Hjörleifur Guttormsson 6. nóvember 2008

Athugsemdir við matsáætlun álvers við Húsavík
Sendar til Skipulagsstofnunar og Alcoa

  1. Stærð álvers. Fyrir liggur að stærð samkeppnishæfra álvera verður ekki undir 500–600 þúsund tonnum til framtíðar litið. Ábyrgðarlaust er að leggja til grundvallar mati á umhverfisáhrifum stærð sem liggur langt undir þeim mörkum og takmarka hugmyndir um orkuöflun við slíka lágmarksstærð. Íslandi og Norðurþingi kann innan nokkurs tíma að verða stillt upp fyrir kröfum um stækkun álversins og frekari orkuöflun í þess þágu, en ella kunni starfsemi þess að verða hætt. Slíkt er óviðunandi staða fyrir landið sem heild og viðkomandi svæði.
  2. Nýtt aðalskipulag vantar. Ekki er skynsamlegt að fara út í matsferli það sem hér um ræðir án þess að áður liggi fyrir tillögur að nýju aðalskipulagi fyrir sveitarfélagið Norðurþing.
  3. Jarðskjálftavá. Fyrirhugað álver er staðsett á einu mesta jarðskjálftasvæði hérlendis þar sem endurtekið hafa orðið jarðskjálftar a.m.k. 6,5 stig á Richter á sögulegum tíma. Afar óráðlegt er að hugsa sér að staðsetja álver við slíkar aðstæður þar sem viðbúið er að til stórskemmda geti komið hvenær sem er á mannvirkjum með framleiðslustöðvunum. Einkennilegt er ef fyrirtæki eins og Alcoa hyggst hætta til fjármagni í svo ótrygga fjárfestingu. Framleiðslustöðvun í álveri um lengri eða skemmri tíma fylgir ekki síður stórfelld félagsleg áhætta fyrir íbúa í Norðurþingi.
  4. Hafíshætta. Þrátt fyrir almennt hlýnandi loftslag á norðurslóðum má búast við að hafís geti lagst að Norðurlandi og stöðvað siglingar um lengri eða skemmri tíma á næstu árum og aratugum og hindrað þar með flutning á aðföngum til álvers norðanlands. Hafís eykur jafnframt hættu á sjóslysum með mengunarhættu og tjóni á lífríki á viðkomandi hafsvæðum og nálægum ströndum.
  5. Mengunaráhrif og þriggja þrepa hreinsun. Ekkert liggur fyrir í einstökum atriðum um mengunarvarnir, þar á meðal hvort beita eigi vothreinsun til viðbótar við þurrhreinsun, sem dregið gæti úr losun mengandi efna frá verksmiðjunni, m.a. varðandi flúor og ekki síst brennisteinsdíoxíð. Vothreinsun ætti að fylgja sérstök viðbótarhreinsun á skolvatni til að draga úr og útiloka skaðlega PAH-mengun í sjó. – Tortryggilegt er að Alcoa hefur lýst þeirri stefnu fyrirtækisins að nota ekki vothreinsun. Þannig kom í ljós í matsferli vegna verkmiðju Alcoa-Fjarðaáls að engin alvara var að baki orða um að kanna kosti vothreinsunar í viðbót við þurrhreinsun.
  6. Þynningarsvæði. Ekkert liggur fyrir um stærð þynningarsvæðis með eða án vothreinsunar og þar með líkleg áhrif á starfsemi í nágrenni álvers á Bakka, þar á meðal landbúnaðarnot.
  7. Eignarnám. Spyrja verður hvort fyrir liggi afstaða stjórnvalda til hugsanlegs eignarnáms á bújörðum í grennd álversins þar sem landbúnaðarnotum kynni að verða stefnt í tvísýnu.
  8. Losun gróðurhúsalofttegunda. Skýrt verður að koma fram hvort Alcoa sé reiðubúið til að kaupa kvóta vegna losunar gróðurhúsalofts þannig að slík losun liggi utan við samningsskuldbindingar Íslands í tengslum við loftslagssamning SÞ og bókanir honum tengdar nú og eftirleiðis.
  9. Einhæfni í útflutningsframleiðslu. Með uppbyggingu álvers á vegum Alcoa á Bakka við Húsavík, til viðbótar við álver sama fyrirtækis á Reyðarfirði, er stefnt að stóraukinni einsleitni í atvinnustarfsemi í þessum landshlutum og jafnframt í íslenskum þjóðarbúskap. Nauðsynlegt er að í matsskýrslu sé fjallað um þá áhættu sem með þessu væri tekin, m.a. vegna alþekktra sveiflna í álverði og tengingar við orkusölu  íslenskra fyrirtækja til álversins.
  10. Ímynd nærumhverfis. Meta þarf áhrif álvers á Bakka á ímynd nærumhverfis, þar á meðal fyrir ferðaþjónustu, og á austanvert Norðurland og Ísland sem heild.
  11. Orkuverð. Upplýsa verður hvaða orkuverð Alcoa sé reiðubúið að greiða vegna álframleiðslu á Bakka. Fram hefur komið nýlega á heimasíðu Alcoa, þar sem sagt er frá ráðgerðu matsferli, að „orkuverð mun hafa úrslitaþýðingu varðandi byggingu og stærð álversins.“
  12. Sameiginlegt mat. Ekki liggur fyrir hvernig tryggt verði að það matsferli sem Alcoa hefur kynnt og nú er hafið falli að sameiginlegu mati skv. úrskurði umhverfisráðuneytisins, með vísan til 5. gr. laga nr. 74/2005.

 

Auk þess sem að ofan greinir er það skoðun undirritaðs að ekki sé rétt, í ljósi margháttaðrar óvissu um forsendur álvers á Bakka og orkuöflunar í þess þágu svo og aðstæðna í íslensku efnahagslífi, að hefja nú mat á umhverfisáhrifum umrædds álvers á Bakka.

Undirritaður áskilur sér allan rétt til frekari athugasemda í því matsferli sem hafið er vegna álvers á Bakka við Húsavík.
Virðingarfyllst
Hjörleifur Guttormsson



 

 

 


Til baka | | Heim