Hjörleifur Guttormsson 1. júní 2008

Stjórnlítil sókn í jarðhitann

Sitthvað hefur komið fram að undanförnu sem bendir til að margt af því sem varðar jarðhitamálefni hérlendis sé í miklum ólestri. Á það við um rannsóknir á auðlindinni, lagaumhverfi er snýr að verndun eða nýtingu og mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Þetta er sérkennileg staða í ljósi þess að opinberir aðilar, allt frá forseta landsins til ráðherra og talsmanna orkufyrirtækja, gera mikið úr stöðu þekkingar okkar á þessu sviði og að Íslendingar hafi þar miklu að miðla heimsbyggðinni. Ekki skal úr því dregið að vísinda- og tæknimenn hérlendir búa að mikilli þekkingu og reynslu og ekki er við þá að sakast að ringulreið og handahóf setur svo mjög mark sitt á stjórn þessara mála.

Lagaumhverfið
Á síðustu 10 árum hafa verið sett ýmis lög er lúta að jarðhita og fleiri bættust við á nýafstöðnu þingi. Má hér einkum nefna lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu nr. 57/1998, raforkulög nr. 65/2003 og nýsett lög þar sem Orkustofnun fær leyfisveitingavald um nýtingu jarðhita í stað þess að það sé í höndum iðnaðarráðherra.  Með fyrstnefndu lögunum var einkaaðilum afhentur nýtingarréttur á jarðhita á landi í einkaeign án takmörkunar svo langt niður sem komist verður. Á árunum 1983–1998 flutti undirritaður margsinnis frumvarp á Alþingi um jarðhitaréttindi sem ekki náði fram að ganga þar sem gert var ráð fyrir að jarðhiti neðan 100 m dýpis frá yfrborði væri almannaeign. Á árinu 2006 starfaði sérstök stjórnskipuð nefnd um auðlindamál á vegum iðnaðaráðuneytis, skipuð fulltrúum þingflokka og skilaði hún viðamikilli skýrslu og drögum að frumvarpi, sem lagt var fram af Jóni Sigurðssyni iðnaðarráðherra, en það var ekki afgreitt. Fulltrúi Vinstri grænna í nefndinni, Kolbrún Halldórsdóttir, skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara sem kom fram í í sérstakri bókun.

Verndaráætlun forsenda nýtingar
Tuttugu ár eru liðin frá því undirritaður flutti og fékk samþykkta á Alþingi svofellda þingsályktun:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta undirbúa á vegum Náttúruverndarráðs í samráði við yfirvöld orkumála áætlun um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða, fossa og hvera. Drög að slíkri áætlun verði lögð fyrir Alþingi til kynningar fyrir árslok 1990 og áætlunin fullbúin til staðfestingar síðar.

Framkvæmd á þessum vilja þingsins dróst úr hömlu og skorti í senn á að fé væri veitt til verksins og á pólitískan vilja stjórnvalda. Það var fyrst áratug síðar að hrundið var af stað vinnu við svonefnda Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, sem enn er ekki lokið. Er vinna varðandi jarðvarmann þar með seinni skipunum. Andstætt því sem gert var í Noregi er Rammaáætlun á forræði iðnaðar- en ekki umhverfisráðuneytis. Endurspeglar það að fela atvinnumálaráðuneyti forgöngu málsins þá áherslu sem af stjórnvalda hálfu er á nýtingu og ber jafnframt vott um veika stöðu umhverfismála hérlendis.
 
Auðlindarannsóknir falli undir umhverfisráðuneyti
Í samræmi við fyrirvara fulltrúa Vinstri grænna í auðlindanefndarálitinu haustið 2006 setti VG eflingu umhverfisráðuneytisins á oddinn í stefnu sinni um sjálfbæra þróun sem birtist í ársbyrjun 2007 undir heitinu Græn framtíð. Þar segir m.a.:

 „Rannsóknir á náttúruauðlindum lands og sjávar, verndun þeirra og áætlanir um nýtingu eiga að vera á forræði umhverfisráðuneytisins sem vel færi á að kenna við umhverfi og auðlindir. Sama á við um skipulagsmál sem snerta landið allt, hálendi og byggðir, í samvinnu við sveitarfélögin svipað og verið hefur frá stofnun ráðuneytisins.“

Um þetta sagði Kolbrún Halldórsdóttir í bókun sinni í skýrslu auðlindanefndarinnar:

Rökrétt er að mati VG að forræði á því málasviði sem hér um ræðir, varðandi rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, færist frá iðnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytisins, þar með talin forysta um vinnu að rammaáætlun. Eðlilegt er að ráðuneyti umhverfis- og skipulagsmála hafi þannig yfirstjórn á rannsóknum og meðferð náttúruauðlinda, að orkulindum meðtöldum, sbr. m.a. 1.–5. lið um hlutverk Orkustofnunar samkvæmt reglugerð 308/2004. Frekari ráðstöfun, á grundvelli markaðrar stefnu, kæmi hins vegar í hlut viðkomandi fagráðuneyta.

Hefði þessi stefna náð fram að ganga við verkefnatilfærslu innan Stjórnarráðsins í kjölfar síðustu alþingiskosninga væri staðan allt önnur og vænlegri. Sú varð ekki raunin og ber Samfylkingin, sem nú fer bæði með umhverfis- og iðnaðarmál, öðrum fremur á því ábyrgð.

Sjálfbær nýting jarðhita
Fyrr á þessu ári fluttu sérfróðir aðilar erindi um sjálfbæra jarðhitanýtingu og verður hér vísað til þeirra.
Guðni Axelsson eðlisfræðingur og deildarstjóri hjá Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR) talaði á ársfundi ÍSOR 28. mars sl. og 3. maí sl. flutti Stefán Arnórsson hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands erindi á aðalfundi Landverndar. Var góður samhljómur í máli þeirra.  Stefán benti á að nýting jarðhitasvæða hefur alltaf í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, bæði á auðlindinni sjálfri og nánasta umhverfi. Engin jarðhitakerfi eru eins, og eðli þeirra og endingartími er breytilegur. Guðni undirstrikaði að sjálfbær vinnslugeta jarðhitakerfa er óþekkt við upphaf vinnslu og verður ekki metin með vissu fyrr en eftir vinnslu í nokkur ár eða áratugi. Erfitt er þannig fyrirfram að segja til um hvar sjálfbær mörk liggja og lykillinn að farsælli nýtingu er að fara sér hægt, byggja vinnslugetu upp í þrepum og gera hlé eftir ágenga vinnslu. Hafa verður í huga að nýting háhita til rafmagnsframleiðslu er afar takmörkuð eða kringum 10% orkunnar. Við blasir að framkvæmdir og margar vinnsluhugmyndir orkufyrirtækja hérlendis um beislun jarðvarma til raforkuframleiðslu, einkum í þágu álvera, taka hvorki mið af varúðarsjónarmiðum eða ráðleggingum sérfróðra um sjálfbæra nýtingu.
Á ársfundi ÍSOR 2008 flutti Haukur Jóhannesson jarðfræðingur fróðlegt erindi um jarðfræðiminjar á háhitasvæðum og verndun þeirra. Benti hann á að við vinnslu geta orðið breytingar á svæðunum, misjafnlega miklar, eins og dæmi eru hérlendis frá (Svartsengi, Reykjanes) og á Nýja Sjálandi. Þar hafa verið tekin frá háhitasvæði til friðunar og eru þá engar boranir leyfðar á slíkum svæðum. Breytingar af náttúrulegum orsökum eru hluti af eðli háhitasvæðanna og auka á fjölbreytni þeirra í tímans rás.
Á Orkuþingi 2006 flutti Sveinbjörn Björnsson fróðlegt erindi um orkugetu jarðhita hérlendis. Telur Sveinbjörn aðgengilegan og nýtanlegan varmaforða til raforkuframleiðslu á háhitasvæðum ofan 3 km dýpis myndu duga til að teka 4.400 MWe rafstöðvar í 7000 stundir á ári í 50 ár.

Hröð nýting tengd stóriðjustefnunni
Síðustu fimm ár hefur mikið gengið á hjá íslenskum orkufyrirtækjum við að bjóða fram raforku frá jarðvarmavirkjunum til stóriðju. Orkuveita Reykjavíkur (OR), Landsvirkjun og Hitaveita Suðurnesja hafa verið þar fremst í flokki og viðsemjendur þeirra eru álver á Grundartanga og önnur á teikniborðinu í Helguvík, við Húsavík og í Þorlákshöfn. Fyrst í stað voru Skipulagsstofnun og almenningur fremur andvaralítil gagnvart umhverfisáhrifum slíkra virkjana, en framkvæmdir OR á og við Hellisheiði fengu marga til að hrökkva við, bæði vegna sjónmengunar og efnamengunar. Frjáls félagasamtök og einstaklingar hafa látið til sín taka og sent inn fjölda athugasemda við framkvæmdaáformin, Landvernd m.a.vegna jarðvarmavirkjana og raflínulagna á Reykjanesi og SUNN vegna Þeistareykja og álvers á Bakka. Náttúruverndarsamtök Íslands hafa verið á vaktinni vegna losunar gróðurhúsalofts frá stóriðjuframkvæmdunum. Ljóst er að með yfirspenntum samningum um orkusölu fyrirfram er sjálfbærri vinnslu teflt í mikla tvísýnu fyrir utan ósvaraða spurninguna um verndun jarðhitasvæða.

Þáttaskil með áliti Skipulagsstofnunar
Nokkur þáttaskil urðu með áliti Skipulagsstofnunar 19. maí sl. vegna mats á Bitru- og Hverahlíðavirkjun. Niðurstaða stofnunarinnar um Bitruvirkjun var sú að virkjunin sé ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu. Um Hverahlíðavirkjun sagði Skipulagsstofnun að hún komi til með að hafa talsverð neikvæð sjónræn áhrif og telur að setja þurfi skilyrði fyrir framkvæmdinni, m.a. um frekari rannsóknir á svæðinu, að niðurrennslisholur verði tilbúnar fyrirfram og vandamál vegna brennisteinsvetnis í útblæstri verði leyst.
            Viðbrögðin við umræddum álitum Skipulagsstofnunar hafa verið lærdómsrík. Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur taldi Bitruvirkjun úr sögunni í bili að minnsta kosti. Samorka (Samtök orku- og veitufyrirtækja) brugðust hart við og töldu stofnunina með áliti sínu hafa farið út fyrir verksvið sitt. Skipulagsstofnun svaraði með fréttatilkyningu og benti á ákvæði reglugerðar nr. 1123/2005 þar sem segir að stofnunin skuli gera grein fyrir helstu forsendum og niðurstöðum mats síns á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmda. Hjörleifur Kvaran forstjóri OR telur að með þessu áliti um Bitru „verði víða erfitt að  byggja jarðgufuvirkjanir“ (Mbl. 20. maí 2008, forsíða). Ekki sé búið að slá virkjunina af “heldur var samþykkt að hætta frekari undirbúningi á meðan stjórn og eigendur Orkuveitunnar skoða framhaldið.” (Fréttablaðið 26. maí 2008, s. 4).

REI-málið, OR og borgarstjórn
Fátt setti jafn mikinn svip á stjórnmálin á liðnum vetri og kollsteypurnar í borgarstjórn Reykjavíkur sem afleiðing af ráðgerðum samningi Orkuveitu Reykjavíkur við Reykjavík Energy Invest hf sl. haust sem ekki náði fram að ganga. Í honum fólust m.a. eftirfarandi kvaðir fyrir OR:

„OR skuldbindur sig til að upplýsa REI og vísa til REI öllum ábendingum eða fyrirspurnum varðandi möguleika á hagnýtingu jarðhita til orkuvinnslu á Svæðinu. Rei skal hafa forgangsrétt til að ganga til samninga við þriðja aðila ...OR skuldbindur sig til að hafa þá sérfræðinga, sem hjá fyrirtækinu starfa tiltæka fyrir REI á grundvelli þeirra ársfjórðungslegu áætlana og breytinga á þeim sem kveðið er á um í ákvæði 4.2 ... Á meðan samningur þessi er í gildi skuldbindur OR sig til að veita ekki öðrum en REI þjónustuna, svo sem hún er skilgreind í Viðauka I.”

Margar fleiri skuldbindingar voru lagðar á Orkuveituna í þessum fyrirhugaða 20 ára samningi til að auðvelda einkaaðilum útrásarverkefni á sviði jarðhita um víða veröld með þátttöku Geysis Green Energy þar sem Fl Group var stærsti hluthafinn með 43% eignarhlut. Svandís Svavarsdóttir borgarfulltrúi VG áttaði sig á því að hér var verið að stofna til stórfelldra áhættuviðskipta OR sem almannafyrirtækis. Henni tókst að svipta af hulunni málatilbúnaðinum í tæka tíð og ná samstöðu í borgarstjórn um að kryfja málefni Orkuveitunnar í stýrihópi sem hún veitti forstöðu. Hér verður það mál ekki rakið nánar en vísað til skýrslu stýrihópsins frá 7. febrúar 2008 (sjá m.a. Mbl. 8. febrúar 2008, s. 30–31) og síðar framkominna gagna. Öldugangsins frá þessu máli gætir enn og  það hefur þegar haft víðtækar pólitískar afleiðingar.

 

Viðbrögð Morgunblaðsins
Ritstjóri Morgunblaðsins skrifar tvo gagnorða leiðara um orkumál 22. maí sl. (Nýting auðlinda) og 23. maí (Eftirspurn og framboð). Þar er vakin athygli á ört hækkandi orkuverði og hvatt til þess að menn fari sér hægt í orkusölu til stóriðju á næstunni. Þess í stað eigi stjórnvöld að fara í stefnumarkandi úttekt í orkumálum „til að öðlast heildarsýn á stöðu okkar og hagsmuni í orkumálum í alþjóðlegu samhengi“ og hleypa einnig stjórnarandstöðunni að því borði. Þá varar blaðið sterklega við þeirri valddreifingu sem orðin er um ákvarðanir í orkumálum “þar sem einkaaðilar og sérstök fyrirtæki í eigu t.d. sveitarfélaga  geta samið sín á milli um byggingu orkuvera og álvera.“ Í síðari leiðaranum segir ritstjórinn orðrétt:

„Þessi vígstaða á orkumarkaðnum [þ.e. hækkandi orkuverð] gerir okkur kleift að huga vel að næstu skrefum. En til þess að svo verði gert þarf ríkisstjórnin að taka ákveðnar lykilákvarðanir. Fyrst og fremst verður hún að setja af stað markvissa vinnu við framtíðarstefnumörkun í auðlindamálum okkar almennt og orkumálum sérstaklega. Slíkri vinnu ætti að ljúka með útgáfu hvítbókar ... Jafnframt þurfa ríkisstjórn og Alþingi að svara þeirri spurningu fyrir sig, hvort sú valddreifing, sem orðin er í orkumálum og nýtingu orkuauðlinda , sé skynsamleg. Er það í raun og veru rétt pólitík að hægt sé að ráðstafa stórum hluta af orkulindum okkar með samningum á sveitarstjórnarstigi? ... Orkan er lykill að velgengni í framtíðinni. Við eigum ekki að bjóða öðrum aðgang að henni fyrr en við höfum gert okkur skýrari grein fyrir því hvaða verðmæti við höfum í höndum.”

Ástæða er til að taka undir þessi orð Morgunblaðsins og óskandi að á þau verði hlustað af núverandi valdhöfum.

Pólitíska staðan
Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur lagt ríka áherslu á að afstaða sé tekin til verndunar jarðhitasvæða og ekki sé farið með rannsóknaboranir og vegagerð inn á ósröskuð svæði á meðan úttekt samkvæmt Rammaáætlun og skýr afstaða Alþingis til verndunar liggur ekki fyrir. Er þetta til samræmis við afstöðu fulltrúa flokksins í auðlindanefnd. Stefna VG í þessum málum fellur að viðhorfum frjálsra náttúruverndarsamtaka og tengist andófi flokksins gegn stóriðjustefnunni. Á Alþingi hefur Álfheiður Ingadóttir í tvígang flutt tillögu til þingsályktunar um rannsóknir og sjálfbæra nýtingu jarðhitasvæða (13. mál á 135. löggjafarþingi). Eru áðurnefnd erindi Guðna Axelssonar og Sveinbjörns Björnsson fylgiskjöl með tillögu hannar. Jafnframt hefur VG staðið fast á að orkulindir landsins haldist í samfélagslegri eigu og tekist að hafa áhrif á aðra flokka til stuðnings við þá stefnu.
            Sjálfstæðisflokkurinn hefur undanfarið verið í skjóli ráðherra Samfylkingarinnar og áður Framsóknarflokksins í þessum efnum. Sem forystuflokkur í ríkisstjórn er Sjálfstæðisflokkurinn samábyrgur samstarfsflokkum sínum fyrir stóriðjustefnunni. Það á ekki síður við um sveitarstjórnarstigið á öllum þeim stöðum þar sem álver eru á teikniborðinu, m.a. í Reykjanesbæ undir forystu Árna Sigfússonar.
            Höfuðábyrgðina  á orkusviði ber nú Samfylkingin með umhverfis- og iðnaðarráðherra í ríkisstjórn. Ráðherrar og forysta flokksins feta um margt dyggilega slóð Framsóknarflokksins. Þetta endurspeglast m.a. í  breytingu nú við lok vorþings á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu þar sem iðnaðarráðherra afsalar sér leyfisveitingavaldi til Orkustofnunar. Er þar kópíeruð stefna Valgerðar Sverrisdóttur og Jóns Sigurðssonar sem iðnaðarráðherra. Í hlutverki stjórnarandstöðuflokks undir forystu Guðna Ágústssonar hefur Framsókn í engu breytt um stefnuáherslur frá því sem var í ríkisstjórnartíð flokksins 1995-2007 og þingmenn hans gagnrýna þá sem nú hafa völdin fyrir að vera ekki nógu einbeittir í stóriðjusókninni.
            Samkvæmt stjórnarsáttmála gerir ríkisstjórnin ráð fyrir að lokið verði áfanga II í Rammaáætlun á næsta ári og Alþingi fái þá álitið til meðferðar og skilið verði á milli feigs og ófeigs, m.a. lögfest hvaða jarðhitasvæði skuli vernda til frambúðar og á hverjum skuli heilmila að reistar verði virkjanir. Einnig um þetta er meginábyrgðin Samfylkingarinnar, en fyrrverandi þingmaður flokksins, Svanfríður Jónasdóttir, hefur nú á hendi forystu um vinnu að Rammaáætlun. Að mati undirritaðs ætlar ríkisstjórnin alltof stuttan tíma til uppgjörs í þessum efnum og er augljóst að það mun bitna á gæðum forvinnu og þeirra tillagna sem líta eiga dagsins ljós eftir rúmt ár.
Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið reynir nú sem fyrr á afl þeirra sem standa vilja vörð um sjálfbæra þróun íslenskrar náttúru og þar með um raunveruleg lífsgæði í þessu landi til frambúðar.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim