hvað aðrir hefðu verið reiðubúnir að ganga langt í hans sporum. Sjálfur hefur hann ekki uppi nein varnaðarorð.

Loftslagsmálin og hlutur Íslands

Í sáttmála SS-stjórnarinnar frá 24. maí sl. segir um loftslagsmál að stefnt sé að því að gera skýra áætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og Íslendingar eigi að taka forystu í alþjóðlegu starfi til að bregðast við loftslagsbreytingum. Íslenskir ráðherrar hafa síðan verið fáorðir um þessi stefnumál, en umhverfisráðherrann hefur þó sagt í nýlegu blaðaviðtali (Mbl. 10. júní 2007) um framhald Kyótóferlisins: „Ég vil ekki sækja undanþágur á þessum vettvangi. ... Það hefur setið á hakanum að ganga í það brýna verkefni að gera framkvæmdaáætlun um að minnka losunina, en við verðum eins og aðrir að axla ábyrgð.” Framundan eru fyrir lok ársins samningaviðræður á vegum Loftslagssamningsins um viðmiðunarmarkmið í alþjóðasamkomulagi sem taki við eftir 2012 og að ljúka samningum um það á árinu 2009. Það getur því ekki dregist lengi að umhverfisráðherra kynni þá skýru áætlun um samdrátt sem boðuð er í stjórnarsáttmálanum. Hvernig hún samrýmist stóriðjustefnu stjórnvalda og hugmyndum um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum skal ósagt látið á þessu stigi. Margir bíða þess að stjórnvöld sýni á spilin og standi við stóru orðin um forystuhlutverk á þessu sviði.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim