Hjörleifur Guttormsson 6. júní 2008

Viðbrögð stjórnvalda í Noregi við hlerunum
Birtist sem grein í Morgunblaðinu 6. júní 2008

Greinar Kjartans Ólafssonar um símahleranir á 32 heimilum hérlendis á árunum 1949–1968 hafa vakið verðskuldaða athygli og ekki síður viðbrögð Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra við tilmælum Kjartans um afsökunarbeiðni af hálfu stjórnvalda. Þarflaust er að endurtaka hér það sem fram hefur komið að þessu leyti. Hinsvegar leiða þær hleranir sem staðfest er að fóru fram hérlendis, m.a. á heimasímum níu starfandi alþingismanna, hugann að því sem gerðist annars staðar á Norðurlöndum á eftirstríðsárunum, m.a. í Noregi og Svíþjóð. Í báðum þessum löndum var loks staðfest á tíunda áratugnum að fram hefðu farið afar umfangsmiklar persónunjósnir, margar hverjar í trássi við lög og rétt. Leiddu þær í Noregi til skarpra viðbragða af hálfu Stórþingsins og afsökunarbeiðni af hálfu norska dómsmálaráðherrans gagnvart þolendum.

Skýrsla Lund-nefndarinnar
Stórþingið brást við 1. febrúar 1994 með því að setja á fót sérstaka rannsóknarnefnd, sem kennd var við formanninn Ketil Lund hæstaréttardómara. Fékk hún viðamiklar heimildir til könnunar og yfirheyrslu stjórnvalda og einstaklinga. Niðurstaðan, Lund-rapporten upp á röskar 1000 blaðsíður, kom út 28. mars 1996 og olli pólitískum landskjálfta.
Með Lund-skýrslunni var staðfest að norsk lögregluyfirvöld, studd af ríkisstjórn, réttarkerfi og forystumönnum í Verkamannaflokki og verkalýðshreyfingu hefðu njósnað um tugþúsundir norskra einstaklinga frá stríðslokum og a.m.k. fram til 1987. Á árinu 1964 voru færslur yfir einstaklinga um 20 þúsund en voru komnar yfir 40 þúsund á árinu 1978. Beindist upplýsingasöfnun lögreglu að pólitískum andstæðingum þáverandi valdamanna, upphaflega  fyrst og fremst að kommúnistum og meintum stuðningsmönnum þeirra en síðar og fram yfir 1970 einnig að meðlimum Sosialistisk folkeparti og arftaka hans Sosialistisk venstreparti. Á 8. áratugnum bættust svo við ýmsir andstöðuhópar (SUF og AKP). Auk hlerunar á einstaklingum var njósnað á flokksskrifstofum og fundum stjórnmálaflokka, einnig á landsbyggðinni. Jafnvel í sumarbústöðum var komið fyrir hlerunarbúnaði.
Lund-nefndin gagnrýndi harðlega framgöngu norsku leyniþjónustunnar, forystu Verkamannaflokksins og eftirlitsnefnda sem vanrækt hefðu hlutverk sitt. Einnig hefði réttarkerfið gersamlega brugðist í eftirliti sínu, m.a. þegar beiðnir bárust frá lögreglu um heimild til símhlerana. Fram til 1960 þurfti ekki slíka heimild dómara (rettslig kjennelse), en eftir það var fallist nánast á allar beiðnir lögreglu til símhlerana og oft áttu sömu dómarar hlut að máli. – Í tengslum við skýrslu Lund-nefndarinnar var dómsmálaráðherrann Grete Faremo árið 1996 knúin til afsagnar.

Skörp viðbrögð Stórþingsins
Viðbrögð Stórþingsins voru ákveðin, þótt ýmsir gengju haltir til leiks. Samþykkt voru árið 1999 lög (innsynslov) þess efnis að þeir sem teldu sig með órétti hafa orðið þolendur hlerana og annarra njósna fengju að sjá öll gögn sér viðkomandi og gætu átt kost á fébótum samkvæmt mati. Þegar „innsýns-nefndin“  lauk störfum í árslok 2007 höfðu henni borist hátt í 13 þúsund beiðnir einstaklinga um að sjá hugsanleg hlerunargögn og í nær 40% tilvika fundust slíkar skrár. Greiddar voru samkvæmt úrskurði nefndarinnar fébætur til 379 einstaklinga, alls röskar 11 miljónir norskra króna.
Þá setti Stórþingið árið 1995 á fót sérstaka eftirlitsnefnd með norskum leyniþjónustum innan hers og lögreglu (EOS-utvalget) og gefur hún þinginu árlega skýrslu um störf sín og athuganir, sem m.a. varða forsendur dómara fyrir að heimila símhleranir. Í skýrslu sinni fyrir árið 1996 fann nefndin að því að leyniþjónustan hafi sent dómurum „uppkast“ að úrskurðum og forsendum fyrir leyfi til hlerunar.

Ráðherra bað þolendur afsökunar
Spurningin um afsagnarbeiðni stjórnvalda gagnvart þolendum hlerana og annarra persónunjósna brann á mönnum í Noregi ekki síður en hérlendis af svipuðu tilefni. Sérstök samtök, Organisasjonen mot politisk overvåking (OPO), voru stofnuð af einstaklingum með það að markmiði að leita eftir uppreisn æru og afsökun af hálfu norskra stjórnvalda. Við umræðu í Stórþinginu um ársskýrslu EOS-eftirlitsnefndarinnar 19. maí 2005 vísaði Modulf Aukan, þingmaður Kristeleg folkeparti, orðrétt til bréfs frá Odd Einar Dørum dómsmálaráðherra til OPO-samtakanna þar sem ráðherrann sagði m.a. eftirfarandi:

„Í nafni ráðuneytisins vil ég bera fram afsökun gagnvart þeim einstaklingum sem fyrrum hafa sætt óréttmætum njósnum af Leyniþjónustu lögreglunnar [Politiets overvåkingstjeneste].“

Og Modulf Aukan bætti eftirfarandi við svarið til málshefjanda: „Þetta á einnig við um ósk þína að heyra þetta úr ræðustól Stórþingsins. Einnig af minni hálfu er eðlilegt að lýsa okkur andvíga óréttmætum njósnum. Þess vegna vísar Kristeleg Folkeparti til orða dómsmálaráðherrans og vill á sama hátt bera fram afsökun til þeirra sem með órétti máttu þola að um þá væri njósnað.“

Heyrði ég rétt, að von væri á hliðstæðri afsökunarbeiðni íslenskra stjórnvalda vegna fjölskyldnanna þrjátíu og tveggja?Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim