Hjörleifur Guttormsson 25. október 2008

Nýfrjálshyggjan og hrun bankakerfisins

Sá sem þetta skrifar var erlendis þegar hrun íslenska bankakerfisins gekk yfir. Ég fylgdist þannig með jarðskjálftum fjármálaheimsins gegnum erlend blöð og stöku innlit á Netið. Sú mynd sem þar blasti við af landinu okkar var nöturleg og veruleikinn eftir að heim var komið bætti ekki um. Meginstaðhæfing erlendu fjölmiðlanna var að Ísland væri gjaldþrota og á vonarvöl, landið sem til skamms tíma dró upp þá sjálfsmynd gagnvart umheiminum að það væri að springa úr velsæld, íbúar þess hamingjusamasta þjóð í heimi og hvergi betra að búa. Hér á því miður við orðtækið Hátt að klifra – lágt að falla. Fram undan er stórt uppgjör samhliða því að fóta sig í gerbreyttu umhverfi.

Hugmyndakerfi nýfrjálshyggjunnar

Hér sem annars staðar hlýtur uppgjörið að beinast að þeim hugmyndaheimi sem ráðið hefur efnahagssiglingu síðustu áratuga. Hann hefur verið kenndur við nýfrjálshyggju og þekktustu merkisberar hans hagfræðingurinn Milton Friedman í Chicago (1912–2006) og á stjórnmálasviðinu þau Ronald Reagan og Margaret Thatcher. Þorri hagfræðinga og stjórnmálaelítu Vesturlanda gerðust áskrifendur að kenningum Chicago-skólans og þær náðu langt inn í raðir þeirra sem eitt sinn töldu sig til vinstri í stjórnmálum. Í þeim hópi voru forystumenn sósíaldemókrata með Tony Blair og New Labour í fararbroddi, forystumenn Samfylkingarinnar ekki undanskildir. Helstu siglingaljós nýfrjálshyggjunnar hafa verið að láta markaðinn ráða för í smáu sem stóru, hafna ríkisafskiptum og einkavæða allt sem höndum væri komið yfir, jafnt almannaþjónustu, atvinnulíf og fjármálastofnanir. Hvað eina sem staðið hefur gegn þessari hugmyndafræði hefur verið fordæmt, eftirlit og takmarkanir af hálfu hins opinbera, starfsemi frjálsra verkalýðsfélaga, að ekki sé talað um stjórnmálamenn sem staðið hafa fyrir önnur gildi. 

Aðvaranir úr ýmsum áttum

Gegn þeim halelújakór sem sungið hefur nýfrjálshyggjunni og afkvæmum hennar lof og dýrð hafa staðið ýmsir gagnrýnir heimsspekingar, hagfræðingar og stjórnmálamenn, flestir tengdir vinstri væng og grænum gildum stjórnmálalitrófsins. Dæmi um brautryðjendur nýrrar hugsunar á þessu sviði eru norski heimsspekingurinn Arne Næss (f. 1912),  norski hagfræðingurinn Fritz C. Holte (f. 1925) og bandaríski hagfræðingurinn Herman E. Daly (f. 1938). Sá síðastnefndi starfaði um skeið hjá Alþjóðabankanum og á hlut að tímaritinu Ecological Economics. Vinstrisósíalistar og flokkar græningja í Evrópu hafa gagnrýnt nýfrjálshyggjuna harðlega og tefla gegn henni hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar sem mjög hlýtur að sækja í sig veðrið í ljósi kreppunnar sem nú ríður yfir. Hérlendis hefur Vinstrihreyfingin grænt framboð um árabil gagnrýnt efnahagsstefnu stjórnvalda og varað við afleiðingum einkavæðingar, útrásar nýríkra lukkuriddara og sívaxandi viðskiptahalla. Þá hefur Ragnar Önundarson viðskiptafræðingur og bankamaður (f. 1952) um árabil gagnrýnt ríkjandi efnahagsstjórn með beinskeyttum og sannfærandi hætti. Það hefur því ekki skort aðvaranir, en þær hafa ekki náð inn fyrir hljóðmúra ráðandi afla.

 

Fjórfrelsi ESB og bankablaðran

Allt þetta ár höfum við heyrt hávær köll Samtaka atvinnulífsins og Samfylkingarinnar eftir aðild Íslands að Evrópusambandinu til þess að mörgum árum liðnum að geta tekið upp Evru. Mér er næst að halda að þetta síendurtekna og óraunsæja hróp eftir evru-bjarghring hafi átt sinn þátt í því að stjórnvöld beindu ekki sjónum sínum að nærtækum úrræðum sem hugsanlega hefðu getað komið í veg hrun bankakerfisins og þær geigvænlegu skuldakröfur sem nú dynja á Íslandi frá „vinaþjóðum“ með Breta í fararbroddi. Í þessu samhengi er líka vert að rifja upp að fjárfestingar og gífurlegar lántökur íslensku bankanna erlendis hafa gerst í skjóli reglugerða Evrópusambandsins sem hér voru lögleiddar með EES-samningnum 1994. Frjálsir fjármagnsflutningar eru hluti af „fjórfrelsinu“ marglofaða sem er hornsteinn innri markaðar ESB og eitt af þeim helgu véum sem ekki má við hrófla. Án stuðnings í tilskipunum ESB hefðu ekki komið til þeir fjárglæfrar íslensku einkabankanna erlendis sem nú eru að færa efnahag almennings hérlendis áratugi til baka.
            Fyrir nær tveimur áratugum voru með reglugerðarbreytingu afnumdar hömlur á fjármagnsflutninga til og frá landinu. Sú skipan var síðan geirnegld með EES-samningnum sem kemur í veg fyrir að íslensk stjórnvöld geti haft stjórn á fjárstreymi inn og út úr landinu og þar með á gengi gjaldmiðilsins til að tryggja fjárhagslegan stöðugleika. Stofnanir eins og Viðskipta- og þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNCTAD) telja stjórn á fjármagnshreyfingum meðal nauðsynlegustu úrræða til að geta brugðist við fjármálakreppu eins og þeirri sem gekk yfir ýmis Asíuríki 1998. Hér lokar EES-samningurinn á slíkt.   

Sjálfbær þróun og græn framtíð

Heimskreppan sem nú er skollin á mun hafa í för með sér gífurlegar og sársaukafullar afleiðingar um víða veröld. Vaxandi félagsleg átök blasa við en mestu skiptir að komið verði í veg fyrir ragnarök kjarnorkustríðs. Kapítalisminn hefur beðið hnekki sem erfitt mun reynast að plástra yfir. Forsenda endurreisnar er að sagt verði skilið við það efnahagskerfi sem kennt er við nýfrjálshyggju. Nógir voru váboðarnir fyrir og nægir í því sambandi að minna á glímuna við loftslagsbreytingar af mannavöldum. Það kerfi sem byggja þarf upp á rústunum verður að þjóna í senn hagsmunum þorra mannkyns og varðveislu þess umhverfis sem við hrærumst í. Því verður sjálfbær þróun og græn framtíð að fá forgang í reynd í stað þeirrar ófreskju sem óheftur kapítalisimi hefur fóstrað og nagar nú undirstöður alls lífs á jörðinni.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim