122. löggjafarþing 1997--98.
Þskj. 201 -- 62. mál.

Svar


iðnaðarráðherra [23. október 1997] við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um olíuhreinsunarstöð.

   1.      Með hvaða hætti hefur að undanförnu af hálfu íslenskra stjórnvalda verið fjallað um byggingu stórrar olíuhreinsunarstöðvar hérlendis?
    Hugmyndin á sér rætur í þátttöku Íslands í Barentsráðinu sem er stofnað til að efla sam starf Norðurlanda við norðvesturhluta Rússlands. Síðastliðinn vetur var kannað óformlega viðhorf rússneskra embættismanna o.fl. til hreinsunar olíu á Íslandi á leið frá olíuríkum norð vesturhéruðum Rússlands til markaða í Bandaríkjunum og Evrópu. Einnig var lauslega kann að hvort líklegt mætti telja að áhugi væri í Bandaríkjunum á samstarfi um slíkan rekstur. Gáfu þessar þreifingar til kynna að hugmyndin gæti verið raunhæf.
    Fjárfestingarskrifstofa Íslands hefur síðan gert ráðstafanir til að unnin verði af sérfróðum mönnum forhagkvæmniathugun varðandi byggingu olíuhreinsunarstöðvar, hefur kynnt þeim fjárfestingarumhverfi hér á landi og haft forgöngu um öflun nauðsynlegra upplýsinga.

   2.      Hvaða erlendir aðilar koma að þessu máli og hverjar eru tæknilegar og viðskiptalegar forsendur þess?
    Ekki er unnt á þessu stigi að greina frá erlendum samstarfsaðilum fjárfestingarskrifstof unnar í verkefninu en hugmyndin snýst sem fyrr segir um að nýta hagkvæma legu Íslands til að hreinsa olíu sem kemur frá norðvesturhéruðum Rússlands á leið sinni á markað í Banda ríkjunum eða Evrópu. Litið hefur verið svo á að algjör forsenda fyrir framgangi málsins væri að samstarf gæti komist á milli aðila sem bærir eru til að gera langtímasamninga um afgreiðslu á olíu til vinnslu og tryggja afsetningu á áðurnefndum mörkuðum, auk traustra vestrænna fjárfesta. Æskileg stöðvarstærð, mannaflaþörf og fjárfesting eru meðal þeirra atriða sem athuguninni er ætlað að upplýsa.

   3.      Liggur fyrir úttekt á áhættuþáttum að því er snertir mengunarhættu frá rekstri og sjó flutningum?
    Engar úttektir liggja fyrir á þessu stigi um neina þætti málsins en fram hefur komið að andstætt eldri gerðum olíuhreinsunarstöðva megi gera þær sem nú eru reistar svo úr garði að rekstrinum fylgi lítil mengunarhætta. Dæmi séu þess að hreinsunarstöðvar standi í borgum og við baðstrendur. Lögð hefur verið áhersla á það að hér þurfi að uppfylla ströngustu kröfur í þessum efnum.

   4.      Hvað liggur fyrir um hugsanlega staðsetningu olíuhreinsunarstöðvar hérlendis?
    Frumathugun tekur mið af því að verksmiðjan verði á Austurlandi.

   5.      Hvert er ráðgert framhald málsins?
    Miðað er við að forhagkvæmniathugun verði skilað í lok ársins. Niðurstöðu hennar er ætl að að varpa ljósi á hvort forsendur séu fyrir áframhaldi verkefnisins.