Hjörleifur Guttormsson | 31. desember 2007 |
Staða umhverfismála í árslok 2007 Loftslagsmálin Líklega verður ársins 2007 ekki síst minnst vegna almennrar viðurkenningar stjórnmálamanna, fjölmiðla og almennings á niðurstöðum sérfræðinganefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC) um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Skýrasti vitnisburður um þetta voru niðurstöður kosninga og stjórnarskipti í Ástralíu og aðild landsins að Kyótóbókuninni. Bandaríkin sem voru orðin einangruð á alþjóðvettvangi í andstöðu sinni við aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofts sáu þann kost vænstan að verða með í samningaferlinu um hvað við skuli taka frá og með árinu 2013. Þátttaka þeirra var hins vegar því verði keypt að fella niður tölulegar viðmiðanir úr Bali-samþykkt aðildarríkja loftslagssamningsins. Aðkoma þeirra að samningaborðinu út á þessi býti er þannig tvíbent og hætt við að Bandaríkin líti áfram á það sem meginverkefni sitt að koma í veg fyrir alvörusamkomulag þjóða heims gegn loftslagsvánni. Ráðvillt ríkisstjórn Ríkisstjórn Íslands ber á sviði loftslagsmálanna kápuna á báðum öxlum. Ríkisstjórnin lætur svo í orði sem hún ætli að vera í fararbroddi aðgerða eftir Kyótó en heldur áfram opnum þeim möguleika að sótt verði um undanþágu fyrir Ísland frá væntanlegum skuldbindinum. Rökstuðningurinn að baki séríslensku ákvæði hefur frá upphafi verið reistur á sandi. Táknrænt er að Framsóknarflokkurinn í stjórnarandstöðu og undir formennsku Guðna gerir slíka undanþágu að meginatriði og þjappar sér með því áfram upp að Sjálfstæðisflokknum. Á sviði náttúruverndar hér innanlands er einnig Samfylkingin tvíátta með umhverfis- og iðnaðarráðuneytið í sínum höndum. Stefna hennar fyrir kosningar undir merkimiðanum Fagra Ísland var frá upphafi götótt flík og birtist nú í óskýrum og misvísandi yfirlýsingum um virkjanir, m.a. í Neðri-Þjórsá, sem og varðandi áframhaldandi álvæðingu. – Svonefndum netþjónabúum er teflt fram í öðru orðinu til að réttlæta frekari virkjanir, þótt uppbygging þeirra kalli aðeins á óverulega orku í byrjun og óvíst sé um raunverulegan áhuga fjárfesta á þessu sviði hérlendis. Áhugi álhringa á fekari fjárfestingum er hins vegar staðreynd og ríkisstjórnin heldur öllum dyrum opnum gagnvart þeim. Vatnajökulsþjóðgarður Lögfesting áforma um Vatnajökulsþjóðgarð á árinu 2007 er helsti sýnilegi árangurinn í náttúruvernd hérlendis. Þótt stjórnunarlegur umbúnaður þjóðgarðsins sé um margt sérstæður má þar um bæta síðar í ljósi reynslu. Aðalatriðið er að takast megi að skapa samstöðu um þau stóru svæði allt í kringum Vatnajökul sem vegna náttúrufars eiga heima í þjóðgarðinum og að mótuð verði skýr verndarstefna til frambúðar. Horfur eru á að Langisjór verði innan þjóðgarðsins frá upphafi en óvissa er um Lónsöræfi vegna ágreinings við landeigendur. Þó er bót í máli að síðarnefnda svæðið er friðland að náttúruverndarlögum og enginn hefur orðað að færa þann gjörning til baka. – Ég hef trú á að aðrir þeir þjóðgarðar á miðhálendinu sem ég gerði tillögu um 1998 fylgi brátt í kjölfarið, einn af öðrum (Sjá http://www.althingi.is/altext/123/s/0016.html) . Hofsjökulsþjóðgarður er handan við hornið og aðeins spurning um hvenær sú hugmynd verður færð í lagabúning. Jöklu beint í Lagarfljót Alvarlegustu tíðindi ársins á umhverfissviði hérlendis urðu þegar Jöklu var beint um jarðgöng austur í Lagarfljót til að knýja aflvélar Kárahnjúkavirkjunar. Með því var stigið yfir þröskuld sem margoft hefur verið varað við, þ.e. að breyta náttúrulegu rennsli stórfljóta með því að færa þau milli vatnasviða. Stjórnendur Sovétríkjanna sálugu fengu maklegt orð í eyra fyrir slíka gjörninga en hér hælast stjórnmálamenn og virkjunaraðilar um yfir þessum ákvörðunum. Lykillinn að farsælli sjálfbærri þróun er að vinna sem frekast er kostur með náttúrunni en ekki gegn henni. Umhverfisröskun af völdum Kárahnjúkavirkjunar mun koma fram á löngum tíma. Lagarfljót skiptir strax um lit og eðli. Gróðureyðing út frá Hálslóni heldur áfram um áratugi sem og ágangur sjávar á strönd Héraðsflóa og vatnsrof úr bökkum Lagarfljóts. Einstakir atburðir munu kalla fram fyrirsagnir eins og þegar Egilsstaðaflugvöllur lendir öðru hvoru á kaf í flóðum á næstu áratugum, að ekki sé talað um afleiðingar eldsumbrota á orkumannvirki og rekstur þeirra. Áhrif minna aurflæðis út í Héraðsflóa á lífríki sjávar og á bindingu gróðurhúsalofts verða tilefni frekari umræðu og rannsókna. Austfirðingar í greipum Alcoa Risaálverið á Reyðarfirði sem réði ákvörðuninni um Kárahnjúkavirkjun á líka eftir að minna rækilega á sig nær og fjær. Sumar afleiðingar þessa blasa nú þegar við augum með byggingum sem teygja sig heila bæjarleið milli Sómastaðagerðis og Flateyrar og með raflínugálgum frá Fljótsdal til Reyðarfjarðar. Áhrif mengunar frá verksmiðjunni munu segja til sín í bráð og lengd, sýnileg og þó einkum ósýnileg og smjúgja inn í merg og bein og lífríki Reyðarfjarðar. Félagslegu áhrifin af verksmiðjunni eru sumpart þegar komin fram en munu taka á sig skýrari mynd næsta áratuginn. Fólksfjölgun sem áróðursmenn stóriðjunnar boðuðu að yrði á Austurlandi svo þúsundum skipti lætur á sér standa og fjöldi nýrra íbúða stendur eftir óseldur. Ítök auðhringsins á Mið-Austurlandi gera vart við sig á ýmsum sviðum mannlífs, ekki með boðvaldi einu saman heldur óbeint þegar fólk reynir að olnboga sig að auglýstum kjötkötlum. Ráðamenn í Fjarðabyggð og á Héraði löguðu sig frá upphafi að stóriðjuáformunum og framvegis mun Alcoa freista þess að tryggja hagsmuni sína sem víðast á svæðinu, þar á meðal í sveitarstjórnum. Ótraustar smávirkjanir Enn heyrast kröfur um að sem mest verði virkjað af íslensku vatnsafli og nú hefur bæst við trúin á þann í neðra, þ.e. jarðhitann. Umræðan um töfralausnir á eftir að halda áfram og taka á sig ýmsar myndir eins og við höfum séð og heyrt að undanförnu frá útrásarliðinu sem ætlar að leggja undir sig lönd og álfur. Gamla heilræðið um að flýta sér hægt er þar ekki ofarlega á lista. Small is beautiful – það smáa er betra – var haft á orði af ýmsum sem mæltu varnaðarorð hér á árum áður þegar stíga átti risaskref í framkvæmdum. Nú eiga hins vegar smávirkjanir að koma sem viðbót við þær stóru í anda kapphlaupsins um skjótfenginn gróða. Heimilisrafstöðvar sem allvíða voru byggðar á fyrrihluta síðustu aldar reyndust góð búbót á viðkomandi jörð. Smávirkjanir sem nú eru reistar til að selja raforku á almennum markaði eru annars eðlis og geta valdið tilfinnanlegum náttúruspjöllum. Að undanförnu hefur víða verið kastað til hendi við undirbúning slíkra mannvirkja sem mörg hver hafa verið undanþegin mati á umhverfisáhrifum. Þannig hafa smávirkjanir sem reistar hafa verið síðustu 5–10 árin fæstar uppfyllt kröfur um öryggi og stíflurof frekar verið regla en undantekning. Enn er að bætast í þetta safn, m.a. með byggingu Fjarðarárvirkjunar í Seyðisfirði. Þar hafa skráðar og óskráðar reglur verið brotnar ótæpilega, bæði af opinberum aðilum og þeim sem að framkvæmdinni standa. Koma verður í veg fyrir slík vinnubrögð áður en meira tjón hlýst af. Verndun líffræðilegrar fjölbreytni Á ársfundi Umhverfisstofnunar 2007 og á Umhverfisþingi sem haldið var sl. haust var kynnt vinna að stefnumörkun hérlendis vegna Samningsins um verndun líffræðilegrar fjölbreytni (Sjá Líffræðileg fjölbreytni - markmið 2010) . Samningur þessi er ein af meginafurðum Ríó-ráðstefnunnar 1992 og Ísland gerðist aðili að honum fyrir hálfum öðrum áratug. Stefnumótunarvinna vegna samningsins hefur hins vegar verið í dæmalausu skötulíki lengst af, samanber úttekt Ríkisendurskoðunar 2006 og ítrekaðar fyrirspurnir Vinstri grænna á Alþingi (Sjá RÍKISENDURSKOÐUN http://www.rikisend.althingi.is/index.php?module=news&action=show&news_id=61&language=is). Óskandi er að eitthvað fari að rofa til í fylgni við þennan mikilvæga alþjóðasamning. Óneitanlega endurspeglar reynsla liðinna ára veika stöðu umhverfisráðuneytisins og metnaðarleysi þeirra sem þar hafa ráðið ferðinni. Í sömu átt vísar sú staðreynd að af 14 svæðum sem gert var ráð fyrir að friðlýsa samkvæmt Náttúruverndaráætlun á tímabilinu 2004–2008 hefur aðeins eitt komist í höfn. Efling umhverfisráðuneytisins hefði átt að vera forgangsatriði í nýafstöðnum breytingum á skipan Stjórnarráðsins en í því efni voru stigin fá og stutt skref. Fræðsla á veikum grunni Fræðsla um umhverfismál og náttúru landsins stendur afar veikum fótum ef marka má opinbera umræðu. Yfirvöld menntamála eiga þar ekki minnstan hlut að máli. Skilningur á vistfræðilegu samhengi í lífríki lands og sjávar virðist oft í lágmarki og hætt við að ákvarðanir um verndun og nýtingu dragi dám af því. Þegar kemur að umræðu um einstakar tegundir lífvera eru fáir sem halda áttum. Nægir að benda á þorsk og ref sem fórnarlömb grunnfærinnar umræðu, að ekki sé minnst á áhrif ágengra innfluttra tegunda á þá náttúru sem fyrir er. Þessi staða er alvörumál fyrir þjóð sem á jafn mikið og Íslendingar undir sjálfbærri nýtingu lífríkis lands og sjávar. Því er brýnt að auka þekkingu og skilning almennings og ráðamanna á lífríkinu en það er forsenda fyrir skynsamlegum ákvörðunum. Álag á náttúru landsins er mikið og fer vaxandi, m.a. vegna aukinnar ferðamennsku. Kröfur um aukna sókn í auðlindir sjávar eru háværar og taka oftar en ekki mið af skammtímahagsmunum. Loftslagsbreytingar af mannavöldum munu á næstu árum og áratugum gera vart við sig, ekki síst á norðlægum slóðum. Fátt er brýnna en að hérlendis verði efldar rannsóknir og fræðsla á sviði náttúruvísinda og að Íslendingar taki af alvöru þátt í alþjóðlegu samstarfi til verndar umhverfinu. Hjörleifur Guttormsson |