Hjörleifur Guttormsson 31. júlí 2007

Ótrúleg ummæli umhverfisráðherra
Birtist sem grein í Morgunblaðinu 30. júlí 2007

Morgunblaðið hefur það orðrétt eftir Þórunni Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra 28. júlí sl. að það hefði engu breytt um framkvæmdina við Múlavirkjun “hvort fram hefði farið umhverfismat eða ekki, vegna þess að framkvæmdaaðilar stóðu ekki við fyrirætlanir sínar og framkvæmdin var með öðrum hætti en það sem var lagt fyrir Skipulagsstofnun.”

Ráðherrann virðist ekki átta sig á tilgangi þess að setja framkvæmd í umhverfismat og leikreglum þar að lútandi. Í fyrsta lagi fær almenningur í slíku matsferli tækifæri til athugasemda á grundvelli frummatsskýrslu framkvæmdaaðilans. Í öðru lagi þarf Skipulagsstofnun í framhaldi af slíku opnu matsferli að gefa rökstutt álit á því hvort skýrslan uppfylli skilyrði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt. Þegar álit Skipulagsstofnunar liggur fyrir skal það kynnt umhverfisráðherra, framkvæmdaraðila, leyfisveitendum og öðrum umsagnaraðilum, svo og þeim sem gert hafa athugasemdir við frummatsskýrslu á kynningartíma. Almenningur skal eiga greiðan aðgang að áliti Skipulagsstofnunar og matsskýrslu og skal stofnunin auglýsa í dagblaði sem gefið er út á landsvísu að álitið og matsskýrslan liggi fyrir. Þá skal skal sá sem veitir framkvæmdaleyfi á grundvelli skipulags- og byggingarlaga auglýsa leyfisveitinguna og þau skilyrði sem henni fylgja ásamt áliti Skipulagsstofnunar og gefa almenningi sem málið varðar kost á athugasemdum. Ákvörðun sveitarstjórnar um útgáfu framkvæmda- og byggingarleyfis er síðan kæranleg til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Við umhverfismat koma ef rétt er að staðið fram aðrar og fyllri upplýsingar en ella um viðkomandi framkvæmd og ekkert er hægt að fullyrða um það fyrirfram að í hana verði ráðist.

Fullyrðing umhverfisráðherra er þannig út í hött og í henni felast röng skilaboð til almennings, stjórnkerfisins og framkvæmdaraðila.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim