Hjörleifur Guttormsson 25. maí 2007

Stjórnarmyndunin og innviðir Samfylkingarinnar

Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar varð til á örfáum dögum. Aðdragandi og málefnasáttmáli leiða margt í ljós. Forysta Samfylkingarinnar leit þegar fyrir kosningar á stjórn með Sjálfstæðisflokknum sem æskilegasta kostinn þótt hugsanlegri samstjórn þáverandi stjórnarandstöðuflokka væri ekki hafnað opinberlega. Þetta skýrir þá hröðu atburðarás sem varð í viðræðum Geirs Haarde og Ingibjargar dagana eftir kosningar. Formlegar stjórnarmyndunarviðræður stóðu aðeins í þrjá daga og engin alvarleg ásteytingsefni komu í ljós milli flokkanna. Nánast var eins og um formsatriði væri að ræða að ganga frá stjórnarsáttmála og aðeins örfáum var hleypt að við það verk. Út á við settu formennirnir upp bros allan tímann og innsigluðu gjörning sinn með faðmlögum. Formaður Sjálfstæðisflokksins hafði undirtökin, lék á Ingibjörgu eins og fiðlu og hún lét sér vel líka. Sjálf kórónaði hún gjörninginn með því að velja utanríkisráðuneytið fremur en fjármálaráðuneytið sér til handa, og afsalaði sér og flokki sínum þar með raunverulegri fótfestu í stjórnarsamstarfinu.

Ráðherrastóla hvað sem það kostaði

Stjórnarsáttmálinn opinberar hversu lítill munir er í reynd á Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum þegar til kastanna kemur. Ef ekki kæmi til ágreiningur í afstöðu flokkanna til aðildar að Evrópusambandinu og nokkur munur á velferðaráherslum mætti líta á Samfylkinguna undir núverandi forystu sem undirdeild í Sjálfstæðisflokknum. Staða Samfylkingarinnar í stjórnarandstöðu síðust tvö kjörtímabil og keppni við Vinstri græna um hylli vinstrisinnaðra kjósenda hefur villt um fyrir mörgum hvað varðar stefnu flokksins. Stjórnarmyndunin og málefnasáttmálinn svipta af þessu hulunni og gagnkvæm ánægja í forystu flokkanna með niðurstöðuna, einnig meðal ungra Sjálfstæðismanna, talar sínu máli. Vitneskjan um ofurkapp Samfylkingarinnar á að komast í ráðherrastóla auðveldaði Geir Haarde enn frekar leikinn. Fyrir Ingibjörgu var þar um pólitískt líf eða dauða að tefla. Hver útkoman verður af stjórnarsamstarfinu fylgislega fyrir Samfylkinguna á eftir að koma í ljós, en fyrirkvíðanlegt er það tjón sem leiða mun af stjórnarstefnunni, m.a. fyrir náttúru landsins..
 
„Fagra Ísland” innihaldslítið  plagg

Tillagan sem Samfylkingin lagði fram haustið 2006 undir yfirskriftinni Fagra Ísland var um margt sérkennilegt plagg. Þar var gert ráð fyrir „gerð rammaáætlunar um náttúruvernd” sem umhverfisráðherra átti að leggja fyrir Alþingi eigi síðar en veturinn 2009–2010. Í raun fólst í þessari tillögu ekki annað en það sem lögboðið er skv. 65. grein náttúruverndarlaga um að gerð skuli náttúruverndaráætlun fyrir landið allt á 5 ára fresti. Lögum samkvæmt þarf Alþingi að afgreiða slíka áætlun á næsta ári, 2008, fyrir tímabilið 2009–2013. Í stjórnarsáttmála segir: „Stefnt skal að því að ljúka vinnu við rammaáætlun fyrir lok árs 2009 og leggja niðurstöðuna fyrir Alþingi til formlegrar afgreiðslu.” Þetta ákvæði er í þoku eins og margt annað í stjórnarsáttmálanum, þar eð ekki er tekið fram hvort þarna er um að ræða rammaáætlun um náttúruvernd á vegum umhverfisráðherra eða hálfkaraða rammaáætlun á vegum iðnaðarráðuneytisins um orkunýtingarkosti.

Merkileg upptalning

Í stjórnarsáttmálanum eru talin upp nokkur svæði sem „verði undanskilin nýtingu og jarðrask þar óheimilt ÞAR TIL framtíðarflokkun hefur farið fram ... Slík svæði eru Askja, Brennisteinsfjöll, Hveravellir, Kerlingarfjöll, Kverkfjöll og Torfajökull.” Það er engu líkara en að Framsóknarmenn hafi haldið hér á penna en þeir birtu hliðstæða skrá í kosningabaráttunni. Askja hefur verið friðlýst náttúruvætti síðan 1978 og Hveravellir síðan 1960. Kverkfjöll eru þegar innan Vatnajökulsþjóðgarðs og allir flokkar hafa tekið undir að friðlýsa beri Brennisteinsfjöll og Torfajökulssvæðið. Sama á við um Jökulsá á Fjöllum, nema hér er tekið skýrt fram að VATNASVIÐI árinnar verði bætt við Vatnajökulsþjóðgarðinn. Fyrir því hafa Vinstri græn barist og fengu þingmenn úr öðrum flokkum á Alþingi með á slíka tillögu á síðasta þingi (65. mál á 133. löggjafarþingi) en tillagan fékkst þó ekki afgreidd. Er gott að sjá þessa stefnu nú njörvaða niður í stjórnarsáttmála. Með þessu bætist mikið land við þjóðgarðinn, ekki síst austan Jökulsár, þ.e. aðrennslissvæði Kreppu, Arnardalur,  Möðrudalur, Hólsfjöll og mikil lönd í Öxarfirði.

Stóriðjustefnan áfram á fullri ferð

Stefna Samfylkingarinnar í stóriðjumálum hefur verið óskýr og ruglingsleg. Í kosningabaráttunni lét Samfylkingin að því liggja að hún styddi stóriðjuhlé. Þannig sagði í Fagra Íslandi og greinargerð með þingsályktunartillögu þingflokks Samfylkingarinnar sl. haust: „Samfylkingin leggur til að við núverandi aðstæður verði frekari stóriðjuáformum slegið á frest.” Þrátt fyrir þetta skrifaði Samfylkingin athugasemdalaust upp á álit Auðlindanefndar iðnaðarráðherra í október 2006 þar sem gert var ráð fyrir að öll útgefin leyfi til rannsókna og undirbúnings virkjana haldi gildi sínu. Þrátt fyrir Fagra Ísland lýstu einstakir þingmenn og frambjóðendur flokksins yfir stuðningi við frekari stóriðjuframkvæmdir, m.a. á Húsavík og í Helguvík og stuðningur Samfylkingarmeirihlutans í Hafnarfirði við stækkun álbræðslu í Straumsvík fór ekki leynt. Samt reyndi Samfylkingin að koma þeim skilaboðum til kjósenda fyrir kosningar að flokkurinn vildi stóriðjuhlé og flestir þingmenn Samfylkingarinnar skrifuðu upp á áskorum Framtíðarlandsins þar að lútandi. Eftir stjórnarmyndunina stendur ekki steinn yfir steini varðandi þessi fyrirheit. Grátbroslegt er að verða vitni að því að meira að segja Norðlingaölduveita í Þjórsárverum er enn á dagskrá, þrátt fyrir opinberar yfirlýsingar formanns Samfylkingarinnar um hið gagnstæða kvöldið eftir undirritun stjórnarsáttmálans.

Veikir innviðir Samfylkingarinnar

Samfylkingin hefur á tveimur kjörtímabilum frá stofnun sinni ekki náð að móta heildstæða og trúverðuga stefnu í helstu málum samtímans. Undantekning er þar krafan um aðild Íslands að Evrópusambandinu sem knúin var í gegn fljótlega eftir stofnun flokksins í sérstakri póstkosningu. Af því stefnumiði sést blessunarlega lítið í stjórnarsáttmálanum en formaðurinn ætlar sér eflaust að plægja akurinn næstu árin sem utanríkisráðherra. Stjórnin sem nú er sest á stóla hefur ærinn meirihluta á Alþingi en engan veginn er víst að það endurspegli styrk hennar eða fylgi meðal þjóðarinnar. Gæti hér sannast hið fornkveðna að skamma stund verður hönd höggi fegin.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim