Hjörleifur Guttormsson 24. apríl 2008 - sumardagurinn fyrsti

Landbúnaður í skugga hnattvæðingar

Nú um sumarmálin kom út skýrsla (http://www.agassessment.org/) á vegum UNESCO um alþjóðlegt mat á búvísindum og tækni í þágu þróunar (IAASTD). Hún er uppskera af samstarfi um 400 vísindamanna, ríkisstjórna þróaðra og vanþróaðra ríkja og atvinnulífs. Niðurstöðurnar þykja sæta tíðindum þótt ekki ættu þær að koma á óvart. Í skýrslunni er m.a. undirstrikað að í búvísindum beri að taka mið af eftirfarandi:

  • að vernda náttúrulegar auðlindir;
  • að hefja á ný til vegs  búvistfræðilegar aðferðir með lífrænum áburði, hefðbundnu útsæði og með því að stytta leiðir milli framleiðenda og neytenda;

Vaxandi fjöldi fólks er nú háður alþjóðlegu fæðuframboði, þar sem verðlag hefur hækkað gífurlega að undanförnu, t.d. 87% á sojabaunum og 130% fyrir hveiti á síðasta ári. Búist er við að grunnfæðutegundir eins og hrísgrjón, maís og hveiti muni hækka enn frekar í verði á næstunni vegna aukinnar eftirspurnar í ríkjum eins og Indlandi og Kína og vegna notkunar á maís og sojabaunum til íblöndunar og nota í eldsneyti.

Vandi erfðabreytinga og ofnýtingar
Í skýrslunni er fjallað ítarlega um eldsneytisframleiðslu úr gróðri, erfðabreyttar korntegundir, hefðbundinn landbúnað og áhrif loftslagsbreytinga. Talið er brýnt að breyta leikreglum í nútíma landbúnaði. Varað er við hættunni af líftækni í formi erfðabreyttra plantna fyrir þróunarlöndin. Með þeim hefur verið raskað hefðbundum rækturnaraðferðum sem tryggðu lágmarksfæðuframboð. Vegna einkaleyfa fjölþjóðahringa á útsæði hefur tilkostnaður bænda auk þess vaxið. Höfundar skýrslunnar mæla með því að stjórnvöld banni neyslu og ræktun erfðabreyttra lífvera í löndum sem lagt hafa til stofna í erfðabreytingar til að koma í veg fyrir smit og vernda erfðafjölbreytni. Á sama tíma og tekist hefur síðustu hálfa öldina að auka  stórum framleiðni í landbúnaði hefur ávöxtum hennar verið mjög misskipt auk þess sem hún veldur félagslegu og umhverfislegu tjóni. Um 35% af rýru landi hefur gengið úr sér vegna áhrifa frá landbúnaði.

Svæðisbundin vandamál og áherslur
Í Evrópu og Norður-Ameríku hafa rannsóknir í landbúnaði í mjög auknum mæli verið styrktar af einkaaðilum og þetta hefur haft mikil áhrif á val verkefna og áherslur.
Líffræðileg fjölbreytni hefur verið mikil í Mið- og Vestur-Asíu og Norður-Afríku, en er nú á undanhaldi. Þetta svæði er í sérstakri hættu af loftslagsbreytingum og getur farið illa út úr vatnsskorti í framtíðinni, þar eð grunnvatnsstaða er víða orðin afar lág. Í Austur- og Suðaustur-Asíu er mengun mjög vaxandi vandamál, einkum af köfnunarefni. Í Rómönsku Ameríku og á Karabíusvæðinu hefur aukin landbúnaðarframleiðsla ekki dregið teljandi úr fátækt, sem er hlutskipti 37% íbúa. Í Afríku sunnan Sahara leggur landbúnaður til 32% vergrar þjóðarframleiðslu, en vatnsskortur er þar orðinn vandamál á um 80% ræktarlands.
            Eflaust geta Íslendingar sem aðrir haft not af þessu framlagi UNESCO.

Gleðilegt sumar



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim