Grunnfær áróður fyrir ESB-aðild
Birtist sem grein í Fréttablaðinu 22. júní 2008
Áróður margra þeirra sem hvetja til aðildar Íslands að Evrópusambandinu er bæði grunnfær og villandi. Á það jafnt við um innviði ESB og aðferðafræðina ef á aðild yrði látið reyna af Íslands hálfu.
Skilmálarnir liggja á borðinu
Reynt er að telja fólki trú um að útlátalítið sé að sækja um aðild að ESB og meta síðan hvaða kostir bjóðast rétt eins og þegar litið er inn á veitingahús til að skoða matseðillinn. Alltaf megi snúa frá og hvort eð er verði málið afgreitt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sannleikurinn er sá að þeir kostir sem nýjum umsækjendum bjóðast eru fyrirsjáanlegir og þekktir í öllum meginatriðum. Undanþágur til nýrra aðildarríkja geta í besta falli verið fólgnar í tímabundinni aðlögun sem snýst um fáein ár. Ákvörðun um að sækja um aðild jafngildir því yfirlýsingu um að viðkomandi ríki vilji fá inngöngu í sambandið. Þeir hinir sömu munu ekki snúa til baka í miðjum klíðum heldur ljúka verkinu með aðildarsamningi. Fyrir þessu er margföld reynsla, m.a. í tvígang úr samningum Norðmanna við ESB, 1972 og 1994, en í bæði skiptin var það norska þjóðin sem hafnaði gerðum samningum. Á sama hátt er það óráð að ætla sér að breyta stjórnarskrá til að undirbúa fyrirfram það fullveldisafsal sem felst í ESB-aðild, nema þjóðin sé sannfærð um að rétt sé að leita þar inngöngu.
Fjölmargt mælir gegn aðild
Eðlilega hefur forræði yfir sjávarauðlindum borið hátt í umræðum ef til aðildar kæmi. ESB-sinnar hafa haldið því fram að á sjávarútvegssviði ætti að mega ná fram undanþágum frá gildandi reglum. Ekkert marktækt styður slíkar staðhæfingar, og ljóst að ESB áskilur sér úrslitavald á þessu sviði. Óumdeilt er að samningar við þriðju ríki, m.a. um flökkustofna, yrðu í höndum ESB en ekki Íslendinga. Um aðrar náttúruauðlindir gegnir svipuðu máli, þar á meðal varðandi jarðvarma og orku fallvatna á einkalendum.
En fullveldisafsal varðar ekki aðeins forræði yfir náttúruauðlindum þjóðarinnar heldur fjölmörg önnur svið. Í yfirþjóðlegum valdastofnunum ESB, þar sem vægi Íslands yrði hverfandi, eru teknar ákvarðanir um samninga og afstöðu sambandsins sem heildar út á við, þar á meðal um tollamál og fríverslun, umhverfismál og viðskipti. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna færi lítið fyrir rödd Íslands þar eð ESB samræmir þar afstöðu aðildarríkja sinna og talar að jafnaði einni röddu á Allsherjarþinginu og í nefndum þess.
Evrópudómstóllinn með æðsta vald
Þáttur Evrópudómstólsins sem æðsta dómsvalds innan ESB hefur ekki verið dreginn fram sem skyldi. Með úrskurðum sínum sker dómstóllinn ekki aðeins úr deilum heldur mótar um leið grundvallastefnu ESB, m.a. út frá markmiðum sambandsins um aukinn samruna og óheftan innri markað. Þannig er ekki gefið að skilmálar í samningum við ný aðildarríki fái staðist ef á reynir fyrir dómstólnum né heldur túlkanir og tilskipanir framkvæmdastjórnar ESB og annarra valdastofnana innan þess.
Hjörleifur Guttormsson |