Hjörleifur Guttormsson 21. desember 2007

Mannkyn í eigin úlfakreppu

Bali-ráðstefnunni lauk síðastliðinn föstudag með sameiginlegri yfirlýsingu um að takast á við röskun loftslags af mannavöldum. Ekki tókst að ná samkomulagi um neins konar tölusett markmið þannig að ljóst er að framhaldið verður reipdráttur og niðurstaðan 2009 hvað það varðar í fullkominni óvissu. Dragbíturinn í þessu efni er eftir sem áður Bandaríkin sem með hegðan sinni í loftslagsmálum eru að verða sá Svarti Pétur sem allt strandar á. Í stað deilna um tölusett markmið á tímbilinu 2013–2020 hefðu þjóðir heims þurft að geta einbeitt sér að úrræðum, þ.e. vænlegum leiðum til að ná settu markmiði.

Ósjálfbær efnahagsstefna undirrótin

Það þarf ekki vitringa til að skilja að undirrót manngerðra loftslagsbreytinga er sú efnahagsstefna sem ráðið hefur ferðinni um langt skeið. Gildir einu hvort hún er kennd við kapítalisma eins og þann sem nú er að heita má einráður á heimsvísu eða allsherjar ríkisforsjá eins og byggt var á í Sovétríkjunum og fylgiríkjum þeirra. Í hvorugu kerfinu var á síðustu öld litið svo heitið gæti til umhverfisáhrifa efnahagsstarfseminnar sem taka þyrfti tillit til, hvort sem um var að ræða orkubúskap, samgöngur eða framleiðslu vöru og þjónustu. Nær 40 ár eru liðin frá því að skýrar vísbendingar lágu fyrir um hvert stefndi vegna losunar gróðurhúsalofts. Forspár úr rannsóknum kringum 1970 um hver staðan í uppsöfnun gróðurhúsaáhrifa yrði um aldamótin 2000 stóðust upp á punkt og prik (sjá rit undirritaðs Vistkreppa eða náttúruvernd 1974, s. 29). Samt er alþjóðakerfið enn langt frá því að ná samstöðu um marktækar aðgerðir til að draga úr losun og þar með að koma í veg fyrir hækkun meðalhita á jörðinni og röskun veðurkerfa. Brýnasta verkefnið og það sem úrslitum mun ráða hvort unnt reynist að koma böndum á röskun lofthjúpsins er að sveigja efnahagsstarfsemina inn á sjálfbærar brautir. Að því þyrfti hugvit mannkyns að beinast í stað þess að ætla blindum markaðsöflum að leysa vandann.

Hagkerfi sóunar og ofurneysla

Alþjóðahagkerfið er knúið áfram af sóun auðlinda og ofurneyslu. Ef hægir á er gangverkið stopp og við blasir kreppa með hruni á fjármálamörkuðum og atvinnuleysi. Einnig ríkisfjármál flestra landa byggja nú á neyslusköttum, því meiri sólund og kaupgleði almennings, þeim mun meiri skatttekjur. Svo langt gengur siðleysið að almenningur er beinlínis hvattur til að taka neyslulán og þurfum við ekki að leita út fyrir landsteinana til að sjá hrikaleg dæmi þess. Slíkt efnahagskerfi ber feigðina í sér og sívaxandi misskipting er jafnframt fylgifiskur þess. Samanburðurinn við þá ríku er driffjöður í kröfugerð almennings um efnisleg gæði. Ríkjandi hagfræðikenningar ganga út frá því að þetta sé eðlilegt ástand og að allar tilraunir til róttækra breytinga og inngripa í markaðskerfið séu glæfraspil. Alþjóðafjármálastofnanir beina vanþróuðum ríkjum inn á sömu braut og með því magnast álag á umhverfi og auðlindir.

Samstilling hugvits og vísinda

Nú seint og um síðir hefur alþjóðasamfélagið vaknað til vitundar um þær glóðir sem mannkynið hefur safnað að höfði sér á löngum tíma í kjölfar iðnvæðingar og meintra framfara sem bornar eru uppi af jarðefnaeldsneyti og kjarnorku. Báðir þessir orkugjafar bera feigðina í sér hvor á sinn hátt, olían vegna gróðurhúsaáhrifa, kjarnorkan vegna geislavirks úrgangs og margvíslegrar annarrar áhættu. Viðfangsefnið er sjálfbær orkubúskapur sem ekki stofnar umhverfi jarðar í voða. Umbreyting á því sviði mun taka tíma og reyna á alþjóðasamfélagið með róttækari hætti en dæmi eru um í sögu mannkyns. Lausnin felst ekki aðeins í umskiptum yfir á vistvæna orkugjafa heldur kallar á stórfelldan samdrátt stig af stigi í orkunotkun iðnríkja og  jöfnuð í samskiptum iðnríkja og þróunarríkja um aðgengi að lofthjúpi jarðar. Ríkjandi efnahagskerfi ójafnaðar, borið uppi af taumlausri sóun náttúruauðlinda með afleiddri mengun og eyðingu búsvæða jarðar, er ásamt fólksfjölgun helsta hindrun þess að mannkynið komist á sjálfbæra braut. Glíman við loftslagsbreytingar af mannavöldum verður ekki unnin nema til komi ný sýn og fersk leiðsögn til lausnar. Til að móta slíkan vegvísi þar að samstilla vísindi og hugvit á sem flestum sviðum, ekki síst í náttúrufræði, félagsfræði og hagfræði um leið og leitað er að sameinandi siðrænum gildum fyrir samfélag þjóðanna. Hófstilling, jöfnuður og tillitssemi við náttúru og umhverfi þurfa að vera undirstaða fyrir þá erfiðu vegferð.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim