Hjörleifur Guttormsson 26. maí 2008

Tillögur VG að svari til mannréttindanefndar SÞ

Forysta Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hefur lagt fram tillögur af sinni hálfu um hvernig íslensk stjórnvöld ættu að svara áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 24. október 2007. Frestur stjórnvalda til að svara álitinu er 180 dagar og rennur því út 12. júní. Frá sjávarútvegsráðherra hefur enn ekkert heyrst um hvernig á málinu verði tekið af hálfu stjórnvalda, en í þættinum Silfri Egils 25. maí gáfu forsætis- og utanríkisráðherra til kynna að ekki þurfi að vera mikið kjöt á því beini.

Tillögur VG að æskilegu svari og vísun í greinargerð

Starfshópur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um sjávarútvegsmál hefur í samráði við stjórn og þingflokk unnið tillögur að æskilegu svari til mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Tillögurnar eru af hálfu VG einnig hugsaðar sem almennt innlegg til málsins, til málefnalegra skoðanaskipta og upplýstrar umræðu. Þær eru okkar framlag í því skyni að takast megi góð þverpólitísk samvinna um endanlega úrlausn málsins. Tillögur VG að svari eru eftirfarandi:

  1. Mannréttindanefnd Sþ verði í svari íslenskra stjórnvalda fullvissuð um að þau taki niðurstöður nefndarinnar mjög alvarlega og muni gera sitt ítrasta til að mæta áliti hennar.
  2. 1. gr. laga um stjórn fiskveiða verði breytt á þann veg að inn í markmiðshluta greinarinnar komi orðið jafnræði og hljóði greinin þá á eftirfarandi hátt: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu um leið og jafnræðis verði gætt við úthlutun afnotaréttar og aðgengi að hinni sameiginlegu auðlind. Úthlutun veiðiheimilda skv. lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“
  3. Íslensk stjórnvöld munu þegar hefja vandaðan undirbúning að nauðsynlegum lagabreytingum í því skyni að gera það mögulegt að innkalla aflaheimildir frá núverandi handhöfum. Endurráðstöfun þeirra verður að framkvæma þannig að jafnræðis sé gætt við úthlutunina í samræmi við álit mannréttindanefndarinnar. Um leið er ljóst að gæta þarf meðalhófssjónarmiða og sanngirni gagnvart núverandi handhöfum og tryggja þeim eðlilegan aðlögunartíma til að forðast kollsteypur og að réttur þeirra verði ekki fyrir borð borinn, sbr. tölulið 7.
  4. Til að flýta fyrir og hefja þegar aðlögun að framtíðarskipan mála munu stjórnvöld tryggja með lögum að unnt verði frá og með næsta fiskveiðiári að halda eftir hluta þeirra aflaheimilda sem leigðar eru innan ársins (t.d. 5%), þegar til endurúthlutunar kemur að ári.
  5. Fest verði í lög að skapist forsendur til að auka heildarafla í einstökum tegundum umfram jafnstöðuafla allmargra undangenginna ára (t.d. 3-5 ára) verði slíkt svigrúm notað að hluta eða öllu leyti til að flýta innleiðingu hins nýja stjórnunarfyrirkomulags.
  6. Við endurráðstöfun þeirra aflaheimilda sem til ríkisins koma með þessum hætti verða jafnræðissjónarmið sérstaklega höfð í huga um leið og þess verður kappkostað að styrkja stöðu minni sjávarbyggða og byggja þar upp vissan lágmarksafnotarétt, frumburðarrétt viðkomandi strandsvæða. Þar verði um óframseljanlegar byggðatengdar aflaheimildir að ræða. Með almennum leikreglum verði ætíð tryggt að jafnræðissjónarmiða sé gætt um leið og önnur markmið fiskveiðistjórnarlaga eru tryggð, þ.m.t. hagkvæm nýting auðlindarinnar, umhverfisvernd og sjálfbær þróun.
  7. Íslensk stjórnvöld munu þegar á þessu ári hefja heildarendurskoðun laga um stjórn fiskveiða og verður álit mannréttindanefndar Sþ haft til hliðsjónar við þá endurskoðun. Leitað verður eftir þverpólitískri þátttöku í þeirri endurskoðunarvinnu þannig að hafðir verði með í ráðum  fulltrúar allra þingflokka, sem og helstu heildarsamtaka útgerðar- og fiskvinnsluaðila, sjómanna og fiskverkafólks, sjávarbyggða og annarra sem málið varðar sérstaklega.
  8. Íslensk stjórnvöld munu sjá til þess að mannréttindanefnd Sþ fái reglubundið upplýsingar um framvindu málsins og verði upplýst um hvert einstakt skref sem stigið verður til að koma til móts við álit nefndarinnar.

Greinargerð með tillögum VG (http://www.vg.is/frettir/eldri-frettir/nr/3389).



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim