Hjörleifur Guttormsson | 26. október 2007 |
Alvarlegar viðvaranir Umhverfisstofnunar SÞ Það er stutt á milli neyðarútkalla á sviði umhverhverfismála um þessar mundir. Fyrr í þessum mánuði birtist ný skýrsla Umhverfisstofnunar Evrópu um stöðu umhverfismála í álfunni en útdráttur úr henni var birtur hér á heimasíðunni. Nú hálfum mánuði síðar sendir Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) frá sér fjórðu yfirlitsskýrslu sína (GEO-4) um ástand umhverfismála á heimsvísu, byggt á fimm ára starfi 400 vísindamanna víðsvegar að og 1000 umsagnaraðila. (Sjá http://www.unep.org/Documents.Multilingual/Default.asp?DocumentID=519&ArticleID=5688&l=en) Þar er rakin þróun á lykilssviðum umhverfismála á jörðinni síðustu tvo áratugi sem liðnir eru frá því Bruntland-skýrsla Sameinuðu þjóðanna kom út 1987. Sú mynd sem þar er dregin upp verðskuldar heimsathygli því að hún er sterkasta aðvörun sem komið hefur frá Sameinuðu þjóðunum hingað til og felur í sér eindregna kröfu um stefnubreytingu á öllum helstu sviðum samskipta manna við náttúru og umhverfi. Í skýrslunni kemur fram það sameiginlega mat höfunda að mannkynið sem heild sé í hættu verði ekki við brugðist með róttækum hætti á alvarlegustu sviðum umhverfisvandans: Í fólksfjölgun, loftslagsbreytingum og varðandi útdauða dýra og plantna. „Síðustu tveir áratugir eru tími glataðra tækifæra” segir Achim Steiner framkvæmdastjóri UNEP. Á sama tíma og efnisleg auðsæld hluta jarðarbúa hefur vaxið um nær þriðjung hefur höfuðstóll náttúrunnar, sem þessi velferð manna og efnahagsstarfsemi byggir á, haldið áfram að rýrna hröðum skrefum. Þetta á við um ferskvatn, andrúmsloft, líffræðilega fjölbreytni og auðlindir sjávar. Án skjótra viðbragða og breytinga á búskaparháttum jarðarbúa lendum við fyrr en seinna í miklum erfiðleikum. Efnahagsgrunnur hagkerfa okkar er í uppnámi og allsendis er óvíst að afkomendur okkar ráði við að greiða reikninginn, segir í skýrslunni. Dæmi um þróun síðustu 20 ára og hættumerki:
Sjálfbærni og jöfnuður skila mestum árangri Í kafla 9 í skýrslunni, Framtíðin í dag, er bent á hugsanlega ólíka atburðarás fram á miðja þessa öld:
Áhersla á markaðsöflin ein er ólíkleg til að náð verði markmiðum um umhverfisvernd og velferð, en fjárfesting í umhverfi og félagslegri sjálfbærni þarf hins vegar ekki að skaða efnahagslega þróun. Fólksfjölgun heldur áfram í öllum tilvikunum fjórum svo og aukin efnahagsleg umsvif og orkunotkun þar sem jarðeldsneyti verður áfram ráðandi þáttur. Sjálfbærni í forgang er eina leiðin þar sem menn nálgast jafnvægi í losun gróðurhúsalofts, en þrátt fyrir það er gert ráð fyrir að meðalhiti fari í 1,7°C umfram það sem gerðist fyrir iðnbyltingu og að sjávarborð hækki um 30 cm. Áfram er samkvæmt öllum leiðunum hætta á að menn lendi yfir hættumörk, þar á meðal varðandi fiskveiðar og loftslagsbreytingar og að verulegur ójöfnuður verði áfram til staðar. Framtíðin ræðst einkum af ákvörðunum sem einstaklingar og samfélög taka nú, en ekki á morgun eða síðar, segir í skýrlunni. Umhverfisvernd verði kjarni í stjórnsýslu Í lokakafla skýrslunnar er fjallað um þátt stjórnsýslu til að náð verði árangri. Hingað til hafi áherslur einkum beinst að því að draga úr álagi og glíma við afleiðingar af umhverfistjóni. Þess í stað þurfi nú að beina sjónum að þeim uppsprettum sem valda auknu álagi á umhverfið, þar á meðal fólksfjölgun, efnahagsvexti, auðlindanotkun og gæta að félagslegum áherslum. Slíkt muni rekast á viðtekna hagsmuni valdamikilla hópa. Til að ná tökum á erfiðustu vandamálunum þurfi að færa umhverfismálin frá því að vera jaðarmál yfir á miðjuna þar sem ákvarðanir eru teknar. Breyta þurfi leikreglum víða í stjórnarstofnunum og í alþjóðasamstarfi og veita beri umhverfinu forgang í áætlanagerð. Hjörleifur Guttormsson |