Hjörleifur Guttormsson 23. janúar 2007

Bjarne Reinholdt, Hydro og Ari fróði
Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. janúar 2007

Framkvæmdastjóri Norður–Atlantshafssskrifstofu Hydro á Íslandi, Bjarne Reinholdt, íklæðist skikkju Ara fróða í Morgunblaðsgrein 18. janúar undir fyrirsögninni “Hafa skal það sem sannara reynist.” Segir hann Hydro knúið til að gera athugasemdir við tilteknar fullyrðingar í grein minni Feluleikur með stóriðjustefnuna, en hún birtist í Morgunblaðinu 9. janúar sl. Skrifstofumanni Norsk Hydro hér á norðurhjara er greinilega talsvert niðri fyrir og því ljóst að nokkuð er í húfi. Efnislega er um það að ræða hvað álrisarnir telji samkeppnishæfa stærð fyrir álverksmiðjur sínar hér og annars staðar.

Allt að 720 þúsund tonn
Bjarne segist ekki þekkja til þess að ráðherra iðnaðarmála hafi árið 1997 nefnt töluna 700.000 tonn sem æskilega ársframleiðslu hjá Hydro. Lítum nánar á málavöxtu. Þann 29. ágúst 1997  flutti Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra austfirskum sveitarstjórnarmönnum þau tíðindi að Norsk Hydro og íslensk stjórnvöld væru í viðræðum um risaálver á Íslandi og rætt væri um Austurland í því samhengi. – Í þingbyrjun þá um haustið lagði ég fram á Alþingi fyrirspurn um þetta mál í 10 liðum til Finns Ingólfssonar iðnaðarráðherra. Var það 65. mál á 122. löggjafarþingi og fékk ég skriflegt svar á þingskjali 204.
2. liður fyrirspurnar minnar var þessi: Hver er áætluð hámarksstærð og áfangaskipting álbræðslunnar og ráðgerður byggingartími?
Svar iðnaðarráðherra var svohljóðandi: „Hydro Aluminium hefur lýst áhuga á byggingu álbræðslu með 240.000 tonna framleiðslugetu á ári sem stækka mætti í allt að 720.000 tonn. Athugunin miðast í upphafi við tvo áfanga með allt að 240.000 tonna framleiðslugetu á ári í hvorum og er gert ráð fyrir að fyrsti áfanginn tæki til starfa árin 2004 eða 2005 og síðari áfanginn fimm árum síðar.”
Ákvörðun um staðsetningu lá þá enn ekki fyrir að sögn iðnaðarráðherra, en enginn ræddi þá um annað en Reyðarfjörð, enda hafði utanríkisráðherra neglt það rækilega niður með yfirlýsingum. – Það sætir vissulega tíðindum að Bjarne Reinholdt skuli ekki vilja kannast við áform Hydro um allt að 700 þúsund tonna álverksmiðju hérlendis á þeim tíma, nema það séu 20 þúsund tonnin sem á vantaði í grein minni sem hann ætlar að skýla sér á bak við.

Hydro í feluleik með iðnaðarráðherra
Bjarne Reinholdt ber til baka að Hydro stefni nú að því að reisa álverksmiðju með 600 þúsund tonna ársframleiðslu hérlendis. Þá tölu hentu íslenskir fjölmiðlar á lofti í vetrarbyrjun við opnun skrifstofu Hydro hér við Norður–Atlantshafið en þá upplýsti Sjøtveits forstjóri Hydro að fyrirtækið sé nú að byggja verksmiðju af þessari stærð í Katar. Eðlilegt var að menn legðu hér saman tvo og tvo og það var fyrst eftir að Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra kveinkaði sér að Bjarne sagði í yfirlýsingu í Morgunblaðinu 18. nóvember 2006: „Hydro er sammála þeirri skoðun íslenska iðnaðarráðherrans að óraunhæft sé að reisa svo stórt álver á Íslandi. Ástæðurnar eru ekki síst staða orkumála og þau áhrif sem verkefni af þeirri stærðargráðu gæti haft á íslenskt efnahagslíf á byggingartímanum.”  – Auðvitað áfangaskipta menn slíku verkefni, ef til kæmi, eins og nýleg dæmi hér bera vott um. Þessi feluleikur minnir á það þegar forstjóra Alcoa varð það á að upplýsa á liðnu ári að í Brasilíu greiddi fyrirtæki hans þar helmingi hærra verð fyrir orkuna en samið hefði verið um hérlendis. Í framhaldinu höfðu kontóristar Alcoa ekki undan að „leiðrétta” þessi ummæli yfirboðara síns, þótt enn meiri yrði reyndar titringurinn hjá Landsvirkjun.

Hluthafar en ekki kontóristar ráða
Það er fengur að pistli Bjarne Reinholdt. Hann undirstrikar feluleikinn með stóriðjustefnuna og gildir þá einu hvort um er að ræða íslenska talsmenn hennar eða kontórista álrisanna. Það sem er einkennandi fyrir áliðnaðinn í hnattvæddum heimi eru sístækkandi framleiðslueiningar og harðnandi samkeppni. Þess vegna er Alcan að setja Hafnfirðingum kosti þessa dagana: Þreföldun verksmiðjunnar eða við pökkum saman! Um það hefur Rannveig Rist ekkert að segja heldur fjarlægir og nafnlausir hluthafar. Sama á við um talsmann Hydro hér á hjara heims. Kannski fréttum við nánar um þetta innan tíðar frá þeim sem telja vilja sig sporgöngumenn Ara fróða.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim