Vatnajökulsþjóðgarður – til hamingju
Birtist sem grein í Fréttablaðinu 7. júní 2008
Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs nú á þessum degi er viðburður sem lengi verður minnst. Hugmyndin um þennan stærsta þjóðgarð Evrópu óx upp úr miklum átökum um stjórnsýslu og skipulag miðhálendisins á síðasta áratug liðinnar aldar. Á árunum 1998–1999 fjallaði Alþingi um tillögu að fjórum þjóðgörðum á miðhálendinu með stóru jöklana sem kjarna. Umhverfisnefnd Alþingis sameinaðist um ályktun um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs sem allir viðstaddir þingmenn samþykktu. Umhverfisráðuneytið hefur fylgt málinu markvisst eftir og fjölmargir komið að undirbúningi, m.a. nefnd skipuð fulltrúum þingflokka og sérstök ráðgjafanefnd.
Rúmt ár er síðan lög voru sett um þjóðgarðinn og ákveðið var stjórnarfyrirkomulag hans. Vatnajökulsþjóðgarður er sérstök ríkisstofnun og yfir honum er sjö manna stjórn auk fjögurra svæðisráða. Þannig koma yfir 30 manns að stjórnun garðsins auk sex þjóðgarðsvarða og fjölda landvarða. Sýnir þetta með öðru hversu stórt málið er í sniðum. Innan Vatnajökulsþjóðgarðs verða brátt um 15% af flatarmáli landsins, þar með taldir þjóðgarðarnir í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum. Stofnkostnaður vegna nýrra gestastofa og annarrar aðstöðu fyrstu fjögur árin er áætlaður 1150 mkr.
Fremsta markmið með stofnun þjóðgarðsins er verndun náttúru og menningarminja innan hans. Það fellur í hlut stjórnenda að útfæra þá stefnu með verndaráætlun „í samræmi við alþjóðlegar viðmiðanir um þjóðgarða og friðlýst svæði.” Jafnframt á að auðvelda almenningi aðgengi að svæðinu án þess að náttúra þess spillist. Hér er því á ferðinni metnaðarfyllsta verkefni í náttúruvernd hérlendis hingað til og jafnframt stórmál í þjóðhagslegu tilliti. Gangi allt að óskum mun fyrr en varir fjölga hliðstæðum þjóðgörðum á miðhálendinu.
Hjörleifur Guttormsson |