Alþingi og Vatnajökulsþjóðgarður
Hér fer á eftir hugleiðing af tilefni þess að Alþingi hefur nýverið samþykkt lög um Vatnajökulsþjóðgarð. Umhverfisnefnd þingsins sendi mér frumvarpið til umsagnar í síðasta mánuði og læt ég hana fylgja. Einnig eru aftar í þessu skjali upphafleg tillaga mín um þjóðgarða á miðhálendinu eins og hún var flutt öðru sinni haustið 1998 og útdráttur úr umsögnum um hana. Jafnframt fylgir nefndarálit umhverfisnefndar um málið og ályktun Alþingis um Vatnajökulsþjóðgarð frá 10. mars 1999. Síðan hafa unnið að málinu margar stjórnskipaðar nefndir og er upplýsingar um þær og álit margra þeirra að finna á vef umhverfisráðuneytisins.
Lög um Vatnajökulsþjóðgarð voru samþykkt samhljóða á Alþingi 17. mars sl. á síðasta starfsdegi þingsins. Þá voru liðin átta ár frá því að Alþingi samþykkti þingsályktun um þjóðgarðinn, þann langstærsta af fjórum þjóðgörðum á miðhálendinu sem undirritaður flutti tillögu um 1998. Þetta er langur meðgöngutími en niðurstaðan er farsæl og á að geta skilað okkur þjóðgarði sem rísi undir nafni. Hlutur svæðanna sem næst eru þjóðgarðinum er stór í stjórnsýslu hans og ábyrgð þeirra að sama skapi mikil á að vel takist til um náttúruverndina sem er undirstaða málsins og aflvaki.
Skaftafellsþjóðgarður og þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum verða innan þessa stóra þjóðgarðs sem mikilvægir hornsteinar. Af báðum þessum þjóðgörðum hafði ég kynni á mótunarstigi þeirra á áttunda áratugnum, bar raunar ábyrgð á málefnum Skaftafells fyrir Náttúruverndarráð á afdrifaríku skeiði.
Á níunda áratugnum tók ég að skoða Vatnajökul í víðara samhengi, ferðaðist mörg sumur umhverfis og upp á jökul í góðra félaga hópi. Þau kynni opnuðu augu mín enn frekar fyrir þeirri miklu fjölbreytni sem Vatnajökull ásamt umgjörð sinni býr yfir. Á Náttúruverndarþingi 1993 setti ég fram þá hugmynd að jökullinn allur ásamt skriðjöklum og ýmsum jaðarsvæðum yrði friðlýstur. Í hönd fór mikil umræða um skipulag og landnot á miðhálendinu, bæði á Alþingi og úti í samfélaginu þar sem margar góðar hugmyndir komu fram. Úr þessari deiglu spratt tillagan um fjóra stóra þjóðgarða: Vatnajökuls-, Hofsjökuls-, Langjökuls- og Mýrdalsjökulsþjóðgarð með stórri umgjörð um hvern þeirra. (Sjá uppdrátt) Umhverfisnefnd Alþingis sýndi málinu áhuga, en formaður hennar var þá Ólafur Örn Haraldsson. Studdi öll nefndin að Vatnajökulsþjóðgarður yrði settur í forgang og lagði fram ályktunartillögu þar að lútandi sem Alþingi samþykkti 10. mars 1999.
Fjölmargir hafa síðan komið að þessu máli, ríkisstjórn, þrír umhverfisráðherrar, alþingismenn, sveitarstjórnarmenn og náttúruverndarsamtök sem öll lögðust á eina sveif. Vatnajökulsþjóðgarður hefur þannig á þessu mótunarskeiði orðið áhugamál og sameign fjölmargra sem hver með sínum hætti hafa komið að málinu og lagt því lið. Einungis þannig geta góðar hugmyndir borið ávöxt og mér eru þakkir í hug til allra sem hlúð hafa að þeirri niðurstöðu sem nú er fengin.
Þótt Vatnajökulsþjóðgarður taki nú þegar til 13% af flatarmáli landsins benda margir réttilega á að enn þurfi við hann að auka stórum verðmætum landsvæðum. Ég er ekki í vafa um að þeim verður að ósk sinni fyrr en seinna. Langisjór og friðlandið á Lónsöræfum eru þar eðlilega einna fremst á lista, kyngimagnað fjallendi milli skriðjökla sunnan Vatnajökuls og stór svæði norðan hans sem ræða þarf um við rétthafa og aðra hagsmunaaðila á næstu árum. Aðalatriðið er að nú verður ekki aftur snúið og viðfangsefnið framundan er að nota þennan efnivið í stærsta þjóðgarð Evrópu þannig að til fyrirmyndar verði í þágu Íslendinga og umheimsins alls.
Hjörleifur Guttormsson
16. febrúar 2007
Umsögn HG til umhverfisnefndar Alþingis
um frumvarp til laga um Vatnajökulsþjóðgarð
mál 395 á 133. löggjafarþingi
Undirritaður hefur kynnt sér framkomið frumvarp um Vatnajökulsþjóðgarð og þakkar fyrir að fá það sent til umsagnar. Afstaða mín til frumvarpsins markast nokkuð af því ferli sem átt hefur sér stað frá því Alþingi samþykkti þingsályktun um Vatnajökulsþjóðgarð í mars 1999. Ég hef síðan leitast við að fylgjast með undirbúningi á vegum stjórnvalda að stofnun þjóðgarðsins með aðkomu margra stjórnskipaðra nefnda og fjölda annarra. Í því efni hefur verið lögð fram mikil og oft óeigingjörn vinna sem ástæða er til að þakka, óháð því hvort menn eru samþykkir öllum framkomnum hugmyndum og tillögum er snerta stofnun þjóðgarðsins.
Hér verður einkum staldrað við þætti er varða stöðu málsins og frumvarpið í heild.
- Undirritaður mælir með því að frumvarpið verði lögfest á yfirstandandi þingi með þeim breytingum sem samstaða getur tekist um í umhverfisnefnd.
- Það form sem frumvarpið gerir ráð fyrir um stjórn þjóðgarðsins er umdeilanlegt en um það virðist í aðalatriðum hafa tekist samstaða hlutaðeigandi sveitarfélaga og umhverfisráðuneytis. Æskilegt væri að þróa fyrr en seinna stjórnsýsluform sem átt geti ekki aðeins við um Vatnajökulsþjóðgarð heldur um þjóðgarða almennt og önnur friðlýst svæði. Samvinna við sveitarstjórnir og rétthafa að landi er sjálfsögð og nauðsynleg en brýnt er að samhæfing sé tryggð og að sett markmið með friðlýsingu séu örugglega virt.
- Verði sú stjórnunartilhögun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð sem frumvarpið gerir ráð fyrir lögfest í meginatriðum er eðlilegt að kveða skýrt að orði um valdsvið stjórnar þjóðgarðsins, þannig að umboð hennar sé ótvírætt til að framfylgja settum markmiðum um náttúruvernd og verndaráætlun.
- Skilgreina þyrfti betur en gert er í sjálfu frumvarpinu þau viðmið sem hafa beri í heiðri við mótun verndaráætlunar. Til bóta væri í þessu sambandi að taka inn í lagatextann vísun til leiðbeininga Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN) sem getið er í athugasemdum með frumvarpinu (töluliður 4).
- Við mótun verndaráætlunar er brýnt að stjórn og svæðisráð hafi aðgang að sem bestri þekkingu á sviði náttúrufræða og skipulags á friðlýstum svæðum, sérstaklega að því er tekur til væntanlegs Vatnajökulsþjóðgarðs. Í frumvarpinu er m.a. vísað til Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands í þessu sambandi. Eðlilegt væri að vísa einnig til hlutaðeigandi Náttúrustofa sem lögum samkvæmt er ætlað hlutverk á sviði náttúruverndar svo og annarra sem búa yfir þekkingu sem að gagni gæti komið við uppbyggingu og mótun þjóðgarðsins.
- Eftirlit, fræðsla og leiðsögn eru þýðingarmiklir þættir sem huga verður að frá byrjun, þar á meðal um þjálfun og aðrar kröfur til starfsmanna sem ráðnir verða til þjóðgarðsins. Nauðsynlegt er að hyggja að fyrirbyggjandi aðgerðum og samstarfi starfsmanna þjóðgarðsins við lögreglu og björgunaraðila umfram það sem kveðið er á um í 18. grein frumvarpsins.
- Fjármagn vegna stofnkostnaðar þjóðgarðsins sýnist verulega vanáætlað, m.a. vegna fræðslu, gerðar verndaráætlana og deiliskipulags svo og til gönguleiða og stígagerðar. Þá virðist ekkert fjármagn vera áætlað vegna undirbúnings að stækkun og útfærslu á mörkum þjóðgarðsins, m.a. í tengslum við samninga við landeigendur um friðlýsingar. Eigi að takast vel til um metnaðarfull áform um Vatnajökulsþjóðgarð má ekki skera við nögl fjáveitingar á mótunarstigi hans eins og því miður hefur gerst um þá þjóðgarða sem fyrir eru.
Undirritaður treystir umhverfisnefnd til að bæta úr formgöllum sem vera kunna á ákvæðum frumvarpsins, m.a. um kærurétt og kæruleiðir, og gerir ekki tillögur um breytingu á orðalagi einstakra greina.
Í von um að ofangreindar ábendingar megi verða að gagni við vinnu nefndarinnar og að takast megi að lögfesta frumvarp um Vatnajökulsþjóðgarð fyrir þinglok.
Með vinsemd og virðingu
Hjörleifur Guttormsson
Fylgiskjal: Uppdráttur sem fylgdi tillögu minni um stofnun þjóðgarða á miðhálendinu 1998 (16. mál á 123. löggjafarþingi, þskj. 16).
123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 16 — 16. mál.
Tillaga til þingsályktunar haustið 1998
um þjóðgarða á miðhálendinu.
Flm.: Hjörleifur Guttormsson.
Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta undirbúa, í samvinnu við skipulagsyfirvöld og hugsanlega rétthafa, stofnun fjögurra þjóðgarða á miðhálendi Íslands er hafi innan sinna marka helstu jökla og aðliggjandi landsvæði. Ráðherra kynni Alþingi stöðu málsins á vorþingi 1999 og stefnt verði að formlegri stofnun þjóðgarðanna árið 2000.
Greinargerð
Þjóðgarðar á miðhálendinu.
Oft hefur þeirri hugmynd verið hreyft á síðari árum að vernda beri náttúru miðhálendis Íslands með því að lýsa svæðið þjóðgarð í heild sinni eða að stórum hluta. Tillögur hafa þó ekki komið fram um það efni á Alþingi eða frá yfirstjórn náttúruverndarmála. Ýmislegt sem tengist hugmyndinni hefur þótt óljóst, þar á meðal mörk miðhálendisins og eignar- og stjórnsýsluréttur á einstökum hlutum þess. Þessi óvissuatriði eru nú smám saman að skýrast fyrir atbeina Alþingis og annarra stjórnvalda, að sveitarfélögum meðtöldum. Samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendis Íslands skilaði í maí 1997 tillögu að svæðisskipulagi fram til ársins 2015, ný skipulags- og byggingarlög voru samþykkt vorið 1997, lög nr. 73/1997, og síðastliðið vor voru samþykkt á Alþingi lög um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998 og ný sveitarstjórnarlög, nr. 45/1998, þar sem lögfest eru stjórnsýslumörk sveitarfélaga inn til landsins.
Í ljósi þessa þykir nú tímabært að leggja fram þá tillögu til þingsályktunar sem hér er flutt um stofnun fjögurra þjóðgarða á miðhálendinu. Þjóðgarðarnir verði burðarásinn í náttúruverndarsvæðum á hálendinu. Helstu jöklar miðhálendisins, Vatnajökull, Hofsjökull, Langjökull og Mýrdalsjökull, og minni jöklar eins og Tungnafellsjökull, Eiríksjökull og Eyjafjallajökull, myndi eins konar kjarna þjóðgarðanna sem ríkislendur (almenningar). Jöklunum tengist síðan náttúruverndarsvæði og önnur verndarsvæði sem sumpart eru þegar friðlýst á grundvelli laga og hugmyndir liggja fyrir um í tillögu að svæðisskipulagi.
Eins og í tillögu samvinnunefndar að svæðisskipulagi miðhálendisins er hér gert ráð fyrir mannvirkjabeltum og samgönguleiðum um Sprengisand og Kjöl sem greindu að þjóðgarðssvæðin og skil væru um Fjallabaksveg nyrðri milli Mýrdals- og Vatnajökulsþjóðgarðs. Þrátt fyrir þetta yrðu til víðlendir þjóðgarðar á miðhálendinu og þeim gætu tengst núverandi friðlönd að náttúruverndarlögum og framtíðarverndarsvæði sem lögð yrðu til þeirra.
Brýnt er að fólk á þeim svæðum sem liggja að miðhálendinu líti á stofnun þjóðgarðanna sem jákvæða aðgerð og komi að undirbúningi hennar og eigi hlut í stjórnun svæðanna. Því ber að leggja áherslu á nána samvinnu stjórnvalda við heimaaðila, hlutaðeigandi skipulagsyfirvöld og hugsanlega rétthafa við undirbúning málsins. Umhverfisráðherra felur að líkindum Náttúruvernd ríkisins að sjá um undirbúning fyrir hönd ráðuneytisins og stofnunin færi með umsjá þjóðgarðanna í samvinnu við ýmsa hlutaðeigandi svo sem lög heimila. Þannig mætti tryggja samfellu og samvinnu um stjórnun og eftirlit með náttúruverndarsvæðum miðhálendisins.
Stórbrotin og einstæð náttúra.
Miðhálendi Íslands á hvergi sinn líka. Þar er Vatnajökull, stærsti jökull Evrópu, og þrír aðrir stórir hveljöklar auk nokkurra minni. Þessum jöklum tengist eldvirkni og jarðhiti á yfirborði. Mið-Atlantshafshryggurinn liggur frá suðvestri norður yfir hálendið. Hryggnum tengjast tvö gosbelti og er jarðfræðilegt eðli hans allt annað en meginlanda. Ísland er langstærsta eyjan sem upp af honum rís. Jarðskorpan er samsett af flekum sem myndast á úthafshryggjunum. Tveir slíkir flekar, Norður-Ameríkufleki og Evrasíufleki, koma saman við gosbeltin hér á landi og rekur hvorn frá öðrum um 2 cm á ári. Hvergi er landrek eða gliðnun jafnvel sýnileg og aðgengileg og hérlendis. Svipað á við um jökulmyndanir á hálendinu, við jaðra núverandi jökla og í jökulskerjum. Samspil jarðelds og íss er stórbrotið og uppspretta gífurlegra náttúruhamfara sem skollið geta á þá minnst varir. Þessar fágætu aðstæður auka mjög á aðdráttarafl landsins og miðhálendisins sérstaklega. Við þetta bætast auðnir og ósnortin víðerni sem flest er að finna í grennd jöklanna.
Þessa gersemi ber Íslendingum að varðveita og vernda sjálfra sín vegna og í alþjóðaþágu. Það verður best gert með hyggilegu verndarskipulagi. Nú er í fyrsta sinn unnið að svæðisskipulagi miðhálendisins og því kjörið tækifæri að móta slíka verndarstefnu. Fyrirliggjandi þingsályktunartillaga tekur í meginatriðum mið af þeim áherslum er fram komu í maí 1997 í tillögu samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendis Íslands til ársins 2015. Til viðbótar þeirri stefnu sem þar er mörkuð er með þingsályktunartillögu þessari bent á æskilegar leiðir til að tryggja verndun stórs hluta miðhálendisins um langa framtíð með því að stofna þar til þjóðgarða og tengja við þá önnur náttúruverndarsvæði.
Þjóðgarðar og löggjöf um náttúruvernd.
Tillaga þessi gerir ráð fyrir að stofnaðir verði fjórir stórir þjóðgarðar á miðhálendinu og verði jöklar og aðliggjandi landsvæði kjarninn í hverjum þeirra. Samkvæmt alþjóðlegri hefð sem á uppruna sinn í Bandaríkjum Norður-Ameríku og mótast hefur frá því á 19. öld er litið á þjóðgarða sem víðlend og verðmæt náttúruverndarsvæði á landi í ríkiseign. Kröfur til verndunar eru almennt miklar í þjóðgörðum, en jafnframt er gert ráð fyrir að fólki sé leyft að njóta náttúru þeirra „að svo miklu leyti og á þann hátt sem skili þeim óspilltum og til yndisauka fyrir ókomnar kynslóðir“ svo vitnað sé til bandarísku þjóðgarðalaganna.
Í lögum um náttúruvernd, nr. 93/1996, segir um stofnun þjóðgarða í 29. gr.:
„Umhverfisráðherra getur, að fengnum tillögum eða áliti Náttúruverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruverndarráðs, lýst landsvæði þjóðgarð, enda sé það sérstætt um landslag, gróðurfar eða dýralíf eða á því hvílir söguleg helgi þannig að ástæða sé til að varðveita það með náttúrufari sínu og leyfa almenningi aðgang að því eftir tilteknum reglum.
Landsvæði þjóðgarða skulu vera í ríkiseign, nema sérstakar ástæður mæli með öðru og um það náist samkomulag milli umhverfisráðherra og landeigenda.
Ráðherra er heimilt að stofna ráðgjafarnefnd með þátttöku hlutaðeigandi sveitarstjórna til að fjalla um rekstur og skipulag þjóðgarða.
Umhverfisráðherra setur, að fenginni tillögu Náttúruverndar ríkisins, reglugerð um meðferð og rekstur þjóðgarða og umgengni almennings.“
Nánar er kveðið á um framkvæmd friðlýsingar í 33. gr. náttúruverndarlaga og um umsjón og rekstur friðlýstra svæða í 6. og 7. gr. sömu laga.
Samkvæmt þessu er hérlendis gengið út frá því sem aðalreglu að land þjóðgarða sé í ríkiseign, en jafnframt megi með samkomulagi leggja til þjóðgarða land þótt í einkaeign sé. Þá fer og vel á því að önnur verndarsvæði, til dæmis friðlönd skv. 28. gr. laga um náttúruvernd, liggi að þjóðgörðum og myndi með þeim stjórnunarlega heild samkvæmt skipulagi. Á slíkt fyrirkomulag getur einmitt reynt í mörgum tilvikum í tengslum við þá þjóðgarða sem hér er gerð tillaga um.
Almennt hefur verið litið svo á að jöklar falli undir hugtakið almenningur að fornum lögum, og raunar með ótvíræðari hætti en önnur landsvæði. Í greinargerð með frumvarpi til laga um þjóðlendur, sem afgreitt var sem lög á 122. þingi, segir m.a. að „jöklar sem ekki teljast innan eignarlanda, falli undir flokk þjóðlendna“. Þannig lítur flutningsmaður svo á að hinir stóru jöklar miðhálendisins fullnægi ótvírætt lagakröfunni um ríkiseign þegar um stofnun þjóðgarðs er að ræða og svo er að líkindum einnig um mörg stór óbyggðasvæði hið næsta þeim. Í ýmsum tilvikum er hins vegar nauðsynlegt að samkomulag sé gert við viðkomandi sveitarfélög og/eða landeigendur þá ákvörðuð eru mörk verndarsvæða í grennd jöklanna, einkum þar sem þeir liggja nærri byggð.
Verndarskipulag þarf að ná til jöklanna.
Mörg og sterk rök má færa fyrir því að setja beri jökla landsins undir verndarskipulag. Jöklarnir eru í hugum margra tákn hins ósnortna og yfir þeim hvílir dulúð og upphafning. Þeir eru snar þáttur í náttúrufari landsins og bakhjarlinn í vatnakerfum þess, bæði jökulfljóta, lindáa og grunnvatns á stórum svæðum. Vatnsvernd og verndun á hreinleika jöklanna eru því samofnar og hafa í senn heilbrigðislegt og hagrænt gildi.
Jöklar eru sífelldum breytingum háðir vegna sveiflna í veðurfari og loftslagi. Mest gætir þessara breytinga við jökuljaðrana, einkum í grennd skriðjökla. Þar er að finna minjar um framgang og hop jökla, sumpart frá löngu liðnum tíma. Jöklar hafa verið mikilvirkasti þátturinn í landmótun á Íslandi frá því ísöld gekk í garð og í grennd þeirra er víða stórfellt rof og hrikalegt landslag. Í jöklunum er að finna heimildir um loftslagssögu liðinna alda og gjóskulög sem vitna um eldgos langt aftur í aldir. Íslenskir jöklar eru þannig viðfangsefni margháttaðra vísindarannsókna og auka skilning manna í suðlægari löndum á ísaldarskeiðum jarðsögunnar.
Jöklar draga að sér ferðamenn í síauknum mæli og eru að verða mikilvægur þáttur í ferðaþjónustu sem atvinnugrein hér á landi. Jafnhliða því sem nýta ber þá fjölmörgu kosti sem tengjast ferðum á jöklum og í grennd þeirra er brýnt að setja um þær reglur sem tryggja náttúruvernd og varðveislu á hreinleika og eftirsóttum eigindum ferða um jökla og nálæg víðerni. Jafnframt þarf að skýra réttarstöðu þeirra sem standa fyrir ferðum á jöklum og stuðla að öryggi ferðamanna. Allt þetta og fleira ótalið kallar á náttúruvernd og skipulag umferðar á jöklum miðhálendisins. Með því að gera þá að kjarna í þjóðgörðum er lögð áhersla á þýðingu þeirra og nærliggjandi svæða í náttúruvernd og ferðaþjónustu og leitast við að tryggja að Íslendingar og aðrir fái notið þeirra óspilltra til yndisauka um langa framtíð.
Þjóðgarðarnir fjórir — stærð og ábendingar um afmörkun.
Til glöggvunar verða þjóðgarðarnir fjórir, sem hér eru gerðar tillögur um, kenndir við stærstu jöklana innan hvers þeirra, þ.e. Vatnajökul, Hofsjökul, Langjökul og Mýrdalsjökul. Eðlilegt er að stjórnun þeirra og eftirlit með þeim verði samhæfð af hálfu ríkisins í samstarfi við aðra hlutaðeigandi. Samtals er það landsvæði sem þeir tækju yfir, um 22 þúsund ferkílómetrar. Hér fer á eftir yfirlit um hugsanlega afmörkun hvers þeirra og tengsl við aðliggjandi verndarsvæði (sjá einnig uppdrátt á fylgiskjali).
Vatnajökulsþjóðgarður.
Flatarmál hans gæti orðið um 15 þúsund ferkílómetrar, en hluti þess er þegar þjóðgarður (Skaftafell), eða friðlýst samkvæmt öðrum reglum (Lónsöræfi, Kringilsárrani, Eldborgaraðir [Lakagígir], Esjufjöll). Þá eru stór svæði innan marka að auki á opinberri náttúruminjaskrá, það eru svæði númer 635, 633, 654, 631, 627, 616, 615, 614, 613, 517 og 516/702, sbr. sjöundu útgáfu náttúruminjaskrár Náttúruverndarráðs 1996. Innan þjóðgarðsins yrði Vatnajökull með skriðjöklum og landsvæði og markalínur utan jökuls í aðalatriðum eins og lýst er hér á eftir, sbr. uppdrátt.
Sunnan jökuls eru þjóðgarðurinn í Skaftafelli og Núpsstaður sem afar æskilegt er að verði hluti þjóðgarðs en jörðin er nú á náttúruminjaskrá (701). Að öðru leyti yrði í aðalatriðum fylgt hálendislínunni til austurs eins og hún er dregin á tillögu samvinnunefndar um svæðisskipulag til 2015. Þannig yrðu innan þjóðgarðsmarka m.a. Breiðamerkurfjall, Suðursveitarfjöll, Heinabergsfjöll og fjalllendi við Viðborðsdal, Hoffellsjökul og Lambatungnajökul.
Austan og norðaustan Vatnajökuls kæmu innan marka Hoffellslambatungur, friðland á Lónsöræfum með hugmynd að stækkun, Geldingafell og innanvert Múlahraun, svo og Eyjabakkar, sbr. tillögu um svæðisskipulag til ársins 2015.
Norðan Vatnajökuls yrðu innan marka Snæfellssvæði og Vesturöræfi, Kringilsárrani og Kverkárnes, friðland í Hvannalindum, Fagradalsfjall, Grágæsadalur og Fagridalur, Kverkfjöll og Kverkfjallarani. Vestan Jökulsár á Fjöllum er gert ráð fyrir markalínu um Vaðöldu, milli Dyngjufjalla og Trölladyngju um Þríhyrning vestur í Fjórðungsöldu.
Vestan og suðvestan Vatnajökuls yrði markalína frá Fjórðungsöldu vestan Tungnafellsjökuls, um Krosshnjúka (1.258 m), Skerðing (1.137 m), Vatnsleysuöldur (867 m), Helgrindur (831 m), Þóristind (822 m) og í Tungná við Vesturbjalla (706 m). Þaðan upp með Tungná að Austurbjöllum (805 m). Frá Austurbjöllum skammt norðan við Fjallabaksveg nyrðri og mörk Friðlands að Fjallabaki austur fyrir Eldgjá. Frá Eldgjá (Hólaskjóli) lína austur í Skaftá. Áfram austur sunnan Eldborgaraða (Lakagíga) og Galta að Hverfisfljóti. Sunnan Síðujökuls sunnan við fremstu menjar um framhlaup á nútíma, um Langasker (624 m), Rauðhóla (768 m) og í hnjúk (816) m við Gæsabringur.
Hofsjökulsþjóðgarður.
Stærð hans er áætluð 2.230 ferkílómetrar. Innan þjóðgarðs kæmi allur Hofsjökull með skriðjöklum. Friðland í Þjórsárverum yrði hluti af þjóðgarðinum, sem og Kerlingafjöll sem nú eru á náttúruminjaskrá (732).
Að öðru leyti fylgdu þjóðgarðsmörkin í aðalatriðum markalínu sem hugsast dregin sem hér segir. Sunnan jökuls við mörk dökkgræns svæðis á skipulagsuppdrætti 2015 (tillaga að svæðisskipulagi) þannig að innan þjóðgarðs yrðu Kerlingarfjöll og Þjórsárver. Austan jökuls lína við austurmörk ljósgræns svæðis á skipulagsuppdrætti 2015 að Laugafelli (879 m). Norðan jökuls lína frá Laugafelli í Sátu (941 m) og þaðan í Bláfell (826 m) norðvestan Hofsjökuls. Vestan Hofsjökuls lína frá Bláfelli (826 m) um Hrygg (685 m), Fjórðungsöldu (653 m) og í Hnappöldu (764 m).
Langjökulsþjóðgarður.
Stærð Langjökulsþjóðgarðs er áætluð um 2.500 ferkílómetrar. Innan marka hans væru Langjökull, Þórisjökull og Eiríksjökull með skriðjöklum. Friðland í Geitlandi ætti að tengjast þjóðgarðinum, sem og núverandi náttúruvætti á Hveravöllum. Svæði, sem nú eru á náttúruminjaskrá eins og Hvítárnes (734), Þjófadalir og Jökulkrókur (733), féllu innan þjóðgarðsins. Aðliggjandi til norðvesturs en utan þjóðgarðsins yrðu Arnarvatnsheiði og Tvídægra (209/401) sem sérstök náttúruverndarsvæði, sem og Húsafell (206) til vesturs. Til suðvesturs tæki við þjóðgarðurinn á Þingvöllum og þá miðað við að hann verði stækkaður norðaustur fyrir Skjaldbreið.
Að öðru leyti eru mörk Langjökulsþjóðgarðs hugsuð sem hér segir: Að sunnan markalína skammt norðan línuvegar milli Skjaldbreiðs/Hlöðufells og Langjökuls. Að austan lína frá Móskarðsfjalli (593 m) norðan Sandvatns austur að vegi um um Bláfellsháls (Kjalvegi). Með Kjalvegi að Hvítárbrú og áfram norður á móts við Sandkúlufell.
Mörk að norðan væru frá Sandkúlufelli (847 m) lína um Lyklafell (977 m), Guðnahæð (625 m), norðvesturenda Eiríksgnípu suðvestur í Strút (937 m). Mörk að vestan væru lína úr Strút (937 m) suður að Kaldadalsvegi, vestan Geitlands og með Kaldadalsvegi suður undir raflínuslóð nálægt vegamótum við Uxahryggjaveg.
Mýrdalsjökulsþjóðgarður.
Stærð Mýrdalsjökulsþjóðgarðs er áætluð um 3.100 ferkílómetrar. Innan hans lægju Mýrdalsjökull með skriðjöklum, svo og Eyjafjallajökull, Torfajökull og Tindfjallajökull. Eðlilegt væri að Friðland að Fjallabaki yrði innan þjóðgarðsins. Þá er gert ráð fyrir að náttúruverndarsvæði við Heklu (730), svo og Emstrur og Fjallabak (761), yrðu hluti af þjóðgarðinum, sem og Þórsmörk (714) og Eldgjá (706) sunnan Fjallabaksvegar nyrðri.
Að öðru leyti yrðu þjóðgarðsmörkin í aðalatriðum dregin sem hér segir: Að sunnan um undirhlíðar Mýrdalsjökuls og Eyjafjallajökuls, að gerðu samkomulagi við rétthafa. Að austan væru mörk á vestanverðum Mýrdalssandi, t.d. austan Hafurseyjar í Einhyrning (694 m). Frá Einhyrningi norðnorðaustur að Hólaskjóli (sjá uppdrátt af svæðisskipulagi 2015). Mörk að norðan væru í vestur frá Hólaskjóli sunnan Fjallabaksvegar nyrðri að Tungná á móts við Austurbjalla. Þaðan með mörkum Friðlands að Fjallabaki í Stóra-Mælifell. Frá Stóra-Mælifelli í Valafell (649 m) og áfram í Þjórsá við Árskóga. Mörk að vestan fylgi fyrst Þjórsá suður frá Árskógum og eftir markalínu um dökkgrænt svæði á skipulagstillögu 2015 vestan Heklu, Selsundsfjalls og Tindfjallajökuls að Fljótsdal inn af Fljótshlíð; þaðan suður í mörk vestan Eyjafjallajökuls.
Umsagnir um þingsályktunartillöguna á 122. löggjafarþingi 1998–1999
Tillaga þessi var fyrst flutt á 122. löggjafarþingi. Umhverfisnefnd Alþingis fjallaði þá um tillöguna og sendi hana til umsagnar marga aðila. Bárust nefndinni ekki færri en 32 umsagnir, sumar þeirra allítarlegar. Margir umsagnaraðila lýstu fylgi við meginefni tillögunnar, þeirra á meðal Skipulagsstofnun, Náttúruvernd ríkisins, Náttúrufræðistofnun, Ferðafélag Íslands, Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST) og Alþýðusamband Íslands. Örfáir aðilar mæltu gegn samþykkt tilögunnar, en nokkrir töldu að skoða þyrfti málið betur.
Í umsögn skipulagsstjóra segir m.a.: „Skipulagsstofnun fagnar þingsályktunartillögunni og telur hana vera í samræmi við tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins sem nú liggur fyrir og rökrétt framhald hennar.“
Í umsögn Ferðafélags Íslands segir m.a.: „Miðað við að starf Ferðafélagsins og deilda þess verði virt og að hagsmunir almennings verði tryggðir með skýrum og réttlátum reglum hvað varðar umferðarrétt og not af þessum svæðum þá styður Ferðafélag Íslands framkomna þingsályktunartillögu.“
Umsögn Alþýðusambands Íslands er svohljóðandi: „ASÍ tekur undir þær hugmyndir sem fram koma í tillögunni og leggur áherslu á að þingsályktunartillagan verði samþykkt enda brýnt að mati sambandsins að nú þegar verði brugðið við og tryggt að framtíðarnýting hálendisins verði ákveðin með skipulegum hætti og að sjónarmiða náttúruverndar verði í ríkum mæli gætt við þær ákvarðanir.“
Félagsmálaráðuneytið gerir ekki athugasemdir við efni tillögunnar, vísaði til væntanlegra sveitarstjórnarlaga og „telur ráðuneytið að þingsályktunartillagan samræmist fyllilega því frumvarpi.“
Stjórn Hins íslenska náttúrufræðifélags og umhverfisnefnd Félags íslenskra náttúrufræðinga taka einnig jákvætt undir efni tillögunnar og gefa ábendingar um hvernig best verði náð markmiðinu um verndun þeirra svæða sem tillagan tekur til. Umhverfisnefnd FÍN segir m.a. í umsögn sinni: „Nefndin bendir á að mikilvægt er að öll vinna á þessu sviði fari fram í nánu samráði við heimamenn á hverjum stað, sem og við þær stéttir eða atvinnugreinar sem nú þegar hafa hagsmuna að gæta, og er þar fyrst og fremst átt við sívaxandi ferðaþjónustu. Mjög mikilvægt er að allir aðilar skynji þjóðgarða sem jákvæðar stofnanir er verndi hagsmuni heildarinnar.“
Bæði Skógrækt ríkisins og Landgræðsla ríkisins telja ekkert mæla gegn könnun á stofnun þjóðgarða á miðhálendinu og að vernda þurfi sérstæða náttúru þess. Einnig tekur stjórn Landverndar undir það sjónarmið að vernda eigi sérstaklega jökla landsins og næsta nágrenni þeirra. Búnaðarþing 1998 „tekur undir þau náttúruverndarsjónarmið sem í tillögunni felast en telur að öðru leyti ekki tímabært að fjalla um tillöguna.“
Umhverfisnefnd Ferðaklúbbsins 4x4 tekur undir þau verndunarsjónarmið sem fram koma í tillögunni og leggur jafnfram áherslu á að aðgengi almennings að svæðunum sé á engan hátt heft.
Félag leiðsögumanna fagnar frumkvæði sem í tillögunni felst en „telur að með stofnun margra tiltölulega lítilla þjóðgarða tapist hluti af ímynd landsins sem heil náttúruperla með óaðgengilegum víðáttum þar sem allir vegir liggja utan þeirra svæða sem hér um ræðir. Hér er ekki gengið nógu langt í að koma samfelldu hálendi landsins undir eina stjórn.“
Skotveiðifélag Íslands „treystir sér að svo komnu máli ekki til að veita umsögn um þingsályktunartillögur þar sem ekki kemur fram hvort skotveiðar verði leyfðar eða bannaðar í þessum víðáttumikla þjóðgarði.“
Arkitektafélag Íslands og laganefnd Lögmannafélags Íslands höfðu ekki athugasemdir fram að færa við efni þingsályktunartillögunnar.
Nokkrir umsagnaraðilar töldu að sjá þyrfti betur fyrir um afgreiðslu á svæðisskipulagi miðhálendisins, frumvarpi um þjóðlendur og tillögur um stjórnsýslumörk sveitarfélaga áður en afstaða verði tekin til tillögu um þjóðgarða á miðhálendinu. Í þeim hópi voru nokkrar héraðsnefndir sveitarfélaga.
Héraðsnefnd Þingeyinga er einn af fáum aðilum sem leggst gegn samþykkt tillögunnar og framkvæmdaráð SSA „treystir sér ekki til að mæla með samþykkt tillögunnar“ og vísar til hugmynda um virkjun fallavatna á Norð-Austurlandi og stóriðju á Austurlandi.
Stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu tekur jákvætt undir hugmyndina um þjóðgarða á miðhálendinu „en telur að betur þurfi að skoða þessa tillögu með hliðsjón af ferðamennsku og virkjunarmöguleikum og fleiri þáttum.“
Orkustofnun skilaði ítarlegri umsögn um tillöguna og segir í niðurstöðum: „Í þessari umsögn hefur Orkustofnun fyrst og fremst lagt áherslu á að þingsályktunartillagan kann að útiloka mikilvæga orkuvinnsluhagsmuni. Ef hið háa Alþingi telur rétt að mynda þjóðgarða á hálendinu í líkingu við það sem kveður á um í umræddri þingsályktunartillögu, þá leggur Orkustofnun áherslu á, að við afmörkun þeirra verði tekið tillit til ábendinga um hagsmuni orkuvinnslu.
Megintillaga Orkustofnunar er sú að Alþingi fresti því að taka meiri háttar stefnumarkandi ákvarðanir um nýtingu miðhálendisins þar til átaki því sem vitnað er til hér að ofan og lýst er í skýrslunni Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi, framkvæmdaáætlun til aldamóta er lokið.“
Lokaorð
Með tilkomu þeirra þjóðgarða sem hér er gerð tillaga um kæmust Íslendingar í fremstu röð þjóða að því er varðar náttúruvernd. Sú verndarstefna sem margir hafa lýst eftir varðandi miðhálendið fengi á sig skýra og fastmótaða mynd. Jöklum miðhálendisins væri lyft á þann stall sem þeir verðskulda og aðdráttarafl og gildi óbyggðanna yrði meira en áður í hugum manna. Fyrir þjóð sem ætlar sér stóran hlut í ferðaþjónustu er mikið í húfi að vernda náttúru landsins, ekki síst jarðsögulegar minjar og víðerni og jökla hálendisins.
123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1100 — 16. mál.
Nefndarálit
um till. til þál. um þjóðgarða á miðhálendinu.
Frá umhverfisnefnd.
Nefndin hefur fjallað um málið á fundum sínum. Nefndinni bárust umsagnir frá Arkitektafélagi Íslands, Bændasamtökum Íslands, Ferðafélagi Íslands, Ferðaklúbbnum 4x4, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Félagi leiðsögumanna, félagsmálaráðuneyti, héraðsnefnd Árnesinga, hérðsnefnd Eyjafjarðar, héraðsnefnd Rangárvallasýslu, héraðsnefnd Vestur-Húnavatnssýslu, héraðsnefnd Þingeyjarsýslu, Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, landbúnaðarráðuneyti, Landgræðslu ríkisins, Landvernd, Lögmannafélagi Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúruvernd ríkisins, Náttúruverndarráði, Náttúruverndarsamtökum Austurlands, Neytendasamtökunum, Orkustofnun, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Skipulagsstofnun, Skotveiðifélagi Íslands, Skógrækt ríkisins, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Veðurstofu Íslands og Alþýðusambandi Íslands. Voru umsagnirnar flestar jákvæðar um efni tillögunnar sem gerir ráð fyrir stofnun fjögurra stórra þjóðgarða á miðhálendinu með helstu jökla og aðliggjandi landsvæði innan sinna marka. Nefndin taldi þó rétt að takmarka ályktunina við að fela umhverfisráðherra að láta kanna möguleika á stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs sem tæki til alls jökulsins með það í huga að unnt verði að stofna þjóðgarðinn á aldamótaárinu. Með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs fengist reynsla sem síðar gæti nýst við hugsanlegan undirbúning fleiri slíkra þjóðgarða á miðhálendinu. Vakin er athygli á að tillagan fellur vel að fyrirliggjandi skipulagstillögu um miðhálendið. Að Vatnajökli liggja ýmis svæði sem þegar njóta verndar að náttúruverndarlögum, svo sem friðland á Lónsöræfum, Kringilsárrani og Eldborgaraðir (Lakagígir). Þá nær þjóðgarðurinn í Skaftafelli nú þegar inn á Vatnajökul. Með friðlýsingu alls jökulsins tengjast þessi svæði saman í eina verndarheild.
Rétt er að taka fram að með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs væri ekki verið að hindra ferð fólks um jökulinn heldur að skapa forsendur fyrir vernd hans og nýtingu sem útivistar- og rannsóknarsvæðis til frambúðar. Jöklar landsins eru snar þáttur í náttúrufari þess og bakhjarl vatnakerfa. Vatnsvernd og verndun hreinleika jöklanna eru samofnir þættir og hafa í senn heilbrigðislegt og hagrænt gildi. Þá hefur Vatnajökull með sínum mörgu og fjölbreytilegu eldstöðvum alþjóðlegt gildi fyrir rannsóknir.
Í undirbúningi er á vegum Sameinuðu þjóðanna sérstakt „Ár fjalla 2002“. Fram hafa komið hugmyndir hjá þeim sem vinna að undirbúningi þess árs að kjörið væri að tilnefna Vatnajökulsþjóðgarð sem sérstakt framlag af Íslands hálfu í tengslum við það.
Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi
B R E Y T I N G U:
Tillögugreinin orðist svo:
Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta kanna, í samvinnu við skipulagsyfirvöld og hugsanlega rétthafa, möguleika á að stofna Vatnajökulsþjóðgarð.
Umhverfisráðherra kynni Alþingi stöðu málsins á vorþingi árið 2000 með það í huga að unnt verði að stofna Vatnajökulsþjóðgarð á aldamótaárinu.
Alþingi, 9. mars 1999.
Ólafur Örn Haraldsson,
form., frsm.
Margrét Frímannsdóttir.
Hjörleifur Guttormsson.
Árni M. Mathiesen.
Ísólfur Gylfi Pálmason.
Magnús Árni Magnússon.
Kristján Pálsson.
Þingsályktun
um Vatnajökulsþjóðgarð.
Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta kanna, í samvinnu við skipulagsyfirvöld og hugsanlega rétthafa, möguleika á að stofna Vatnajökulsþjóðgarð.
Umhverfisráðherra kynni Alþingi stöðu málsins á vorþingi árið 2000 með það í huga að unnt verði að stofna Vatnajökulsþjóðgarð á aldamótaárinu.
_______________
Samþykkt á Alþingi 10. mars 1999.
Hjörleifur Guttormsson |