Hjörleifur Guttormsson 21. nóvember 2008

Varað við óheftum fjármagnshreyfingum fyrir 18 árum

Geir H. Haarde forsætisráðherra hefur að undanförnu ítrekað bent á EES-samninginn sem undirrót þess að ekki var unnt að koma böndum á útþenslu íslensku bankanna. Í því sambandi er ástæða til að rifja upp eftirfarandi í aðdraganda EES-samningsins.
Vorið 1988 setti Alþingi á fót svonefnda Evrópustefnunefnd sem skipuð var fulltrúum allra þingflokka. Hún fjallaði næstu árin um þróun mála innan ESB (sem þá var skammstafað EB) og um stofnun Evrópsks efnahagssvæðis sem Ísland gerðist aðili að árið 1994. Undirritaður átti sæti í nefndinni sem fulltrúi þingflokks Alþýðubandalagsins meðan hún starfaði fram eftir árinu 1990. Afrakstur af nefndastarfinu birtist í sjö ritlingum sem síðan voru gefnir út af Alþingi sem bók undir heitinu Ísland og Evrópa. Í  maí 1990 kom út bæklingurinn "Áfangaskýrslu til Alþingis" sem hafði m.a. að geyma helstu sameiginlegar niðurstöður nefndarinnar ásamt áliti einstakra nefndarmanna. Þar á meðal var álit mitt undir fyrirsögninni "Íslensk leið í samskiptum við umheiminn."
Þar sagði m.a. um "Óheftar fjármagnshreyfingar og þjónuststarfsemi" sem varð ein af fjórum meginstoðum EES-samningsins:

Óheftir fjármagnsflutningar eru eitt undirstöðuatriði innri markaðar EB sem áformað er að yfirfæra til EFTA-ríkjanna. Ísland hefur sérstöðu að því leyti að hér eru miklar hömlur á þessu sviði. Með þátttöku í EES yrðum við skuldbundin til að aflétta þessum hömlum innan skamms og fórnuðum þannig þeim stjórntækjum í efnahagsstarfsemi sem í þeim felast.

Þótt bent sé á vissa kosti sem fylgt geti fjármagnshreyfingum, tengjast þeim mörg vandamál, ekki síst fyrir litla efnahagsheild eins og þá íslensku. Þannig takmarka óheftar fjármagnshreyfingar verulega möguleikann á að reka sjálfstæða peningastefnu og hafa stjórn á gengi og vöxtum. Niðurstaðan af því að aflétta hömlum af fjármagnshreyfingum gæti að því er Ísland varðar orðið verulegt útstreymi á fjármagni úr landi, auk þeirrar hættu sem tengist spákaupmennsku og undandrætti frá sköttum.

"Frjáls" þjónustustarfsemi varðar m.a. fjármálaþjónustu með óheftum rétti til hvers konar banka- og tryggingastarfsemi, ... Fyrir Ísland gæti "frelsi" á þjónustusviði haft í för með sér miklar breytingar sem m.a. kæmu fram í því að erlendum bönkum yrði leyft að starfa hérlendis með tilheyrandi heimild til fjármagnsflutninga milli landa.

Fyrir liggur að í könnunar- og undirbúningsviðræðum voru engir ákveðnir fyrirvarar gerðir af Íslands hálfu ....  Telja verður með ólíkindum að ekki skuli hafa verið settir skýrir fyrirvarar af Íslands hálfu varðandi samningaviðræður um þjónustu- og fjármagnssviðið.“

Þetta var skrifað fyrir 18 árum. Störf Evrópustefnunefndar þingsins lögðust af eftir að mynduð var samstjórn Alþýðuflokks og Sjálfsstæðisflokks í kjölfar alþingiskosninga vorið 1991 og til varð fyrsta ríkisstjórnin undir forsæti Davíðs Oddssonar. Var EES-samningurinn samþykktur af meirihluta þessara flokka á Alþingi í ársbyrjun 1993. Þar sögðu 33 já, 23 nei og 7 sátu hjá. Síðan hafa margir haft hástemmdar yfirlýsingar um samninginn, þó enginn eins og þáverandi utanríkisráðherra Jón Hannibalsson, sem sá ekkert athugavert við þetta meistarastykki. Hann hafði þau orð um þennan gerning að með honum hefði Ísland fengið ALLT FYRIR EKKERT.

Nú þegar jaðrar við þjóðargjaldþrot í skjóli ákvæða þessa samnings er kannski ástæða til að staldra við og halda ekki lengra en orðið er inn í völundarhús Evrópusambandsins.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim