Hjörleifur Guttormsson 14. apríl 2008

Úrbætur í kortagerð og skráningu örnefna  
Birtist í Lesbók Morgunblaðsins 12. apríl 2008

Íslendingar búa enn við það að eiga ekki aðgang að nákvæmum og öruggum uppdráttum af landi sínu. Landmælingar og grunnkortagerð hafa ekki verið forgangsverkefni af opinberri hálfu síðustu áratugi og örnefnasetning á uppdráttum er í þannig ástandi að engu er þar að treysta. Landmælingum Íslands er lögum samkvæmt ætlað að hafa frumkvæði að notkun staðla á sviði landupplýsinga og viðhalda og miðla upplýsingum, svonefndum stafrænum þekjum, um einstaka þætti kortagerðar, þar á meðal um vatnafar, örnefni, hæðarlínur og hæðarpunkta. Grunnkortin eru ætluð til nota í margvíslegu samhengi, þar á meðal til afleiddrar kortaútgáfu, svo sem ferða- og göngukorta. Landmælingar selja aðgang að viðkomandi gögnum.  Eftir hálfrar aldar starfsemi Landmælinga 1956 til 2006 var lögum breytt þannig að stofnunin var dregin út af svonefndum samkeppnismarkaði og hætti gerð og sölu korta sem síðan er að mestu á hendi einkaaðila. Mál og menning hafði þá í um áratug staðið að kortaútgáfu fyrir almennan markað og undir merki Edduútgáfu var á árinu 2006 gefinn út svonefndur Íslandsatlas í mælikvarðanum 1 : 100 000. Voru þá liðin 62 ár frá heildarútgáfu dönsku kortanna í sama mælikvarða en þau eru enn í dag kennd við herforingjaráðið danska. Fyrirtækið Iðnmennt hreppti eftir útboði korta- og geisladiskalager Landmælinga og stendur að sölu viðkomandi gagna. Eftir sem áður byggja þeir sem að kortaútgáfu standa að meginhluta á gögnum frá Landmælingum, en auka þó við einstaka þætti, oft án þess að vitna til heimilda eða gera grein fyrir nýmælum. Þetta á m.a. við um örnefni, en það er sá þáttur sem hér verður einkum gerður að umtalsefni.
            Hér er ekki vettvangur til að tíunda fjölmargar villur sem víða blasa við í örnefnasetningu á uppdráttum. Læt ég nægja að sýna þrjú dæmi sem eru uppdrættir af skaganum milli Héraðsflóa og Vopnafjarðar. Einn er tekinn af atlaskorti Landmælinga, annar úr Íslandsatlas Edduútgáfu og sá þriðji úr árbók Ferðafélags Íslands 2008. Geta menn þar reynt að lesa í málið með samanburði.

Smelltu á myndina til að sjá fulla stærð
Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu

Fyrstu heildstæðu kortin af Íslandi
Notendur leita margvíslegra upplýsinga af landabréfum. Rýni í örnefni er þó líklega það sem sameinar flesta og í fjallgöngum horfa menn á hæðarlínur og tölur um hæð fjalla. Fyrstu örnefnafærsluna sem tók til alls landsins er að finna á uppdráttum Björns Gunnlaugssonar sem gefnir voru út um 1848 og komust í margra hendur. Var gerð þeirra og útgáfa stórvirki við þeirrar tíðar aðstæður. Við setningu örnefna á kort Björns var m.a. stuðst við svör presta og sýslumanna  við spurningum Bókmenntafélagsins frá því um 1840 af tilefni Íslandslýsingar sem Jónas Hallgrímsson þá vann að en náði ekki að ljúka. Upphaflega var ætlunin að gefa út kort af hverri sýslu en vegna kostnaðar var þeim fækkað í alls fjögur blöð og við það varð að fella niður fjölda örnefna. Síðar kom út að frumkvæði Olsens kortagerðarmanns einfaldari og ódýrari uppdráttur af landinu í helmingi minni mælikvarða og með færri nöfnum. Val og frágangur örnefna á upphaflegu kortin kom í hlut Jóns Sigurðssonar forseta, sem þá var ritari Kaupmannahafnardeildar Bókmenntafélagsins. Þótti hann leysa þetta verk af hendi með mikilli prýði. Einstaka örnefni sem þar má sjá orka þó tvímælis og eru ekki í samræmi við sóknalýsingar heimamanna. Hafa sum hver fylgt uppdráttum af landinu fram á okkar daga. Dæmi um slíkt af Austurlandi er Kollumúli (Kolmúli), Heydalir (Eydalir) og Kistufell (Kjalfjall). Það er þó fyrst með útgáfu herforingjaráðskortanna á fyrstu áratugum 20. aldar að rúm skapast fyrir allþétta færslu örnefna en víða var ekki vandað til hennar sem skyldi. Réði eflaust miklu ókunnugleiki ýmissa íslenskra aðstoðarmanna dönsku landmælingamannanna og að alþýða manna sem til var leitað um upplýsingar þekkti lítið sem ekkert til landfræðilegra uppdrátta. Niðurstaðan varð víða röng staðsetning örnefna svo miklu gat munað, ritvillur og á stöku stað nöfn sem enginn vildi við kannast. Íslenskar nafnhefðir eins og tvínefni á dölum eftir landareign sín hvorum megin ár (Múladalur-Geithelladalur) lutu víða í lægra haldi sem og framburður sem stangaðist á við skólalærdóm eða málhreinsunaráráttu þess tíma (t.d. hellrar og mell). Voru skólagengnir manna drýgstir við að hreinsa burt slíka meinta hnökra úr alþýðumáli. Annars voru herforingjaráðskortin afar vel gerð og læsileg þannig að tæpast hefur verið bætt um betur. Íslandsatlas Edduútgáfu er einnig vel heppnaður hvað áferð og túlkun landslags snertir, en einnig þar er örnefnafærslu víða ábótavant.

Örnefnaþátturinn útundan
Á ferðum mínum í hálfa öld, einkum um landið austanvert, hef ég sem áhugasamur notandi kynnst kortum Landmælinga, haft af þeim mikið gagn en jafnframt komist að raun um marga ágalla. Þetta á m.a. við um ýmsar breytingar á yfirborði landsins sem ekki hafa verið mældar og leiðréttar við endurútgáfu kortanna. Augljósast er þetta þegar um er að ræða breytingar á útlínum jökla, en góð atrenna var gerð til úrbóta í þeim efnum eftir forsögn Odds Sigurðssonar við útgáfu á Íslandsatlas Eddu. Smám saman komst ég að raun um að örnefnasetningu er ekki að treysta þar eð mikið ber stundum á milli örnefna á kortunum og veruleikans eins og hann blasir við á vettvangi og samkvæmt tiltækum heimildum. Þessu er þó misjafnlega varið á einstökum atlasblöðum (mælikvarði 1 : 100 000), á sumum eru örnefni nærri réttu lagi en á öðrum geta villur skipt tugum og þaðan af meira ef allt var talið. Tiltekið er á kortblöðum Landmælinga hvenær þau síðast voru endurskoðuð með tilliti til örnefna og fleiri þátta og með samanburði á mismunandi útgáfum má sums staðar sjá endurbætur og leiðréttingar. Þó skortir mikið á að örnefnafærslur séu í lagi á heildina litið og tilviljanakennt virðist hvernig að leiðréttingum hefur verið staðið. Athygli vekur líka örnefnafæð á stórum svæðum, ekki síst á hálendinu, þótt af nógu sé að taka.

Vannýttar heimildir
Örnefnastofnun var sett á fót 1969 sem deild í Þjóðminjasafninu, en var í raun sjálfstæð stofnun með eigin fjárhag. Henni var síðan breytt í sjálfstæða stofnun með sérstökum lögum 1998 en sameinuð fleiri stofnunum á árinu 2006. Nú heitir hún samkvæmt skipuriti Nafnfræðisvið en í daglegu tali Örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Er sú nafngift með ólíkindum óþjál og hefur þegar kallað fram skammstafanir sem hvarvetna ríða nú húsum. Örnefnasafnið hefur nýlega fengið aðsetur að Neshaga 16 í Reykjavík. Frá því um 1910, löngu fyrir daga Örnefnastofnunar höfðu ýmsir gert atrennu að söfnun örnefna og komu þar m.a. við sögu Fornleifafélagið, ungmennafélög og Þjóðminjasafn Íslands. Þrátt fyrir afar naumar fjárveitingar til þessara mála hefur skipulega verið safnað örnefnum af mestöllu landinu og eru þau flokkuð eftir jörðum en einnig eru slíkar skrár til yfir afréttir og einstök hálendissvæði. Þótt skrár þessar séu afar misjafnar að gæðum og sumar lítið meira en nafnarunur er í þeim að finna ómetanlegan fróðleik á heildina litið og stöðugt er reynt að auka þar við. Þessi mikli heimildabanki hefur hins vegar ekki verið nýttur sem skyldi við kortagerð. Þannig hafa tengsl Örnefnastofnunar við Landmælingar Íslands lengst af verið takmörkuð þótt reynt hafi verið að bæta þar úr með sérstökum samstarfssamningi um örnefnamál á árinu 2001. Átti undirritaður óbeinan þátt í að leiða þessar stofnanir saman. Nýlega hefur þessi samningur verið endurnýjaður og lagaður að breyttu lagaumhverfi. Verkefni Landmælinga og Örnefnasafns skarast á sviði örnefna. Þannig segir í lögunum um Landmælingar frá árinu 2006 að þær skuli viðhalda og miðla upplýsingum um örnefni í samráði við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Um markmið og tilgang með samstarfi stofnananna segir orðrétt í samningnum:

Aðilar eru sammála um að vinna sameiginlega að því markmiði að til verði einhlítur gagnagrunnur um íslensk örnefni sem nýtist öllu samfélaginu og að örnefni séu birt með sem réttustum hætti. Sérstök áhersla verður lögð á að samræmis verði gætt í því hvernig örnefni eru skráð og hvernig gögnum og upplýsingum um þau er miðlað til samfélagsins.

Eftir að kortaútgáfa færðist alfarið yfir á almennan markað fæ ég ekki séð að það sé lengur í verkahring opinberra aðila að segja fyrir um örnefnasetningu  á uppdráttum að öðru leyti en því sem kveðið er á um í lögum um bæjanöfn o.fl. nr. 35/1953. Útgefendum landabréfa virðist líka í sjálfsvald sett hvort og hvernig þeir nýta sér gagnagrunn og þekjur Landmælinga. Þetta kæmi kannski ekki að sök ef festa hefði skapast í færslu örnefna vítt og breitt um landið og opinber gögn, þar á meðal í Örnefnasafni, væru almennt aðgengileg í stafrænu formi. Því er hins vegar ekki að heilsa nema í takmörkuðum mæli og örnefnaþekja Landmælinga er óáreiðanleg og ýmsum annmörkum háð. Ástand sem þetta er ekki samboðið menningarþjóð.

Þröngt verksvið örnefnanefndar
Lög um nafnbreytingar og ný nöfn á býlum voru fyrst sett árið 1913 en endurskoðuð sem lög um bæjanöfn o.fl. 1937 og 1953 og síðar breytt nokkrum sinnum. Við endurskoðunina 1937 komu inn lagaákvæði um Örnefnanefnd sem atvinnumálaráðherra hafði að tillögu Geirs Zoëga vegamálastjóra komið á fót árið 1935. Reglugerð um störf örnefnanefndar var síðast sett árið 1999 á grundvelli laganna. Nefndin skal í störfum sínum miða að varðveislu íslensks menningararfs og örnefnavernd. Meðal verkefna hennar er „að úrskurða hvaða örnefni skuli sett á  landakort sem gefin eru út á vegum Landmælinga Íslands eða með leyfi þeirra, sé ágreiningur eða álitamál um það efni“. Lítið mun hafa reynt á þetta tilgreinda verkefni í störfum örnefnanefndar og eftir að Landmælingum var gert að hætta útgáfu landakorta er þessi þáttur orðinn enn rýrari. Athygli vakti deila um örnefnið Hverfjall eða Hverfell í Mývatnssveit sem lyktaði með úrskurði menntamálaráðherra 20. desember 1999 þess efnis að fyrra nafnið skyldi fært á landakort Landmælinga en hið síðara jafnframt sett innan sviga. Undirrituðum er ekki kunnugt um fleiri hliðstæða úrskurði af hálfu nefndarinnar. Nauðsynlegt er að endurskoða reglur um störf nefndarinnar eigi hún að hafa almennu hlutverki að gegna við örnefnasetningu á landabréf.

Vakandi áhugi meðal almennings
Með aukinni útivist og ferðum almennings um landið hefur áhugi á landfræðilegum upplýsingum, ekki síst örnefnum, vaxið til muna. Við þessu hefur verið brugðist af ýmsum, ekki síst áhugafélögum með útgáfu göngukorta og miðlun fræðsluefnis. Ferðafélag Íslands var brautryðjandi í útgáfu slíks efnis auk margvíslegra aðgerða til að auðvelda almenningi ferðir utan alfaraleiða, m.a. með byggingu sæluhúsa. Margir hafa síðan bæst í þann hóp og ferðaþjónusta sem vaxandi atvinnugrein kallar á afþreyingu og miðlun upplýsinga um land og sögu. Að vonum leita menn í sjóð Landmælinga eftir upplýsingum og leyfi fyrir margháttaðri útgáfu. Dapurlegt er til þess að vita að opinberar heimildir skuli þá ekki vera traustar og áreiðanlegar. Ýmsir útgefendur fræðsluefnis og uppdrátta hafa reynt að bregðast við þessu með lagfæringum, m.a. í setningu örnefna; fer þá eftir alúð og færni þeirra sem fyrir slíku standa hvernig til tekst. Í  umferð eru nú fjölmörg og oft ósamhljóða gögn og enn vantar góð kort af ýmsum landsvæðum. Þessi mál komu til umræðu á Búnaðarþingi í marsbyrjun 2008 og ályktaði þingið eftirfarandi:

Búnaðarþing 2008 felur stjórn Bændasamtaka Íslands að miðla þeirri þekkingu til búnaðarsambanda sem til er um hnitsetningu landamerkja og frágang þeirra til þinglýsingar. Þá hvetur þingið sveitarfélög og félög bænda til að gangast fyrir almennri skráningu og varðveislu á örnefnum í samstarfi við Örnefnasafn.

Staðbundin þekking á örnefnum hefur farið ört minnkandi síðustu hálfa öld, bæði með breyttum búskaparháttum og annarri tilhögun en áður var við smölun sauðfjár og fjallskil. Í hvert sinn sem jörð fer í eyði eða skiptir um eigendur er hætta á að vitneskja tapist um örnefni og ekki síður við kaup þéttbýlisbúa á landi til afþreyingar eða annarra óhefðbundinna nota.

Efla þarf nafnfræðirannsóknir
Örugg skráning örnefna er vissulega forgangsmál en samhliða þarf að efla rannsóknir á þeim arfi sem fyrir er og leiðbeina um nýnefni. Fyrsti forstöðumaður Örnefnastofnunar Þjóðminjasafns, Þórhallur Vilmundarson, vakti mikla athygli með örnefnaskýringum, ekki síst með náttúrunafnakenningu sinni. Voru fyrirlestrar hans um það efni fjölsóttir og báru vott um lifandi áhuga almennings. Sáralitlu fé hefur hins vegar verið varið til slíkra rannsókna og sýnist brýnt að taka upp fastar styrkveitingar í þessu skyni og setja á fót rannsóknastöður við Örnefnasafn. Jafnframt þarf að tryggja að farið sé skipulega yfir örnefnaþekju Landmælinga, hún uppfærð og leiðrétt. Úti um land mætti tengja örnefnasöfnun og nafnfræðirannsóknir við stofnanir sem fyrir eru, t.d. héraðsskjalasöfn og náttúrustofur svo og minjaverði á vegum Fornleifaverndar ríkisins. Fornleifaskráning og fornleifarannsóknir sem setið hafa tilfinnanlega á hakanum tengjast nafnfræði með ýmsum hætti. Nafnfræðifélagið var stofnað vorið 2000 sem vettvangur áhugamanna og hefur undir forystu Svavars Sigmundssonar cand. mag. staðið fyrir margháttaðri fræðslu með fyrirlestrum og ferðum til að vekja áhuga á örnefnum og skyldum þáttum. Þessi félagsskapur sem öllum er opinn þyrfti að skjóta rótum sem víðast. Áhugafélög fólks um náttúru- og umhverfisvernd gætu einnig léð þessum málum lið með árangursríkum hætti. Landið, örnefni og saga eru samofin viðfangsefni og taka má undir með Tómasi skáldi Guðmundssyni sem segir í ljóðinu Fjallganga: Landslag yrði lítils virði, ef það héti ekki neitt.


Lög um landmælingar og grunnkortagerð 2006 nr. 103 14. júní.

Íslandsatlas. Hans H. Hansen og Edda útgáfa hf. Reykjavík 2005.

Haraldur Sigurðsson. Kortasaga Íslands frá lokum 16. aldar til 1848. Reykjavík 1978, s. 256- 258.

Lög um Örnefnastofnun Íslands nr. 14/1998.

Lög um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum 2006 nr. 40 12. júní

Samstarfssamningur um örnefnamál frá 4. maí 2007, undirritaður af forstöðumönnum.

Þórhallur Vilmundarson. Nýnefni og örnefnavernd á Íslandi. Grímnir 1, 1980, s. 24–36.

Reglugerð 136/1999 um störf örnefnanefndar.

Sjá m.a.: Þórhallur Vilmundarson. Merkingarþróun staðfræðilegra samnafna í íslenzkum örnefnum. Í: Merking staðfræðilegra samnafna í örnefnum. Ellefta ráðstefna NORNA í Reykjavík 11.–13. ágúst 1983. NORNA-rapporter 28: 47–59. Uppsala.

 



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim