Hjörleifur Guttormsson | 17. nóvember 2008 |
Hrikaleg uppgjöf í Icesafe-deilunni Niðurstöðunni sem utanríkisráðherra, formaður Samfylkingarinnar, nú hefur kynnt í deilunni við Evrópusambandið um Icesafe-reikningana verður ekki jafnað við neitt annað en afarkosti. Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í þessu örlagaríka máli hafa verið forkastanleg og bæta gráu ofan á svart. Fullkomin óvissa er um hversu mikið fæst fyrir svonefndar eignir Landsbankans fyrrverandi og vissara að gera ráð fyrir að það verði lítið þegar til kastanna kemur. Óvissuna um þetta staðfesti reyndar Sigurjón fv. bankastjóri í viðtali við Stöð 2. Hér er verið að skrifa upp á reikning sem örugglega nemur hundruðum milljarða og sem fellur á Íslendinga að greiða næstu ár og áratugi. Evrópusambandið hefur sýnt sitt rétta andlit í þessu máli og jafnframt er ljóst hverju fjórfrelsi EES-samningsins er að valda Íslendingum, samningurinn sem Jón Hannibalsson kynnti upp úr 1990 með þeim orðum að hann færði þjóðinni allt fyrir ekkert! Það er sögulegt að á undirskriftardegi þessa Icesafe-víxils hafa Sjálfstæðisflokkur og Framsókn ákveðið að svara innan fárra vikna spurningunni um hvort stefnt skuli að aðild Íslands að Evrópusambandinu. Afarkostirnir sem ESB nú hefur sett Íslendingum ættu að auðvelda þessum flokkum svarið séu þeir ekki með öllu heillum horfnir. Hjörleifur Guttormsson |