Hjörleifur Guttormsson 23. febrúar 2007

Ávarp á landsfundi VG
á Grand Hótel í Reykjavík

Góðir félagar.
Flokkurinn sem hér fundar hefur á 8 árum frá stofnun unnið ekkert minna en kraftaverk. Hann reisti merki umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar með skýrum hætti og innsiglaði þau viðhorf í stefnuyfirlýsingu sinni við hliðina á baráttu fyrir jöfnuði, kvenfrelsi og friðarstefnu.

Síðan höfum við vinstri græn staðið vaktina á öllum þessum sviðum, fremst af öllu í andróðrinum gegn stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar.

Sá róður hefur ekki verið léttur gegn því ofurefli sem sem við hefur verið að etja lengst af. Ljóst og leynt var stóriðjustefnan studd af forystu annarra stjórnmálaflokka, Samfylkingin ekki undanskilin.

Einarður málflutningur talsmanna flokks okkar, jafnt á Alþingi og í sveitarstjórnum, sem og náttúruverndarfólks um allt land hefur smám saman seytlað inn á æ fleiri stöðum, í fjölmiðla, til almennings og frá síðasta hausti einnig inn á áður harðlæsta kontóra annarra flokka, einn af öðrum. Jafnvel hjá Landsvirkjun eru menn farnir að kvarta undan sprungum í undirstöðum og þrálátum leka.

Veðrabrigðin í umhverfisumræðunni nú í vetur hafa verið söguleg, ánægjuleg og jákvæð, svo langt sem þau ná. Merkisberi stóriðjustefnunnar, Framsóknarflokkurinn, hefur verið á harðahlaupum í felur, Samfylkingin dró upp tússliti í höfuðstöðvum sínum á síðasta hausti en hefur enn ekki lokið við að farða liðsveitina í Hafnarfirði, Húsavík og á Suðurnesjum. Meira að segja forysta Sjálfstæðisflokksins fékk í morgun hólmgönguáskorun frá varaþingmanni sem spáði flokknum fylgishruni ef hann ekki dubbaði sig upp fyrir vorið. Það verður gaman að geta brátt tekið undir með Tómasi

„að jafnvel gamlir símastaurar syngja,
í sólskininu og verða grænir aftur.”

Þetta er stórkostlegur árangur þótt fáum dyljist að enn sem komið er séu þetta leiktjöld, sett upp í skyndi og handritið að mestu óæft, jafnvel óskrifað. Samt er þetta jákvætt, uppskera af hugarfarsbreytingu sem farin er að skila sér eftir leikreglum okkar hæggenga og takmarkaða lýðræðis.

En það er víðar en í stóriðjumálum sem þörf er á stefnubreytingu. Allt stjórnkerfið þarf á uppstokkun að halda, aðlögun að nýjum veruleika og nýrri sýn til umhverfismála, til lýðræðislegrar þáttöku almennings og opinnar stjórnsýslu. Styrkja þarf umhverfisráðuneytið og aðrar stjórnstöðvar með tilliti til breyttrar viðhorfa hér innanlands og á alþjóðavettvangi og endurskoða stjórnarskrá og lagabálka  sem suma hverja má flokka með fornleifum.

Loftslagsbreytingar af mannavöldum yfirskyggja flest annað í alþjóðlegri umræðu samhliða sívaxandi misskiptingu í lífskjörum. Vísbendingar um loftslagsbreytingar voru komnar fram fyrir fjórum áratugum og þá (1974) staðhæfði sá sem hér talar um hættuna af losun gróðurhúsalofts að  “... áframhaldandi þróun í þessa átt gæti haft stórfelld áhrif á veðurfar og vistskilyrði jarðar.” Við vitum nú hver orðið hefur raunin. Álverið í Reyðarfirði sem senn fer í gang og önnur sem eru á teikniborði stjórnvalda munu setja Ísland í sérflokk sem Evrópumethafa og hátt í heimsmet í losun gróðurhúsalofts með um 20 tonn á hvert mannsbarn árlega. Það er fátt meira öfugmæli en þegar því er haldið fram að með þessari stefnu séum við Íslendingar að draga úr mengun andrúmsloftsins á heimsvísu.

Sjálfbær þróun þarf að hvíla á þremur stoðum: Náttúrustoð, efnahagsstoð og félagsstoð og öll þurfa burðarvirkin að vinna saman ef húsið á að standa og jörðin að haldast byggileg. Allar þessar stoðir eru valtar og veikar nú um stundir og efnahagslega stoðin er grautfúin. Efnahagskerfi sem byggir á sívaxandi orkunotkun, sólund náttúruauðlinda og vaxandi misskiptingu siglir í strand fyrr en varir. Andstæða þessa er ekki í sjónmáli en hún þarf að fela í sér langtum minni orkunotkun, endingu þess sem framleitt er, endurvinnslu og sparnað í stað einnotaframleiðslu svo og félagslegan jöfnuð. Það er því verk að vinna, fyrir okkar flokk og aðra sem leggjast vilja á sömu sveif, mannlegt félag í heild sinni.

Framundan er mikil lota, barátta um hug og hjörtu fólks sem gengur að kjörborði. Með réttu er sagt að mikið sé í húfi. Við þurfum að vera í senn djörf, raunsæ og glaðbeitt. Mestu skiptir fyrir árangur að við sækjum fram af þeim styrk sem felst í samstöðu um góðan málstað. Með það vegarnesti getur flokkur okkar hvort sem er staðið áfram vaktina í stjórnarandstöðu eða tekið í sveif framkvæmdavaldsins með aðild að ríkisstjórn.

Í sex áratugi hef ég tekið þátt í stjórnmálastarfi af einhverjum toga. Alltaf hefur það verið skemmtilegt en sjaldan sem nú. Fyrir gamalmenni er þægilegt að vera stigið úr stafni og sitja í skut á framboðslista. Samt reyni ég að bera mig vel og tek undir með Gretti, að ei mun skuturinn eftir liggja ef allvel er róið í fyrirrúminu.

Plægjum akurinn á næstu vikum, sáum frækornum sem spíra vel og uppskerum að vori.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim