Hjörleifur Guttormsson 17. mars 2008

Undirbúningur smávirkjana í miklum ólestri
Hvert stíflurofið á fætur öðru undanfarin ár.

Mikil umræðan á síðasta ári um málefni Múlavirkjunar á Snæfellsnesi og Fjarðarárvirkjunar eystra varð til þess að þrjú ráðuneyti lögðu saman í starfshóp til að gera úttekt á verkferlum tengdum leyfisveitingum og eftirliti vegna virkjunarframkvæmda. Starfshópurinn skilaði áliti til iðnaðarráðherra, samgönguráðherra og umhverfisráðherra 31. janúar sl. og er það mikill áfellisdómur yfir stjórnsýslu sem tengist málsmeðferð ríkis og sveitarfélaga á þessu sviði. Samkvæmt greiningu starfshópsins eru lög og reglur varðandi leyfisveitingar, byggingu og eftirlit með smávirkjunum eins og gatasigti þar sem eitt rekur sig á annars horn og mikil mildi að ekki hefur hlotist af stórtjón og mannskaðar. Ekki færri en 11 smávirkjanir sem nýlega hafa verið tengdar dreifikerfinu starfa án rekstrarleyfa sem tilskilin eru í raforkulögum. Í engu tilviki náði byggingarleyfi viðkomandi sveitarfélaga til allra þátta virkjunarframkvæmdar og eftirlit með hönnunargögnum og úttektir vegna framkvæmda fóru aðeins fram vegna hluta af hverri framkvæmd. Eftirlit sveitarstjórna með þáttum  sem falla undir framkvæmdaleyfi hefur ekki tekið til hönnunar mannvirkja. Aðeins í undantekningartilvikum hefur Orkustofnun sinnt framkvæmdaeftirliti en talið það vera á verksviði viðkomandi byggingarfulltrúa. Þeir ásamt Skipulagsstofnun hafa hins vegar túkað eftirlitshlutverkið þröngt sem leitt hefur til þess að stór hluti virkjunarframkvæmda, í sumum tilvikum stíflugerð og lagning þrýstivatnspípna, hafa í raun ekki verið háð neinu reglubundnu framkvæmdaeftirliti. – Þetta eru þættir sem blöstu við í tilviki Fjarðarárvirkjunar og undirritaður vakti athygli á í fyrrasumar, fyrir utan það reginhneyksli að sú virkjun var undanþegin mati á umhverfisáhrifum.

Hver stíflan á fætur annarri hefur brostið
Fyrir utan eftirlitslausa umhverfisröskun hefur hvert stíflurofið rekið annað síðustu 3-4 ár auk annarra skemmda á mannvirkjum.

  • Haustið 2004 brast fullgerð stífla í Kerahnjúkavirkjun í Ólafsfirði og fylgdi mikið flóð í Burstabrekkuá sem rauf veg og aðra vatnslögn bæjarins.
  • Í júní 2005 brast í þurrkatíð efri stífla Sandárvirkjunar í Eyvindartungu í Laugardal og hlaust af milljónatjón einnig á stíflu neðar í Sandá. Var mesta mildi að ekki urðu slys á fólki og búfénaði.
  • Þann 20. desember 2006 brast stífla í Djúpadalsvirkjun í Eyjafirði og olli vatnsflaumur tugmilljónatjóni á stíflu og virkjanabúnaði. Mildi var að ekki hlaust af manntjón en búfénaður fórst.
  • Í apríl í fyrra sprakk gamall þrýstivatnsstokkur í Gönguskarðsárvirkjun í Skagafirði og hlaust af eignatjón á lóðum og landi.
  • Litið til áratugarins fyrir aldamót bætast við fleiri slík hrakföll eins og við stíflubrest í Gerðubergslæk í Eyjahreppi á Snæfellsnesi 1992 en minnstu munaði að rúta lenti í því flóði.

Ekki rekur starfshópur ráðuneytanna þessa sögu í áliti sínu og er mönnum kannski vorkunn þar sem viðkomandi stofnanir og ráðuneyti eiga auk sveitarstjórna hlut að máli.

Þarfar ábendingar og krafa um lagabætur
Það er vonum seinna að opinbera kerfið hefur vaknað af dvala sínum áður en meiri ófarnaður hlýst af handahófinu kringum virkjanaframkvæmdir einkaaðila. Starfshópurinn hefur varpað allskýru ljósi yfir sviðið og sett fram tillögur um hert lagaákvæði og samræmd málstök sem mjög hefur skort á. Telur hópurinn að löggjafinn þurfi að taka af öll tvímæli um að virkjunarframkvæmdir í heild falli undir byggingarleyfi og í byggingarreglugerð verði settar reglur um hönnun mannvirkja, skil á gögnum og hæfniskröfur til þeirra sem koma að slíkum framkvæmdum. Einnig þurfi stjórnsýslan að taka sig á  til að tryggja samráð og samvinnu iðnaðarráðuneytis, Orkustofnunar og byggingaryfirvalda í aðdraganda leyfisveitinga og við eftirlit. Reynir nú á löggjafann að taka þessi mál föstum tökum.

Umhverfisáhrifin í þagnargildi
Í umfjöllum starfshópsins skortir á að litið sé gagnrýnið á undirbúning smávirkjana með tilliti til umhverfisáhrifa. Lagaheimildin til að undanskilja virkjanir undir 10 MW að afli mati á umhverfisáhrifum er alltof rúm og Skipulagsstofnun og lögboðnir umsagnaraðilar hafa í mörgum tilvikum ekki unnið heimavinnuna og hleypt framkvæmdum framhjá mati. Aðdragandi Fjarðarárvirkjunar er t.d. lýsandi dæmi um slík axarsköft. Reynslan sýnir að heimaaðilum er oft ekki treystandi til að leggja mat á nærumhverfi þegar meintir fjárhagslegir og atvinnulegir hagsmunir eru annars vegar. – Vonandi læra menn þó af þeirri döpru reynslu sem við blasir af  framkvæmdum í stíl Bakkabræðra við smávirkjanir í öllum landsfjórðungum síðustu ár.

 



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim