Hjörleifur Guttormsson 6. júlí 2008

Skuggalegar spár um loftslagsbreytingar

Á síðustu mánuðum hafa komið fram margar nýjar rannsóknaniðurstöður og spár sem benda til að loftslagsbreytingar af mannavöldum gerist mun hraðar en áður var talið. Stjórnmálamenn og almenningur hafa ekki undan að taka við þessum boðskap og áætlanir um viðbrögð úreldast hratt. Leiðtogar stærstu átta iðnríkjanna, G-8 hópurinn, koma saman í Japan nú eftir helgina og loftslagsmálin verða ásamt efnahagskreppunni og olíverðshækkunum helsta umræðuefnið. Þegar hópurinn hittist fyrir ári varð það lengst komist með Bush forseta að hann féllst á orðalag um að „taka til alvarlegrar íhugunar“ það markmið að skera niður losun gróðurhúslofts um 50% fram til ársins 2050. Nú ná bjartsýnustu vonir ekki lengra en svo að gerð verði áætlun um að skera losun niður um helming á heimsvísu fyrir miðja öldina og ef til vill um einhverja tímasetta áfanga á þeirri leið.

Stern-skýrslan úrelt
Fyrir tveimur árum varð mikil umræða um skýrslu breska hagfræðingsins Nicholas Stern um efnahagslegar afleiðingar hlýnunar. Stern vann þessa skýrslu fyrir bresku ríkisstjórnina en áður starfaði hann sem aðalhagfræðingur Alþjóðabankans. Niðurstaða hans var að það margborgaði sig að berjast við hlýnun af mannavöldum miðað við afleiðingar þess að sitja með hendur í skauti. Taldi hann kostnaðinn við að stöðva hlýnun við 2°C líkt og ESB hefur sett fram sem markmið næmi 1% af vergri landsframleiðslu þjóða heims en aftur á móti 5–20% að aðhafast ekkert. Þetta þótti mörgum hár herkostnaður í glímunni við loftslagsvandann. Nú tveimur árum síðar er Stern hins vegar þeirrar skoðunar í ljósi nýrra upplýsinga að hann hafi vanáætlað kostnaðinn um helming og þurfi nú 2% af VÞF jarðarbúa ef umrætt markmið eigi að nást. Bretar þurfi t.d. að skera niður losun um 80% fyrir miðja öldina og Bandaríkin um 90%. Hætt er við að sá biti muni standa í Bush þegar á reynir í Japan eftir helgina. Telja þó ýmsir að enn sé um verulega vanáætlun að ræða hjá Stern og ekki dugi minna en 80-90% niðurskurður í losun á heimsvísu fram til 2050 til að stöðva sig af við 2°C hlýnun.

Sérhagsmunir og skammtímagróði
Annar þekktur maður úr loftslagsumræðunni, James Hansen yfirmaður Godard-stofnunarinnar hjá NASA, hefur kvatt sér hljóðs. Fyrir 20 árum kvað hann upp úr um það fyrir bandarískri þingnefnd að lofthjúpurinn sé að hlýna af mannavöldum. Þótti sú einfalda staðreynd þá harður og róttækur boðskapur á þeim vettvangi. Nú nýlega staðhæfði Hansen á sama vettvangi að kollsteypu megi vænta að óbreyttu í lofthjúpi jarðar, sjávarborð kunni að hækka um tvo metra fram að næstu aldamótum og hundruð milljóna manna flosna upp úr heimkynnum sínum. Hann hvetur til mjög róttækra aðgerða sem fyrst, banna kolaorkuver í áföngum fram til 2030 og leggja á kolefnisskatt. Fyrr en seinna þurfi að hætta að nota olíu og gas sem orkugjafa og þróa þess í stað kolefnisfrítt og sjálfbært eldsneyti. James Hansen fer hörðum orðum um þá sem viljandi stinga höfðinu í sandinn eins og forráðamenn olíufélaganna og stjórnmálamenn sem neita að horfast í augu við aðsteðjandi vá. Skipulega var reynt á árum áður að þagga niður í Hansen innan NASA en síðan hefur  þeim fjölgað ört sem taka álíka djúpt í árinni.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim