Hjörleifur Guttormsson 6. ágúst 2008

Stóriðjuáform: Sameiginlegt mat markar tímamót

Ástæða er til að fagna þeirri niðurstöðu umhverfisráðherra að úrskurða í vil kæru Landverndar um að meta beri sameiginlega ráðgerðar stóriðjuframkvæmdir á Norðurlandi eystra. Úrskurður ráðuneytisins frá 31. júlí 2008 er vandlega unninn og vel rökstuddur  og með honum er stigið löngu tímabært skref um að meta sameiginlega umhverfisáhrif stóriðjuframkvæmda. Ráðuneytið telur að augljós ávinningur af sameiginlegu heildarmati stóriðjuframkvæmda geri nauðsynlegt að beita umræddu heimildarákvæði, þ.e. 2. málsgrein 5. greinar laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í þessu sambandi vísar ráðuneytið einnig til 1. greinar laganna um að tryggja skuli samvinnu framkvæmdaraðila og kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif og fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir.

Margoft verið krafist sameiginlegs mats
Rétt er að rifja upp að margoft hefur verið gerð krafa um slíkt sameiginlegt mat við stóriðjuframkvæmdir án þess að á slíkt hafi verið fallist af stjórnvöldum. Þannig gerði sá sem þetta skrifar kröfu um það árið 1996 vegna mats á framkvæmdum vegna álsvers á Grundartanga að saman yrðu metnar framkvæmdir við verksmiðjuna, orkuöflun vegna hennar og raflínur. Þessu hafnaði þáverandi umhverfisráðherra Guðmundur Bjarnason og var oft til úrskurðar hans vitnað síðan.
Við endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum árið 2005 var tekið inn ofangreint heimildarákvæði svohljóðandi:

„Í þeim tilvikum þegar fleiri en ein matsskyld framkvæmd eru fyrirhugaðar á sama svæði eða framkvæmdirnar eru háðar hver annarri getur Skipulagsstofnun að höfðu samráði við viðkomandi framkvæmdaraðila og leyfisveitendur ákveðið að umhverfisáhrif þeirra skuli metin sameiginlega.“

Landvernd lét reyna á þetta ákvæði haustið 2007 með kæru til umhverfisráðherra vegna mats á umhverfisáhrifum álversins í Helguvík og tengdra framkvæmda, en úrskurður ráðuneytisins 3. apríl 2008 féll á annan veg en nú. Bar ráðneytið því þá við að þegar hefði farið fram mat á álveri í Helguvík og vísaði jafnframt til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.

Veikleikar hjá umhverfisráðherra
Ef bornir eru saman ofangreindir úrskurðir kemur í ljós að umhverfisráðuneytið virðist hafa lagt meiri og vandaðri vinnu í síðari úrskurðinn og rökstuðning sinn fyrir honum. Engu er líkara en Skipulagsstofnun hafi 2006, þegar mat á Helguvíkurálveri var á dagskrá, látið hjá líða að taka formlega afstöðu til þess hvort meta skyldi stóriðjuáformin á Reykjanesi sameiginlega og ráðuneytið látið það gott heita. Eftir sat ráðherrann sl. vor með úrskurð sem hún lýsti sig í orði ósammála um leið og hún gaf hann út og hafnaði kröfu Landverndar.
Það vekur jafnframt furðu að nú eftir að umhverfisráðherra hefur tekið sína réttmætu ákvörðun um sameiginlegt mat á stóriðjuframkvæmdunum á Norð-Austurlandi skuli hún vera á flótta undan gagnrýnendum sínum, framkvæmdaraðilunum, samráðherrum og þingmönnum og staðhæfa að ákvörðunin breyti engu í reynd varðandi tíma fyrir matsferlið og niðurstöðu þess. Um það getur að sjálfsögðu enginn fullyrt á þessu stigi en tilgangurinn með mati á umhverfisáhrifum er lögum samkvæmt að leiða líkleg áhrif framkvæmda í ljós með sem skýrustum hætti, að svonefndum núll-kosti meðtöldum. Vel getur svo farið að ákvörðun umhverfisráðherra verði til að draga fram mun skýrar en ella hefði orðið þá fjölmörgu ókosti sem framkvæmdirnar kunni að leiða af sér fyrir umhverfi og samfélag.
             
Stóriðjusinnar sýna á spilin
Sú demba gagnrýni sem dunið hefur á umhverfisráðherra í kjölfar úrskurðarins, ekki síst frá samráðherrum hennar úr Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki, sýnir betur en áður hversu holt er undir orðræðum þeirra um að standa beri vörð um náttúru landsins. Halda mætti af málflutningi þeirra að mat á umhverfisáhrifum og önnur lagafyrirmæli sem lögfest hafa verið í kjölfar Ríó-yfirlýsingarinnar 1992 séu aðeins leiktjöld sem engu eigi að breyta í reynd um niðurstöðu. Efnahagslegi mælikvarðinn eigi einn að gilda, svo götóttur sem hann er, líkt og í tilviki Kárahnjúkavirkjunar. Þá var það umhverfisráðuneytið undir forystu Framsóknarflokksins sem sneri niðurstöðu Skipulagsstofnunar á haus. – Svipað má segja um málflutning ritstjóra Fréttablaðsins sem skrifar nú leiðara eftir leiðara þess efnis að í yfirvofandi efnahagslægð sé það stóriðjan ein sem sé til bjargar. – Jafnframt láta stóriðjutalsmenn að því liggja að íbúar á Norðausturlandi standi nánast á öndinni af óþoli eftir bið á gleðigjafanum á Bakka. Sannleikurinn er sá að þar nyrðra eins og á Austurlandi  og annars staðar eru skoðanir mjög skiptar þegar stóriðjan er annars vegar.

Skapar fordæmi og viðspyrnu
Úrskurður umhverfisráðherra um sameiginlegt mat stóriðjuframkvæmda markar ákveðin tímamót. Héðan í frá verður að óbreyttum lögum ekki ráðist í slíkar framkvæmdir án þess fyrir liggi sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum verksmiðju, nýrrar orkuöflunar og raflína  í hennar þágu eins og öll rök standa til.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim