Hjörleifur Guttormsson | 29. mars 2007 |
Fjölþjóðahringar í fegurðarsamkeppni Íslendingar fá nú á færibandi sýnishorn af vinnuaðferðum fjölþjóðafyrirtækja sem leitast við að kaupa sér umhverfisvæna ímynd til að breiða yfir náttúruspjöll og mengun. Fáeinum dögum fyrir atkvæðagreiðslu um margföldun á umsvifum Alcan í Hafnarfirði er send út tilkynning um að auðhringurinn sé reiðubúinn að greiða fyrir því að raflínur í grennd við álverksmiðjuna verði settar í jörð svo fremi að Hafnfirðingar samþykki nýja 280 þúsund tonna risaálbræðslu við hlið þeirrar gömlu. Þá sendi Alcoa í gær, miðvikudaginn 28. mars, út fréttatilkynningu á veraldarvefnum (sjá hér) þess efnis að fyrirtækið fagni sérstaklega (embraces) ákvörðun Alþingis um að stofna Vatnajökulsþjóðgarð. Þar segir ennfremur að Alcoa hafi um nokkurra ára skeið stutt við stofnun þjóðgarðsins og fylgst náið með undirbúningi að stofnun hans. Vitnað er sérstaklega til orða Tómasar Sigurðssonar forstjóra Alcoa Fjarðaráls sem segir fyrirtækið “lengi hafa stutt við verndun þessa náttúrusvæðis þar sem það er hluti af okkar sjálfbæru hugmyndafræði.” Síðan fylgir löng þula um framleiðslu Alcoa á heimsvísu og klikkt er út með því að Alcoa hafi nýlega fengið útnefningu auðmannaráðstefnunnar í Davos í Sviss (World Economic Forum) sem ein af fremstu sjálfbæru samsteypum á heimsvísu. Hjörleifur Guttormsson |